Erfðafjárskattur

Fimmtudaginn 18. mars 2004, kl. 18:14:14 (5560)

2004-03-18 18:14:14# 130. lþ. 86.7 fundur 435. mál: #A erfðafjárskattur# (heildarlög) frv. 14/2004, Frsm. PHB
[prenta uppsett í dálka] 86. fundur, 130. lþ.

[18:14]

Frsm. efh.- og viðskn. (Pétur H. Blöndal):

Herra forseti. Ég þakka þessa umræðu. Hún hefur verið mjög málefnaleg og góð. Ég bendi þeim á sem telja að skattleggja eigi erfðir hátt að alla jafna er svona 30 ára bil á milli kynslóða. Þegar maður tekur inn í dæmið líka að systkini erfa og frændur og frændgarður allur þá má áætla að svona 25 ár séu á milli þess að eignir skipta um hendur með erfðum og í hvert skipti tekur ríkissjóður 5% svona gróft séð þannig að ríkissjóður tekur á einni öld fimmtung allra eigna í landinu til sín. Það ætti því að róa þá sem finnst prósentan vera of lág. (Gripið fram í.) Já, en yfirleitt sér nú einstaklingurinn til þess að eignirnar vaxi og dafni og það er sjónarmið sumra að þær ættu sem mest að vera í höndum einstaklinga en ekki í höndum opinberra aðila.

Breytingin sem efh.- og viðskn. sameinast um er verulega mikil einföldun frá frv. sem aftur var verulega mikil einföldun frá lögunum, enda eru gildandi lög þess eðlis að almenningur veit yfirleitt ekki hvaða erfðafjárskatt á að greiða.

Mikið er kvartað undan því í þjóðfélaginu og ég verð mikið var við það þegar ég tala við kjósendur að fólk kvartar undan því hvað kerfin séu flókin, bótakerfin, skattkerfin o.s.frv. Hér er gerð tilraun til þess að einfalda þetta. Það er ekki auðvelt að einfalda lög vegna þess að taka þarf tillit til fjölda annarra laga, t.d. laga um tekju- og eignarskatt, það þarf að taka tillit til erfðafjárlaga o.s.frv. þannig að það var ekkert sérstaklega létt að einfalda þessi lög eins og hér hefur þó orðið niðurstaðan. Svo þarf náttúrlega að gæta ákveðins rökræns samhengis þannig að ekki myndist gloppur eða göt. Lögin þurfa að vera rökrétt.

Eins og hv. þm. Kristinn H. Gunnarsson benti á er mjög mikilsvert að hafa skattstofninn án glufa, án undantekninga, þ.e. að það réttlæti lága skattprósentu að hafa skattstofninn heilan og heilsteyptan þannig að ekki sé möguleiki á því að komast hjá skatti. Það var einmitt reynt að gera og þess vegna er ég ekki hrifinn af því að veita kirkjum, líknarfélögum og öðrum slíkum afslátt af þessum skatti enda má segja að skatturinn sé orðinn það lágur að það ætti ekki að íþyngja þeim samtökum neitt mikið að borga kannski 50 þús. kr. af hverri millj. sem þau fá í arf.

Hv. þm. Kristinn H. Gunnarsson nefndi lægra fasteignamat í Reykjavík. Vera kann að það valdi því að eignin sé eitthvað undirmetin, kannski um 10--15% í sumum tilfellum. En á móti kemur að í flestum eignum sem menn erfa er dulinn eða falinn fjármagnstekjuskattur. Ef maður erfir t.d. hlutabréf og selur þau daginn eftir að hann erfði þau á einhverju markaðsverði sem lagt var til grundvallar erfðafjárskatti þá þarf hann að borga af því fjármagnstekjuskatt frá því stofnverði sem hinn látni keypti bréfin á --- ég benti á þetta í framsögu með málinu áðan -- þannig að segja má að að því leyti sé eignin ofmetin, af því að dreginn er frá einhver fjármagnstekjuskattur sem getur orðið allt að því 10% af eigninni. Það kemur á móti þessu vanmati sem hv. þm. nefndi. Ég hugsa því að réttlætið sé beggja megin borðsins í þessu máli.

Herra forseti. Ég er mjög ánægður með þessa niðurstöðu og vil þakka samnefndarmönnum mínum sem og fólki í ráðuneytinu sem vann mjög ítarlega að því að finna á þessu einfalda lausn. Ég tel að við séum að stíga hérna skref til mikillar einföldunar sem ekki er vanþörf á og mætti kannski gera með fleiri lög sem eru orðin óhæfilega flókin. Ég nefni gjöld á bifreiðar og allt sem tengist rekstri þeirra. Við þurfum að hafa í huga að borgarinn í landinu þarf að lifa við lögin. Í hans tilfelli eru einstök lög eitthvað sem hann rekst á einstaka sinnum, mjög sjaldan og hann getur ekki aflað sér almennrar þekkingar á lögunum þess vegna. Því er mjög mikilsvert fyrir borgarann að lög séu einföld og skýr og klár þannig að ekki leiki neinn vafi á því hvernig eigi að framfylgja þeim eða hvernig eigi að skilja þau. Ég tel að það hafi náðst með þessum tillögum hv. efh.- og viðskn.