Raforkulög

Fimmtudaginn 18. mars 2004, kl. 15:40:23 (5541)

2004-03-18 15:40:23# 130. lþ. 86.1 fundur 740. mál: #A raforkulög# (flutningur raforku, gjaldskrár o.fl.) frv., 737. mál: #A Landsnet hf.# frv., 747. mál: #A jöfnun kostnaðar við dreifingu raforku# frv., SKK
[prenta uppsett í dálka] 86. fundur, 130. lþ.

[15:40]

Sigurður Kári Kristjánsson:

Virðulegi forseti. Ég sé ástæðu til að taka til máls í umræðum um þau frv. á sviði raforkuframleiðslu, dreifingar o.s.frv. sem hér eru til umfjöllunar. Í sjálfu sér eru að mínu mati mörg atriði sem rétt er að taka til skoðunar varðandi frv. og ég geri ráð fyrir að við sem sitjum í hv. iðnn. munum gera það. Ég ætla í sjálfu sér ekki að víkja að öllum þeim atriðum sem kannski væri ástæða til að hafa orð á, aðrir hv. þm. hafa gert það hér í dag og ég ætla svo sem ekki að lengja umræðuna.

Mig langar þó til að víkja að einu atriði varðandi þessi mál sem ekki hefur verið til umræðu í dag. Ég tel að við endurskoðun og breytingar á raforkulögunum og breytingu á þessu kerfi í heild sinni sé nauðsynlegt að taka til skoðunar hvort ekki sé rétt að breyta lögunum þannig að hlutverk orkufyrirtækjanna og þeirra aðila sem undir þessi lög falla verði skilgreind nánar en nú er gert og starfsemi þeirra afmörkuð með skýrari hætti en gert er, með öðrum orðum að færð verði í lög nánari ákvæði um þau verkefni sem þessum fyrirtækjum er skylt og heimilt að sinna.

Ef við skoðum núgildandi raforkulög, nr. 65/2003, kemur fram í 4. mgr. 8. gr. laganna sem fjallar um rekstur flutningskerfis og kerfisstjórnun að ,,flutningsfyrirtækið má ekki stunda aðra starfsemi en þá sem því er nauðsynleg til að geta rækt skyldur sínar samkvæmt lögum``. Það er loku fyrir það skotið að flutningsfyrirtækjunum sé heimilt að standa í annars konar og óskyldri starfsemi en þeim er ætlað að sinna samkvæmt lögunum.

Víkjum síðan að IV. kafla laganna sem varðar dreifinguna og skoðum sérstaklega 2. mgr. 16. gr. en hún fjallar um starfsemi og skyldur dreifiveitna. Þar segir, með leyfi forseta:

,,Stundi dreifiveita aðra starfsemi en raforkudreifingu skal fyrirtækið í bókhaldi sínu halda reikningum vegna dreifingar aðskildum frá reikningum vegna annarrar starfsemi.``

Vegna annarrar starfsemi, virðulegi forseti. Dreifiveitum er heimilt samkvæmt núgildandi lögum að standa í annarri starfsemi en dreifingu á raforku. Það þarf svo sem ekki að koma á óvart og það er alveg ljóst hvert tilefni þessarar ræðu og þessarar athugasemdar minnar er. Ástæðan fyrir því að ég færi þessi atriði í tal er sú að fyrirtæki hér í bæ, Orkuveita Reykjavíkur, hefur tekið sér fyrir hendur starfsemi á síðustu missirum og síðustu árum sem tengist ekki að neinu leyti þeirri þjónustu sem því fyrirtæki er ætlað að veita. Fyrirtækið hefur verið mjög umsvifamikið á fjarskiptamarkaði með fjárfestingum sínum í fyrirtækjum eins og Tetra Ísland og Línu.neti og ég tel að þær fjárfestingar Orkuveitu Reykjavíkur séu ekki í nokkru samræmi við starfsemi þess fyrirtækis. Við vitum það af fréttaflutningi undanfarinna vikna og missira að fyrirtækið hefur orðið fyrir gríðarlegum rekstrarlegum áföllum og tekjutapi vegna þessara fjárfestinga og það tap leiðir óneitanlega, og hefur leitt, til þess að stjórnarmenn fyrirtækisins hafa þurft að ná þessu tapi inn með einhverjum hætti. Þá er nærtækast að rukka þá sem nýta sér þessa þjónustu um hærri gjöld.

Steininn tók síðan úr þegar fyrirsvarsmenn Orkuveitu Reykjavíkur upplýstu okkur landsmenn, og Reykvíkinga, um það að þeir hygðu á þátttöku í svokölluðu risarækjueldi. Það þarf ekki skynsaman mann til að sjá að þátttaka orkufyrirtækis í fiskeldi er út úr öllum kortum og langt fyrir utan það svið sem slíkum fyrirtækjum er ætlað að sinna. Ég tel að raforkufyrirtækin, sérstaklega þegar þau eru í eigu ríkis eða sveitarfélaga, eigi að einbeita sér að þeirri þjónustu sem þeim ber að sinna en ekki að vera að eyða fjármunum borgaranna í gæluverkefni eins og þau sem ég hef hér nefnt. Þau eiga að einbeita sér að því að rukka notendur ekki fyrir annað en þá þjónustu sem veitt er og ekkert umfram það.

Ég nefni þetta sem dæmi til rökstuðnings fyrir því að ég tel að við yfirferð þessara frv. og yfir þetta svið í heild sinni beri hv. iðnn. að taka þessi atriði til skoðunar, m.a. með hliðsjón af reynslu sögunnar, og kanna möguleika á því hvort ekki sé ástæða til, eins og ég vék að í upphafi ræðu minnar, að skilgreina hlutverk orkufyrirtækjanna nánar og afmarka þá starfsemi sem þeim er ætlað að sinna. Þá vísa ég aftur einkum til 2. mgr. 16. gr. núgildandi raforkulaga þar sem ekki er loku fyrir það skotið að dreifiveitur sem stunda raforkudreifingu sinni annarri starfsemi svo lengi sem fjárhagurinn er aðskilinn í bókhaldi félagsins eða fyrirtækisins. Ég tel rök til þess, eins og ég segi, virðulegi forseti, að þessi atriði verði könnuð nánar og að iðnn. taki þetta atriði sérstaklega til athugunar.