Raforkulög

Fimmtudaginn 18. mars 2004, kl. 14:18:54 (5531)

2004-03-18 14:18:54# 130. lþ. 86.1 fundur 740. mál: #A raforkulög# (flutningur raforku, gjaldskrár o.fl.) frv., 737. mál: #A Landsnet hf.# frv., 747. mál: #A jöfnun kostnaðar við dreifingu raforku# frv., SJS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 86. fundur, 130. lþ.

[14:18]

Steingrímur J. Sigfússon (andsvar):

Frú forseti. Enda gerði ég það, ég nefndi mörg dæmi úr ýmsum áttum í heiminum þar sem lærdómurinn er meira og minna allur sá sami. Þetta hefur ósköp einfaldlega gefist illa. Það er til marks um hina trúarbragðakenndu nálgun nýfrjálshyggjumanna og markaðshyggjumanna, eins og reyndar orkustjórinn í Kaliforníu benti mönnum á, að reynslan skiptir engu máli. Raunheimurinn skiptir engu máli. Kenningin skal vera rétt. Það skal vera rétt að halda út á þessa markaðs- og einkavæðingarbraut þó svo þetta hafi leitt til meiri og minni ófarnaðar alls staðar. (Gripið fram í.) Hæstv. ráðherra hefur gaman af setningunni að við séum á móti. En að hæstv. ráðherra sé þar með að sanna að t.d. sá sem hér stendur sé hentistefnumaður í pólitík, það er ný tilraun ef hæstv. ráðherra er á þeirri skoðun. Mér heyrist það liggja í orðunum að ef við hefðum verið með einkavætt raforkukerfi og ætluðum að færa það yfir í félagslegan rekstur hefði ég líka verið á móti því, af því að aðalatriðið væri að vera á móti. Finnst hæstv. ráðherra þetta líklegt fyrir utan hvað þetta er málefnalegt?

Nei, ég held að við höfum fært fram mjög gild og veigamikil rök fyrir mikilvægi og gildi þess að líta á hluti af þessu tagi sem undirstöðu samfélagsþjónustu, sem undirstöðu almannaþjónustu, tryggja öllum landsmönnum jafnan aðgang og jafnan rétt eftir því sem kostur er af því að í slíku samfélagi viljum við búa. Það er ákaflega athyglisvert. Það eru að mínu mati veruleg pólitísk tíðindi hvernig Framsfl. hefur með öllu yfirgefið grundvallarviðmið af þessu tagi í stjórnmálum. Er á margan hátt orðinn markaðssinnaðri en Sjálfstfl., sérstaklega hin nýja forusta Framsfl. Ég trúi því ekki að nafni minn Hermannsson hefði nokkurn tíma staðið í ræðustóli á Alþingi og talað með þeim hætti um undirstöðu almannaþjónustu eins og hæstv. iðn.- og viðskrh. gerði áðan. (Gripið fram í.) Ekki gerði hann það a.m.k. á þeim dögum sem við unnum saman í pólitík. En nýja forustan í Framsfl. er komin til hægri við repúblikanaflokkinn í Kaliforníu. Það er meginniðurstaða umræðunnar í dag.