Hækkun útlánaramma Norræna fjárfestingarbankans

Mánudaginn 22. mars 2004, kl. 15:26:22 (5571)

2004-03-22 15:26:22# 130. lþ. 87.13 fundur 755. mál: #A hækkun útlánaramma Norræna fjárfestingarbankans# frv., fjmrh. (flutningsræða)
[prenta uppsett í dálka] 87. fundur, 130. lþ.

[15:26]

Fjármálaráðherra (Geir H. Haarde):

Herra forseti. Ég mæli fyrir litlu frv. sem fram er komið í tilefni af því að ráðherranefnd Norðurlanda, sem fer með málefni Norræna fjárfestingarbankans samþykkti á sl. hausti að heimila bankanum að hækka útlánaramma vegna norrænna fjárfestingarlána til verkefna utan Norðurlandanna. Um er að ræða hækkun úr 3,3 milljörðum í 4 milljarða evra án þess þó að auka eigendaábyrgð vegna þessa útlánaflokks sem nú er 1,8 milljarðar evra. Hér er um að ræða að fjmrh. verði veitt heimild fyrir hönd ríkissjóðs til að samþykkja umrædda hækkun. Slíkt samþykki þarf að veita á Alþingi og því er óskað eftir því að það verði gert með lögum.

Umrædd lán hafa verið við lýði um nokkurra ára skeið og ekki hafa orðið nein útlánatöp vegna þeirra. Þessi þjónusta bankans hefur þvert á móti orðið til þess að styðja og styrkja meginverkefni bankans, ekki síst í tengslum við verkefnaútflutning norrænna fyrirtækja til hagsbóta bæði fyrir Norðurlönd og bankann sjálfan.

Ég legg til, herra forseti, að málinu verði að umræðu lokinni vísað til 2. umr. og hv. efh.- og viðskn.