Raforkulög

Fimmtudaginn 18. mars 2004, kl. 16:30:51 (5548)

2004-03-18 16:30:51# 130. lþ. 86.1 fundur 740. mál: #A raforkulög# (flutningur raforku, gjaldskrár o.fl.) frv., 737. mál: #A Landsnet hf.# frv., 747. mál: #A jöfnun kostnaðar við dreifingu raforku# frv., GunnB
[prenta uppsett í dálka] 86. fundur, 130. lþ.

[16:30]

Gunnar Birgisson:

Virðulegi forseti. Hér er verið að fjalla um mjög stórt og flókið mál, sem er breytingar á raforkulögum og stofnun Landsnets, flutningskerfi fyrir landið. Ástæða þess er kannski fyrst og fremst tilskipun frá Evrópusambandinu. Síðan telja menn að það hefði verið hægt að gera það með öðrum hætti, en yfirvöld notfæra sér að setja þetta allt í eitt kerfi sem er af hinu góða. Það hefur verið skoðun mín lengi, frú forseti, að menn hafa haft möguleika til að selja inn á kerfið og selja þeim kúnnum sem þeir vilja og kaupa síðan af raforkuframleiðendum, þ.e. þeim sem nota það, af þeim sem býður best.

Hér hefur því verið talað mikið, m.a. fulltrúar þess flokks, hv. þm. Ögmundur Jónasson og Jón Bjarnason, virðulegur forseti, sem vilja hafa allt ríkisvætt eða samfélagsvætt. Raforkan er eign landsmanna sagði einhver hv. þm., en það er náttúrlega ekki þannig, hún getur orðið eign einhverra færri aðila.

En ég tel mikinn kost að setja inn á kerfið til ákveðinna notenda. Ég fylgdist með því þegar menn voru að byrja á þessu í Evrópu á sínum tíma. Menn bundu miklar vonir við þetta. Og hvað gerðist þegar menn voru búnir að setja inn eitt kerfi í Evrópu? Menn komust að því þegar byrjað var að samkeyra raforkukerfin að það varð allt í einu afgangsrafmagn í kerfinu. Menn nýttu þetta betur og verð lækkaði til neytendanna. Aftur á móti horfir þetta svolítið öðruvísi við hér þar sem einn framleiðandinn framleiðir 90% af rafmagninu og hinir það sem eftir er. Ég held samt að kerfið muni verða hvati fyrir fleiri til að virkja og fram kæmu smávirkjanir, hagkvæmar virkjanir o.fl. Einnig geta menn selt inn á netið og kannski selt kúnnum ódýrara af netinu og þar af leiðandi hvatt menn til að fara í slíka framleiðslu.

Þá er næsta spurning með Landsnet, eða þetta kerfi: Á kerfið að vera í eigu hins opinbera eða ekki? Þá er spurningin sú að ef það væri selt og sá sem mundi kaupa, lífeyrissjóður eða einhverjir fjárfestar, hvaða ávöxtunarkröfu mundu þeir gera á Landsnet? Það hefur verið skoðun mín í málinu að þetta eigi ekki að fara í slíkt, heldur að vera í eigu hins opinbera. Nákvæmlega sama gildir um grunnnet Símans að mínu mati. Því ávöxtunarkrafa þess sem mun taka yfir mun verða --- ja, hver er ávöxtunarkrafan í dag? 6%--8% á eigið fé.

Svo spyr maður sig, frú forseti, þegar þetta er komið, sem að mínu mati er af hinu góða: Hvað gerist með raforkuverðið í landinu? Hækkar það eða lækkar það? Lækkar það eins og það gerði í Evrópu eða hækkar það?

Eins og ég gat um í upphafi er þetta flókið mál og töluverð vinna að setja sig inn í það og átta sig á staðreyndum málsins. En með því að hlusta á það sem forstjórar stærstu orkufyrirtækjanna hafa látið frá sér fara, eins og t.d. forstjóri Landsvirkjunar, sem hefur sagt að þetta sé flókið og mötunarbúnaður, stýring og annað í kerfinu sé mjög dýrt og menn þurfi að fjárfesta í stýrikerfum sem gæti þýtt allt að 4% hækkun á flutningi raforkunnar.

Síðan hlustar maður á forstjóra Orkuveitu Reykjavíkur sem hefur sagt að þetta gæti verið allt að 20% hækkun á rafmagnsverði á höfuðborgarsvæðinu, ef ávöxtunarkrafan er færð upp í 6%. Forstjóri Hitaveitu Suðurnesja hefur svipaða sögu að segja.

Í 9. gr. segir að 17. gr. laganna orðist svo, með leyfi forseta, vegna kostnaðar við dreifingu raforku, þ.e. um dreifiveitur:

,,Tekjumörkin skulu ákveðin út frá eftirfarandi viðmiðum:

1. Kostnaði sem tengist starfsemi dreifiveitu, þ.m.t. kostnaði vegna viðhalds, afskrifta á nauðsynlegum eignum til reksturs kerfisins, kostnaði vegna flutnings um flutningskerfið, almennum rekstrarkostnaði og kostnaði við kerfisstjórnun í dreifikerfinu.

2. Arðsemi dreifiveitu skal vera sem næst markaðsávöxtun óverðtryggðra ríkisskuldabréfa til fimm ára eða sambærilegra verðbréfa. Arðsemi reiknast sem hlutfall hagnaðar fyrir fjármunatekjur, fjármagnsgjöld og skatta og bókfærðs verðs fastafjármuna.`` --- Þetta viðmið er athyglisverðast í þessu.

,,3. Hagræðingarkröfu sem skal taka mið af eðlilegum kostnaði samkvæmt mati Orkustofnunar að teknu tilliti til þeirrar þjónustu sem dreifiveitan veitir.

Tekjumörk skulu ákveðin til þriggja ára í senn. Þó er heimilt að endurskoða tekjumörk árlega ef forsendur breytast verulega að mati Orkustofnunar.``

Enn fremur segir í sömu grein, með leyfi forseta:

,,Komi í ljós að arðsemi dreifiveitu síðastliðin þrjú ár er undir helmingi af markaðsávöxtun óverðtryggðra ríkisskuldabréfa til fimm ára eða sambærilegra verðbréfa eða meira en þriðjungi yfir sömu ávöxtun skal taka tillit til þess við setningu tekjumarka og gerð gjaldskrár næsta árs.``

Þetta segir mér að ávöxtunarkrafa dreifiveitnanna er tiltölulega bundin niður og hleypur á einhverju bili. Forstjórar Hitaveitu Suðurnesja og Orkuveitunnar hafa bent á þetta. Talað er um að menn eigi að leggja af stað með 2%--3% arðsemi af fastafé. Og hvað svo? Mun orkuverðið hækka eða lækka? Ég skora á hv. iðnn. að skoða þessi mál mjög vel og fara mjög vel í gegnum þetta. Það er ekki nóg bara fyrstu þrjú árin eða fyrstu fimm árin, heldur til framtíðar. Ef við horfum á hvað gerðist í Evrópu lækkaði orkuverðið út af gnótt af raforku. Það var bara eðli markaðarins. En hvað gerðist? Verð til heimila hækkaði. Verð til fyrirtækja lækkaði út af því að fyrirtækin voru náttúrlega í betri stöðu til að semja við orkuframleiðendurna um orkuna og verð á orkunni en heimilin. Þetta er það sem er gert þar.

Þetta eru staðreyndir sem við verðum að horfa á. Ég get fyrir mína parta ekki fallist á að við séum að fara í þetta kerfi svona, sem ég er mjög hlynntur, tek það fram, frú forseti, en ég er ekki hlynntur því ef það þýðir að orkuverð til heimila og fyrirtækja í landinu hækkar. Þá spyr maður sjálfan sig: Til hvers vorum við að þessu? Hefðum við getað farið með tilskipunina frá Evrópusambandinu einhvern veginn öðruvísi, sem menn hafa verið með ýmsar meiningar um?

Hér verður að vanda mjög vel vinnuna í málinu. Þetta er flókið mál og erfitt að setja sig í þaula inn í alla hluta þess. Þetta hefur verið þannig hjá sumum hverjum sem hafa framleitt, eins og hjá Hitaveitu Suðurnesja og Orkuveitunni, að dreifikerfið hefur verið greitt niður með ódýrri framleiðslu. Hvernig á að reikna þetta núna? Eiga menn að gera þetta áfram? Og þetta á ekki að hafa nein áhrif á verðið, eða eiga menn að fara eftir lögunum með arðsemiskröfurnar og allt það?

Það sem ég er að segja er að ég tel að flutningskerfið eigi að vera áfram í eigu hins opinbera með eðlilegar arðsemiskröfur. Ef við seljum þetta til aðila eiga arðsemiskröfurnar eftir að hækka og verðið þar af leiðandi líka. Sama gildir um grunnnet Símans, enn og aftur.

Ég er mjög fylgjandi fyrirkomulagi sem hvetur menn til að framleiða ódýrt rafmagn og geta selt það notanda sem kaupir það. Þá er hann í kerfi sem hann getur stungið í samband og greiðir fyrir flutninginn til notandans. Það er plúsinn í kerfinu. Við megum samt ekki hafa stýringar á kerfinu og allt það tæknilega flókið að orkuverðið hækki.

Ég vil slá þessa varnagla og skora á hv. iðnn. að skoða málið mjög gaumgæfilega til að ekki komi til slíks, því fyrir mína parta verður maður að taka mark á þeim mönnum sem hafa verið með þessar fullyrðingar í fjölmiðlum æ ofan í æ. Manni finnst einhvern veginn ekki hægt að láta þetta fljóta fram hjá og ég bið menn að skoða það og fara mjög varlega í málinu.