Einkaleyfi

Fimmtudaginn 18. mars 2004, kl. 17:00:37 (5551)

2004-03-18 17:00:37# 130. lþ. 86.4 fundur 751. mál: #A einkaleyfi# (evrópski einkaleyfasamningurinn o.fl.) frv., iðnrh. (flutningsræða)
[prenta uppsett í dálka] 86. fundur, 130. lþ.

[17:00]

Iðnaðarráðherra (Valgerður Sverrisdóttir):

Hæstv. forseti. Ég mæli sem iðnrh. fyrir frv. til laga um breytingu á lögum nr. 17/1991, um einkaleyfi, með síðari breytingum.

Með frv. þessu sem lagt er fram í framhaldi af samþykkt ríkisstjórnarinnar frá 29. nóvember 2002, um aðild Íslands að evrópska einkaleyfasamningnum, er aðallega stefnt að breytingum á lögum um einkaleyfi vegna aðildar Íslands að evrópska einkaleyfasamningnum, auk breytinga vegna ákvæða samstarfssamningsins um einkaleyfi sem Ísland er aðili að og samræmingar á einkaleyfaframkvæmd á alþjóðavettvangi.

Evrópski einkaleyfasamningurinn var undirritaður árið 1973 og gekk í gildi 1977, en var m.a. breytt árið 2000. Þá var einnig gert ráð fyrir aðild að samningi sem snertir 65. gr. evrópska einkaleyfasamningsins og varðar þýðingar einkaleyfa.

Utanrrh. leggur fram þáltill. sem geymir m.a. texta viðkomandi samningsákvæða. Í tillögu hans verður farið fram á heimild til aðildar að samningnum.

Það skal tekið fram að Evrópska einkaleyfastofnunin, European Patent Organisation, (EPO) sem hefur höfuðstöðvar í München, er svæðisstofnun í skilningi samstarfssamningsins um einkaleyfi. Í samstarfssamningnum felst að leggja má inn alþjóðlegar umsóknir sem sendar eru áfram til einstakra ríkja til skráningar.

Markmið með evrópska einkaleyfasamningnum er hins vegar að koma upp samræmdu einkaleyfakerfi í Evrópu sem gerir það auðveldara, ódýrara og tryggara að fá einkaleyfi í aðildarríkjum, eða evrópska einkaleyfasamningnum. Má þannig sækja um einkaleyfi á einum stað á einu tungumáli fyrir aðildarríkin öll. Sömu réttindi fást við veitingu leyfis og ef sótt væri um í einstöku ríki. Verður kostnaðurinn við að fá evrópsk einkaleyfi almennt svipaður og kosta mundi að öðlast einkaleyfi með því að leita til þriggja ríkja.

Til samanburðar má nefna að í heiminum er að meðaltali sótt um einkaleyfi í níu ríkjum fyrir hverja uppfinningu, þannig að augljós sparnaður getur hlotist af aðild að evrópska einkaleyfasamningnum.

Þess má geta til fróðleiks að á árinu 2002 voru yfir 4 milljónir einkaleyfa í gildi í heiminum. Umsóknarfjöldi á hverju ári í heiminum öllum hefur verið um 700.000. Evrópska einkaleyfastofnunin fékk um 150.000 umsóknir á árinu 2001 til meðferðar, eða um fimmta hluta allra einkaleyfaumsókna í heiminum.

Hinn 1. ágúst 2003 voru aðildarríki að evrópska einkaleyfasamningnum 27, m.a. öll 15 ríki Evrópusambandsins og auk þess Sviss, Liechtenstein, Tékkland, Slóvakía, Búlgaría, Eistland, Tyrkland, Kýpur, Mónakó, Slóvenía, Ungverjaland og Rúmenía. Á árinu 2004 er ráðgert að Pólland, Litháen, Lettland og Malta bætist við. Af Norðurlöndunum eru það aðeins Ísland og Noregur sem eiga ekki aðild að evrópska einkaleyfasamningnum. Gert er ráð fyrir aðild Noregs á árinu 2005.

Aðild Íslands að evrópska einkaleyfasamningnum og gerð lagafrv. á sér nokkurn aðdraganda. Meðal annars komst nefnd, sem ég sem iðnrh. skipaði, að þeirri niðurstöðu á árinu 2001 að kostir aðildar Íslands að samningnum væru ráðandi og að engin veigamikil atriði mæltu á móti henni. Vinna við gerð frv. mæddi einkum á iðnrn. og Einkaleyfastofunni. Frumvarpið er í öllum meginatriðum samhljóða löggjöf um evrópsk einkaleyfi annars staðar á Norðurlöndunum. Með evrópska einkaleyfasamningnum er verið að styrkja samvinnu meðal Evrópuríkja varðandi vernd uppfinninga. Eru einkaleyfi veitt á grundvelli sameiginlegrar málsmeðferðar. Með einni umsókn á ensku, þýsku eða frönsku er unnt að fá einkaleyfi í fleiri en einu aðildarríki. Má segja að evrópskt einkaleyfi sé ígildi margra landsbundinna einkaleyfa sem þarf þó að staðfesta í hverju landi til að það öðlist gildi. Evrópskt einkaleyfi, sem hefur verið staðfest í aðildarríki, veitir sömu réttindi og einkaleyfi veitt í viðkomandi landi.

Þótt íslenskir aðilar hafi getað sent umsóknir til Evrópsku einkaleyfastofnunarinnar, er nú talið rétt að Ísland skipi sér í sess með nágrannaríkjum sínum með aðild að samningnum. Er talið að viðskiptaumhverfi og samkeppnisstaða fyrirtækja hér á landi batni með frv. verði það að lögum. Verður íslenskum aðilum gert kleift að öðlast réttindi í mörgum ríkjum með einu einkaleyfi með einfaldari og ódýrari hætti.

Fleiri kostir geta tengst aðild. Samheitalyfjaiðnaðurinn telur hins vegar að einhver aukning einkaleyfa geti orðið hér á landi af hálfu lítilla erlendra lyfjaframleiðenda, en erfitt er að meta neikvæð áhrif af slíku. Stóru erlendu lyfjaframleiðendurnir eru taldir gæta hagsmuna sinna með einkaleyfi hér á landi, hvort sem Ísland er aðili að evrópska einkaleyfasamningnum eða ekki. Í þessu sambandi má minna á að það mun hafa jákvæð á hrif á hagsmuni íslenskra samheitalyfjaframleiðenda að Evrópusambandið er um þessar mundir að breyta reglum sínum um möguleika á þróun og skráningu samheitalyfja á einkaleyfistíma og hins vegar um leynd lyfjaupplýsinga.

Ég vil taka fram að í frv. er tekið tillit til þeirra breytinga sem samþykktar voru á evrópska einkaleyfasamningnum árið 2000, þar eð stefnt er að því að Ísland verði aðili að breytingasamningnum, auk samningsins frá 1973.

Þá er gert ráð fyrir, eins og ég hef greint frá, að Ísland gerist aðili að svokölluðum Lundúnasamningi um beitingu 65. gr. evrópska einkaleyfasamningsins samfara aðild að þeim samningi. Geta aðildarríkin á grundvelli samningsins vikið í heild eða að hluta frá kröfum um þýðingar á einkaleyfum. Þannig þarf ekki að þýða einkaleyfislýsingu, en heimilt er að krefjast þýðingar á einkaleyfiskröfum sem eru mun styttri. Getur þýðingarkostnaðurinn lækkað stórlega við þetta eða um u.þ.b. 50%.

Hvað snertir áhrif aðildar Íslands að evrópska einkaleyfasamningnum vil ég fyrst taka fram að miklar breytingar hafa orðið á einkaleyfamálum undanfarna áratugi. Hafa þær einkennst af stórauknu alþjóðlegu samstarfi m.a. svæðisbundnu samstarfi og samræmingu reglna. Því hafa orðið til alþjóðleg kerfi til hagræðis þeim sem sækjast eftir verndun uppfinninga sinna. Evrópska einkaleyfastofan, European Patent Office, sem er hluti af Evrópsku einkaleyfastofnuninni, er ein af þremur helstu stofnunum í heiminum sem veita einkaleyfi. Hinar tvær eru bandaríska einkaleyfastofan og japanska einkaleyfastofan.

Eins og áður segir fer um fimmta hver einkaleyfisumsókn í heiminum til Evrópsku einkaleyfastofunnar og með starfi hennar er reynt að stuðla að meiri nýsköpun, aukinni samkeppni og eflingu hagvaxtar í Evrópu, enda er hátæknisamfélag nútímans talið krefjast öflugs og trausts einkaleyfakerfis sem nýta má til umbunar og verndar fyrir þá sem vinna að nýsköpun og þróun. Með aðild Íslands að evrópska einkaleyfasamningnum er rennt frekari stoðum undir nýsköpun og þróun hér á landi.

Hlutverk Einkaleyfastofunnar við veitingu einkaleyfa mun breytast nokkuð við aðild að evrópska einkaleyfasamningnum. Evrópska einkaleyfastofan veitir einkaleyfi fyrir öll aðildarríki sín. Búast má við því að meiri hluti allra einkaleyfa hér á landi verði einkaleyfi frá Evrópsku einkaleyfastofunni. Ýmis ný verkefni munu tengjast útgáfu evrópsku einkaleyfanna hér á landi og draga mun úr verkefnum sem tengjast útgáfu landsbundinna einkaleyfa. Verkefni Einkaleyfastofunnar munu því breytast. Jafnframt mun aðildin hafa áhrif á rekstur Einkaleyfastofunnar. Einkaleyfayfirvöld í aðildarríkjum hafa ekki tekjur af evrópskum einkaleyfisumsóknum. Tekjur þeirra byggjast á útgáfugjöldum og árgjöldum fyrir veitt einkaleyfi en helmingur árgjaldanna nánar tiltekið rennur til aðildarríkjanna.

Gera má ráð fyrir að tekjur Einkaleyfastofunnar dragist því verulega saman í 3--5 ár eftir aðild að evrópska einkaleyfasamningnum þegar umsóknagjöld dragast saman en aukist síðan eftir það þegar Einkaleyfastofan fer að fá hluta árgjalda af einkaleyfum og útgáfugjöld.

Helstu nýmæli frv. eru þau að bætt er inn í einkaleyfalöggjöfina kafla um evrópsk einkaleyfi þar sem íslensk löggjöf er samræmd evrópska einkaleyfasamningnum frá 1973, breytingum á þeim samningi frá 2000 og Lundúnasamningnum varðandi þýðingar, sem snertir 65. gr. samningsins. Verður þannig skapaður lagagrundvöllur fyrir það að unnt sé að framfylgja viðkomandi samningum hér á landi.

Má nefna sem dæmi að afnumin er sú takmörkun varðandi einkaleyfishæfi þekktra efna og efnasambanda sem nota á við lækningaaðferðir að um fyrstu læknisfræðilegu notkun þurfi að vera að ræða. Hefur framkvæmd meðal ríkja víða breyst varðandi þetta atriði. Þannig eru nú víða veitt einkaleyfi fyrir uppfinningu sem varða það þegar fundin er ný læknisfræðileg notkun þekkts efnis.

Ekki þykir ástæða til að geta allra nýmæla í ræðu minni hér, hæstv. forseti. En ég mælist til þess að málinu verði að lokinni umræðu vísað til 2. umr. og hv. iðnn.