Erfðafjárskattur

Fimmtudaginn 18. mars 2004, kl. 17:57:19 (5558)

2004-03-18 17:57:19# 130. lþ. 86.7 fundur 435. mál: #A erfðafjárskattur# (heildarlög) frv. 14/2004, KHG
[prenta uppsett í dálka] 86. fundur, 130. lþ.

[17:57]

Kristinn H. Gunnarsson:

Herra forseti. Mér finnst aðalatriðið í þeim breytingum sem efh.- og viðskn. gerir tillögu um vera það að nefndin leggur til einfalt kerfi sem ætla má að sé skilvirkt og skili ríkissjóði ekki minni tekjum en áætlað var að yrðu samkvæmt frv. Ég hygg reyndar að ætla megi, og færi fyrir því nokkur rök, að ef þær breytingar ná fram að ganga sem nefndin leggur til hafi ríkissjóður ívið meiri tekjur af erfðafjárskatti en menn telja að ríkissjóður fengi af því fyrirkomulagi sem lagt er til í frv.

Ég tel því að nefndin hafi styrkt það markmið skattsins að afla ríkissjóði tekna frá því sem frv. gerði ráð fyrir og að nefndin hafi líka náð því fram að leggja til og koma á fót kerfi, ef samþykkt verður, sem er einfalt og skilvirkt og miklu meiri líkur á að verði sátt um en það fyrirkomulag sem verið hefur og var upphaflega lagt til í frv.

Eins og fram kemur í niðurstöðu málsins að nefndin stendur sameiginlega að málinu, er kannski skýrasta merkið um að fyrirkomulagið er einfaldara og betra en menn hafa búið við og það fyrirkomulag sem lagt var til í frv.

Aðeins einn fyrirvari er á málinu af hálfu stjórnarandstöðunnar og hann er að mínu viti ekki stórvægilegur í ljósi þeirra tillagna sem lagðar eru til í nál.

Þegar sú niðurstaða verður að hafa lága skattprósentu er ég á þeirri skoðun að þá eigi undanþágur helst engar að vera. Ég hallast að því fyrirkomulagi eins og menn tóku upp varðandi fjármagnstekjuskatt að það væri betra fyrirkomulag að hafa lága skattprósentu og engar undanþágur, eða mjög fáar og afmarkaðar, en hinn valkostinn sem er að hafa hærri skattprósentu með ívilnunum eða undanþágum. Þær hafa tilhneigingu til að stækka og verða víðtækari með tímanum og þá þarf að hækka skattprósentuna enn meir til að afla þeirra tekna sem markmiðið er að ná í viðkomandi skattstofni. Þannig að varðandi það atriði sem gerður er fyrirvari um er afstaða mín mjög skýr í þeim efnum. Þegar menn fara þá leið að hafa lága skattprósentu og einfalt kerfi er það mín skoðun að ekki eigi að hafa undanþágur á því kerfi og því mun ég ekki styðja það sjónarmið, ef fram kemur, að undanskilja einhverja aðila frá almennu skattlagningarreglunum í brtt. efh.- og viðskn. Enda má segja að ef menn fara inn á þá braut munu menn enda í hinu kerfinu, þ.e. menn þurfa að hækka skattprósentuna og það mun síðan leiða til þess að það verður þrýstingur á að opna á fleiri undanþágur. Ég tel því að menn grafi undan niðurstöðu nefndarinnar með því að reyna að ná fram þessum undanþágum. Í sjálfu sér finnst mér ekkert að því að allir aðilar greiði þennan skatt jafnvel þótt féð að öðru leyti renni til aðila eins og kirkna eða líknar- og menningarstofnana. Með þeim rökum mætti auðvitað halda áfram þeim málflutningi gagnvart öðrum tekjustofnum ríkissjóðs, eins og t.d. óbeinu sköttunum eða virðisaukaskatti eða launatengdum gjöldum og öðru slíku og segja sem svo að af því að málefnið er þannig eða starfsemi viðkomandi sjóðs sé réttlætanlegt að fella niður þessi og þessi opinberu gjöld. Ég er hræddur um að fljótlega yrðu menn komnir í ógöngur með að fylgjast með því kerfi og þeim aðilum sem nytu þessara undanþágna frá almennum reglum skattheimtu. Ég held því að sú leið sé yfir höfuð ákaflega vandmeðfarin og menn eigi að hafa sem minnst af sérstökum ákvæðum í þessu skyni. Það er miklu frekar að opinberir aðilar eða ríkissjóður styrki þá starfsemi sem um er að ræða með beinum framlögum fremur en með sérákvæðum í skattalögum. Ég hygg að það sé miklu skynsamlegri leið og hægt sé að ná ágætri samstöðu um að fara þá leið frekar en með þessum hætti.

[18:00]

Þetta vildi ég að kæmi fram, herra forseti. Afstaða mín til kerfisbreytingarinnar sem nefndin nær samkomulagi um að gera á frv. er þessi: Ég er því fylgjandi almennt og var því fylgjandi í nefndinni að við leitumst við að ná saman um að einfalda frv. og þegar ljóst var að menn voru hlynntir því taldi ég og tel eðlilegt að opna ekki undanþágur á það kerfi.

Fleira er svo sem ekki að segja um málið. Ég vil þó geta þess sem mér finnst skipta mjög miklu máli við þessa breytingu, að skattur leggist á öll verðmæti eigna eins og þau eru sönnust talin vera á þeim tíma sem til skattlagningarinnar kemur. Það hefur verið, og var á frv. að mínu viti, mikill ljóður að gert er ráð fyrir að verðmæti eins og hlutabréf séu skattlögð á nafnverði en ekki raunverulegu verðmæti. Þess vegna er ég mjög ánægður með að náðst hafi samstaða um að leggja til þá breytingu að almennt séu öll verðmæti metin á markaðsvirði þeirra eða raunverulegu virði þannig að ekki skipti máli um hvers konar verðmæti er að ræða, hlutabréf, önnur verðbréf, fasteignir eða annað slíkt. Skatturinn leggst á þau með sama hætti óháð eðli eignanna. Ég vek t.d. athygli á því sem fram kemur í breytingartillögunum, að aflaheimildir eru tilteknar í frumvarpstextanum eins og hann kemur frá nefndinni þannig að það er tekið sérstaklega fram að slíkar heimildir eigi að meta á almennu markaðsverðmæti. Fasteignir eru metnar á fasteignamatsverði því það á að endurspegla markaðsverð eigna. En þó er möguleiki fyrir þá sem telja að markaðsverðmætið sé lægra en Fasteignamatið gefur út að óska eftir endurmati þannig að þeir greiði þá erfðafjárskatt af matsverði eða mati þeirra aðila sem fá málið til úrlausnar og kveða upp sína niðurstöðu sem erfðafjárskattur greiðir þá af. Þeir sem búa á landsvæðum þar sem ætla má að raunverulegt fasteignamat sé lægra en það sem Fasteignamat ríkisins gefur út eiga því möguleika á að fá leiðréttingu á stofnverðinu til samræmis við það.

Ég vek líka athygli á því að þessi möguleiki gildir ekki í hina áttina þannig að varðandi þá sem búa á landsvæðum þar sem markaðsverð fasteigna er talið vera hærra en fasteignamatsverð geta t.d. skattyfirvöld ekki óskað eftir endurmati til að fá matið hækkað þannig að skattstofninn verði hærri en fasteignamatsverðið gefur til kynna. Þetta þýðir einfaldlega að íbúar á höfuðborgarsvæðinu þar sem fasteignamatsverð hefur farið mjög hækkandi á síðustu árum --- trúlega er fasteignamatsverð sem útgefið er af Fasteignamati ríkisins lægra en markaðsverð --- njóta þá góðs af þessari breytingu og greiða í raun skatt af lægri skattstofni en raunverulegt verðmæti gefur til kynna. Það varð einfaldlega niðurstaða í nefndinni að svona skyldi þetta vera, að menn tækju upp þá einföldu reglu að miða við fasteignamatsverð, það sem Fasteignamat ríkisins gefur út með þeim möguleika að menn gætu lækkað skattstofninn þar sem þeir teldu að raunverulegt verðmæti væri lægra.

Svo að lokum, herra forseti, varðandi þennan þátt eru það hlutabréfin sem voru og eru samkvæmt gildandi lögum metin á nafnverði en verða núna metin á almennu markaðsverði þar sem það er til eða á gangverði í viðskiptum þar sem það er til eða þá á bókfærðu verði eigin fjár samkvæmt síðasta endurskoðaða ársreikningi viðkomandi félags þannig að þær eignir sem felast í hlutabréfum ganga þá til skattstofns með sama hætti og aðrar eignir. Það er mikil bót að því, sérstaklega í ljósi þess hversu verðmæti hafa mjög færst yfir í hlutabréfaformið á undanförnum tíu árum eða svo. Það er ekki sanngjarnt að þeir sem eiga slíkar eignir geti með ákvörðun í lögum komist hjá því að greiða erfðafjárskatt með sama hætti og þeir sem fá eignirnar í öðru formi.

Ég vildi koma þessum sjónarmiðum mínum að og lýsa yfir almennri ánægju með þá breytingu á frv. sem samstaða tókst um í nefndinni. Ég tel að frv. sé fyrir þá sem við það þurfa að búa miklu betra svona frágengið en lögin sem við búum við og það frv. sem hér var lagt fram. Ég tel einnig að ríkissjóður geti unað betur við þá niðurstöðu sem nefndin komst að því að ég er nokkuð viss um að tekjur ríkissjóðs af þessum skatti verða ekki minni en áætlað var að hann yrði samkvæmt frv., líklega eitthvað meiri.