Raforkulög

Fimmtudaginn 18. mars 2004, kl. 14:14:15 (5529)

2004-03-18 14:14:15# 130. lþ. 86.1 fundur 740. mál: #A raforkulög# (flutningur raforku, gjaldskrár o.fl.) frv., 737. mál: #A Landsnet hf.# frv., 747. mál: #A jöfnun kostnaðar við dreifingu raforku# frv., SJS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 86. fundur, 130. lþ.

[14:14]

Steingrímur J. Sigfússon (andsvar):

Frú forseti. Að sjálfsögðu þarf að hafa í huga ef menn eru að gera samanburð á raforkukerfum að aðstæður eru mismunandi, bæði stærðir og landfræðilegar aðstæður, veðurfarslegar og annað. Þó ég taki mið af reynslu og nefni til sögunnar reynslu manna af einkavæðingu raforkukerfa í Kaliforníu á austurströnd Bandaríkjanna, Skáni og Sjálandi o.s.frv. þýðir það ekki að ég sé þar með að fullyrða að þetta sé að öllu leyti eins, ekki efnislega eins. En ég tel að hætturnar sem eru samfara einkavæðingunni, gryfjurnar sem menn hafa lent í, séu allar til staðar hjá okkur, þ.e. að arðsemiskrafan og það að skila eigendunum hagnaði, að draga arð út úr fyrirtækjunum, kemur til sem breyta og menn fara að hafa tilhneigingu til að trassa það og spara sér það sem þeir geta í aftaginu viðhald og fyrirbyggjandi aðgerðir. Það dregur úr örygginu bæði vegna þess að menn reka kerfið á meiri viðskiptaforsendum dag frá degi, eins og ég nefndi dæmin um frá Skandinavíu þar sem mönnum lá svo á að selja rafmagnið að þeir gáfu sér ekki tíma til að láta safnast í uppistöðulónin, og síðan trassa menn dreifikerfin og það eru náttúrlega fyrst og fremst háspennulínurnar og meginflutningakerfin sem eru varasöm í sambandi við rafmagnsleysi. Þó að menn kunni að hafa gamlar loftlínur í einhverjum kaupstöðum í Mexíkó eða hvar það nú er til að dreifa rafmagninu í þéttbýli, sem er fyrirkomulag sem okkur mundi ekki lítast á, er það ekki eins alvarlegt og þegar rafmagnsleysið breiðist út í meginflutningakerfunum. Það var það sem olli hinu stórfellda rafmagnsleysi bæði á austurströnd Bandaríkjanna, á Skáni og Sjálandi o.s.frv.

Hvað varðar afhendingaröryggi og hluti eins og t.d. þá að menn líti á það sem skyldu sína að tryggja öryggi, og þess vegna hefur Rarik lagt jarðstrengi til að flytja rafmagn yfir erfið svæði eins og Melrakkasléttu. Mundu einkafyrirtæki með arðsemiskröfuna á bakinu gera það? Ég er ekki viss um það.