Tekjuskattur og eignarskattur

Mánudaginn 22. mars 2004, kl. 15:20:42 (5567)

2004-03-22 15:20:42# 130. lþ. 87.12 fundur 750. mál: #A tekjuskattur og eignarskattur# (dótturfélög sparisjóða, viðmiðunarfjárhæðir o.fl.) frv., fjmrh. (flutningsræða)
[prenta uppsett í dálka] 87. fundur, 130. lþ.

[15:20]

Fjármálaráðherra (Geir H. Haarde):

Herra forseti. Ég mæli fyrir frv. til laga um breyting á lögum nr. 90/2003, um tekjuskatt og eignarskatt. Eins og rakið er í athugasemdum við frv. er með því kveðið á um nokkrar minni háttar breytingar á lögum um tekjuskatt og eignarskatt.

Í frv. er í fyrsta lagi lagt til að sparisjóði verði heimilt að sækja um samsköttun með dótturfélögum sínum. Þessi breyting á lögunum er lögð til þar sem óvissa hefur ríkt um það hvort sparisjóðum sé heimil samsköttun með dótturfélögum. Rétt þykir að um það sé ótvírætt ákvæði í lögunum. Þess vegna er það lagt til.

Í öðru lagi er tillaga um að kveðið verði skýrar á um heimildir skattrannsóknarstjóra ríkisins til að láta færa mann til skýrslugjafar ef ítrekaðri kvaðningu þess efnis hefur ekki verið sinnt. Lagt er til að girt verði fyrir þann möguleika að skattaðili geti komið sér hjá því að mæta til skýrslugjafar hjá skattrannsóknarstjóra ríkisins. Ákvæðið er í eðli sínu sambærilegt við úrræði sem er til staðar þegar kveðja þarf mann til skýrslugjafar hjá lögreglu eða þegar tryggja þarf að maður mæti við aðfarargerð. Borið hefur á því að skattaðilar hafi komið sér hjá því að mæta til skýrslugjafar hjá skattrannsóknarstjóra og þannig tafið mál og gert erfiðara um vik að upplýsa málsatvik. En með ákvæði þessu er opnuð heimild til að koma í veg fyrir að þannig ástand skapist.

Í þriðja lagi er með frv. þessu lagt til að við lög nr. 90/2003 komi nýtt ákvæði til bráðabirgða, sem árétti að breytingar sem gerðar voru á fjárhæðum í ákvæðum A- og B-liðar 68. gr., 77. gr., 82. gr. og 83. gr. laganna með lögum nr. 143/2003 í desember sl. komi til framkvæmda við álagningu tekjuskatts og eignarskatts á árinu 2004 vegna tekna og eigna á árinu 2003 og við ákvörðun bóta á árinu 2004. Með þeim hætti verður unnt að framfylgja áætlunum um hækkun á viðmiðunarfjárhæðum þessara ákvæða í samræmi við verðlagsforsendur fjárlagafrumvarpsins fyrir árið 2004, eða um 2,5% komi ótvírætt til framkvæmda.

Í fjórða lagi er lagt til að ákvæði c-liðar 5. gr. laga nr. 143/2003, um breyting á lögum nr. 90/2003, um tekjuskatt og eignarskatt, komi til framkvæmda við álagningu tekjuskatts og eignarskatts á árinu 2004 vegna tekna og eigna á árinu 2003. Það ákvæði kveður á um að ákvarða megi barnabætur með börnum sem ekki eru heimilisföst hér á landi en eru á framfæri ríkisborgara hins Evrópska efnahagssvæðis, enda séu framfærandi og barnið tryggð á grundvelli 9. gr. b eða 9. gr. c laga nr. 117/1993, um almannatryggingar, með síðari breytingum. Ekki er ástæða til að ætla að lögtaka frv. hafi nokkur áhrif á útgjöld ríkisins.

Þess vegna legg ég til, herra forseti, að svo mæltu, að frv. verði vísað til hv. efh.- og viðskn. og til 2. umr. að aflokinni þessari umræðu.