Járnblendiverksmiðja í Hvalfirði

Fimmtudaginn 18. mars 2004, kl. 17:11:36 (5552)

2004-03-18 17:11:36# 130. lþ. 86.5 fundur 754. mál: #A járnblendiverksmiðja í Hvalfirði# (breytt eignarhald) frv., iðnrh. (flutningsræða)
[prenta uppsett í dálka] 86. fundur, 130. lþ.

[17:11]

Iðnaðarráðherra (Valgerður Sverrisdóttir):

Hæstv. forseti. Ég mæli fyrir frv. til laga um breytingu á lögum, um járnblendiverksmiðjuna í Hvalfirði, sem er 754. mál þingsins.

Frumvarpið er flutt til að afla heimilda til að gera breytingar á aðalsamningi á milli ríkisstjórnar Íslands, Elkem ASA og Íslenska járnblendifélagsins ehf. Breytingarnar eru fyrst og fremst tilkomnar vegna breytinga á eignarhaldi Íslenska járnblendifélagsins. Þá er í frv. lagt til að ýmis ákvæði laga nr. 18/1977 verði felld úr gildi eða þeim breytt þar sem þau eru ýmist orðin óþörf eða úrelt.

Það er kunnara en frá þurfi að segja að á undanförnum árum hafa orðið miklar breytingar á rekstri Íslenska járnblendifélagsins. Í kjölfar undirritunar samnings um aukningu hlutafjár og stækkun verksmiðju félagsins árið 1997 öðlaðist norska fyrirtækið Elkem ASA meiri hluta í félaginu. Ári síðar ákvað ríkisstjórnin að selja hluta af hlutabréfum ríkissjóðs í félaginu til kjölfestufjárfesta, auk þess sem almenningi og starfsmönnum Íslenska járnblendifélagsins var boðið að kaupa bréf í félaginu. Íslenska járnblendifélagið var skráð á aðallista Verðbréfaþings Íslands 18. maí 1998.

Í kjölfar skráningar á Verðbréfaþingi Íslands komu upp erfiðleikar í rekstri félagsins sem nánari grein er gerð fyrir í grg. frv. Þessir erfiðleikar leiddu til þess að hluthafar urðu í tvígang að grípa til hlutafjáraukningar. Tók ríkissjóður þátt í þeim aðgerðum, sem m.a. voru hugsaðar til að koma í veg fyrir að sú hætta skapaðist að félagið gæti ekki staðið við skilmála langtímalána um lágmarkseiginfjárhlutfall.

Í maí 2002 áttu fulltrúar Elkem og iðnrn. fund um málefni Íslenska járnblendifélagsins. Á fundinum kom fram að Elkem hafði hug á að auka hlutafé félagsins enn frekar og breyta rekstri félagsins þannig að möguleikar gæfust á að fara út í annars konar framleiðslu, samhliða öðrum rekstri. Vegna þeirra breytinga væri þörf á umtalsverðri fjárfestingu og lýsti Elkem yfir áhuga á að eignarhald yrði einungis á hendi Elkem. Fyrir lá sú stefna ríkisstjórnarinnar að hverfa úr félaginu sem eignaraðili og að ríkissjóður hefði því ekki hug á að taka þátt í frekari hlutafjáraukningu.

Í kjölfar þess fundar ákvað ríkisstjórnin að ganga til viðræðna við Elkem með það að leiðarljósi að ríkissjóður færi út úr félaginu, en reynt yrði að tryggja hagsmuni annarra smærri hluthafa eftir því sem kostur væri. Viðræður við Elkem voru teknar upp að nýju í lok árs 2002 og 11. desember það ár undirrituðu fulltrúar iðnrh., Sumitomo Corporation og Elkem samninga um kaup Elkem á hlut ríkissjóðs og Sumitomo í Íslenska járnblendifélaginu. Eftir kaupin átti Elkem 86,51% allra útgefinna hluta í félaginu. Í samningnum var jafnframt tryggt að Elkem byðist til að kaupa hluti annarra hluthafa á sömu kjörum. Í samræmi við þetta gerði Elkem öðrum hluthöfum kauptilboð og bárust 434 samþykki frá hluthöfum. Við það varð hlutur Elkem í Íslenska járnblendifélaginu 97,18%. Í kjölfar þessara viðskipta var ljóst að félagið uppfyllti ekki lengur skilyrði skráningar í Kauphöll Ísland og var félagið afskráð í mars á síðasta ári. Í lok síðasta árs eignaðist Elkem síðustu hlutina í Íslenska járnblendifélaginu og varð þar með eini eigandi félagsins. Í kjölfarið var Íslenska járnblendifélaginu breytt í einkahlutafélag.

[17:15]

Samhliða undirritun samninga um kaup á hlut ríkisins og Sumitomo í Íslenska járnblendifélaginu undirrituðu fulltrúar ríkisstjórnar Íslands, Elkem, Sumitomo og Íslenska járnblendifélagsins viðauka við aðalsamning aðila þar sem felld voru brott ákvæði sem vörðuðu eignarfyrirkomulag og ekki höfðu lengur þýðingu í ljósi þess að íslenska ríkið og Sumitomo voru ekki lengur hluthafar. Í samningnum var jafnframt kveðið á um að ríkisstjórnin og Elkem mundu gera aðrar nauðsynlegar breytingar á aðalsamningnum fyrir 31. maí 2003. Viðræður um þessar breytingar hafa staðið lengur en ráð var fyrir gert í upphafi en nú liggja fyrir drög að nýjum aðalsamningi milli ríkisstjórnar Íslands, Elkem ASA og Íslenska járnblendifélagsins ehf.

Helstu breytingar frá gildandi samningi eru að Sumitomo er ekki lengur aðili að samningnum og aðild ríkisstjórnarinnar takmarkast við stjórnskipulegar valdheimildir og ekki er lengur um að ræða nein ákvæði er varða réttindi eða skyldur ríkisins sem eins af hluthöfum félagsins. Í samningnum er kveðið á um að Elkem og Íslenska járnblendifélagið ehf. skuli halda í gildi rafmagnssamningi við Landsvirkjun, lóðarleigusamningi við ríkissjóð og hafnarsamningi við Hafnarsjóð Grundartangahafnar. Ákvæði er varða skráningu og tilgang félagsins standa óbreytt en tekin hafa verið inn ný ákvæði varðandi heimildir Elkem til framsals á eignarhlutum í Íslenska járnblendifélaginu. Ákvæðum um rekstur verksmiðju Íslenska járnblendifélagsins hefur verið fækkað nokkuð en þau sem eftir standa eru tekin nær óbreytt úr gildandi aðalsamningi. Í drögunum er að finna nýmæli að því er varðar reglur og viðmiðanir er lúta að viðskiptum Íslenska járnblendifélagsins við Elkem og fyrirtæki í eignatengslum við eigandann. Þessi ákvæði eru ný og sambærileg ákvæðum fjárfestingarsamnings um álverksmiðju í Reyðarfirði, en nauðsynlegt er að taka upp slík ákvæði í ljósi breytinga á eignarhaldi félagsins. Í viðauka við samningsdrögin er að finna nánari útfærslu í þessu efni. Ákvæði um \mbox{umhverfis-,} öryggis- og starfsmannamál eru nánast óbreytt eins og ákvæði er varða skattamál félagsins og Elkem. Breytingar á umræddum ákvæðum felast fyrst og fremst í niðurfellingu á úreltum ákvæðum og uppfærslu lagatilvísana. Þó er að finna þrjú ný ákvæði varðandi skattamál sem eru efnislega samhljóða ákvæðum í áðurnefndum fjárfestingarsamningi. Orðalag ákvæða varðandi aðflutningsgjöld hafa verið samræmd ákvæðum fjárfestingarsamnings um álverksmiðju í Reyðarfirði en breytingarnar fela ekki í sér neina efnisbreytingu. Önnur ákvæði samningsins standa óbreytt að öðru leyti en því að þeim er breytt í samræmi við breytingar á eignarhaldi og sum þeirra einfölduð og stytt.

Hæstv. forseti. Ég tel ekki ástæðu til þess að fara frekar yfir frv. en mælist til þess að því verði vísað að lokinni þessari umræðu til 2. umr. og hv. iðnn.