Útlendingar

Mánudaginn 22. mars 2004, kl. 15:53:18 (5574)

2004-03-22 15:53:18# 130. lþ. 87.11 fundur 749. mál: #A útlendingar# (aðlögunarheimildir stækkunarsamnings ESB og EES o.fl.) frv. 20/2004, AtlG
[prenta uppsett í dálka] 87. fundur, 130. lþ.

[15:53]

Atli Gíslason:

Herra forseti. Útlendingar gegna veigamiklu hlutverki í íslensku atvinnulífi sem hefur ríka þörf fyrir starfskrafta þeirra. Þeir gegna að mörgu leyti lykilhlutverki í fiskvinnslu, á sjúkrahúsum og í ýmsum þjónustustofnunum. Þá hafa útlendingar auðgað menningarlíf þjóðarinnar og skapað fjölbreytni sem öllum þjóðum er nauðsynleg.

Þrátt fyrir þetta, þrátt fyrir að útlendingar skipti miklu máli fyrir efnahag og menningu þjóðarinnar eru þeir ekki virtir að verðleikum í íslenskri löggjöf. Það má jafnvel halda því fram að þeim sé tekið sem óvelkomnum gestum og að hluta eru þeim sköpuð dvalarskilyrði hér á landi sem standast ekki mannréttindi.

Frumvarpið sem hér er til umfjöllunar litast nokkuð af því að útlendingar séu ekki aufúsugestir, þrátt fyrir mikilvægi þeirra fyrir íslenskt atvinnu- og menningarlíf. Frv. ber þess öll merki, að öðru leyti en því er varðar stækkun ESB sem ég leggst ekki gegn, að þar ráði einberir hagsmunir stjórnsýslunnar ef hagsmuni skyldi kalla. Hagsmunum útlendinga í frv. er ýmist ekki gefinn gaumur eða hagsmunir þeirra fyrir borð bornir.

Ástæða framlagningar frv. er eins og ég sagði áðan stækkun ESB. Við það er hins vegar ekki látið sitja heldur eru lagðar til fleiri breytingar sem örugglega munu valda því að erfitt verður að ná frv. fram fyrir 1. maí. En það er mjög brýnt að ákvæði er varða stækkunina nái fram að ganga. Það er vegna þess að þær breytingar sem eru lagðar til til viðbótar kalla á mikla umræðu og ítarlega skoðun. Þessar breytingar munu þyngja meðferð frv. og meðferð stækkunarákvæðanna.

Ég beini þeim eindregnu tilmælum til hæstv. dómsmrh. að huga að því að draga þau ákvæði til baka sem varða annað en stækkun Evrópska efnahagssvæðisins og taka lögin um útlendinga til heildarendurskoðunar og vinna að því faglega. Það gefst afar skammur tími til að huga að þeim viðamiklu breytingum sem lagðar eru til og eru, eins og hv. síðasti ræðumaður sagði, svo mikilsverðar og um margt vafasamar og hæpnar út frá jafnræðisreglu stjórnarskrárinnar og öðrum ákvæðum. Það er rétt að staldra við og hugsa alvarlega um þau ákvæði.

Ég tel einnig að í frv., öðrum þáttum en þeim er snúa að stækkun ESB, felist ákveðin forgangsröðun, breytingar sem ég á erfitt með að una við þegar nauðsyn ber til að breyta ákvæðum um útlendinga eins og þau eru í lögum í dag til að útlendingar séu virtir til mannréttinda.

Ég sagði áðan að umrætt frv. væri stofnanafrumvarp. Að því hefur verið vikið af hv. þm. Bryndísi Hlöðversdóttur. Hún vakti athygli á því hverjir væru umsagnaraðilar frv. Ég segi að þetta sé stofnanafrumvarp. Það sést þegar maður les hverjir eru umagnaraðilar. Það eru lagðar til breytingar á lögum vegna ábendinga sem borist hafa frá helstu aðilum sem koma að framkvæmd laganna. Hverjir eru þessir helstu aðilar? Það eru ráðuneytin, lögreglustjórinn í Reykjavík og á Keflavíkurflugvelli, ríkislögreglustjóri, Útlendingastofnun og þjóðskrá. Þetta eru ekki helstu aðilarnir. Þetta er bara helmingurinn af helstu aðilunum. Hvar er rödd útlendinganna? Hvar er rödd Samtaka útlendinga? Hvar er rödd Toshiki Toma, þess ágæta sóknarprests útlendinga? Hvar er rödd fjölmenningaráðs? Hvar er rödd Alþjóðahússins? Hvar er rödd Samtaka um kvennaathvarf? Hvar er rödd Stígamóta? Hvar er rödd Rauða krossins? Allt eru þetta samtök og stofnanir sem gegna veigamiklu hlutverki í samskiptum þeirra ríkisstofnana sem nefndar eru í frv. og eru grunnur þess að kerfið gangi vel. Þessar raddir hefðu eðlilega átt að heyrast löngu fyrr og áður en frv. var samið. Þess vegna er þetta stofnanafrumvarp. Þess vegna er það ekki betur úr garði gert en það er, því miður, vegna þess að þar heyrast ekki raddir útlendinga.

Raddir útlendinga eiga sér ekki allt of marga talsmenn. Toshiki Toma talar um þetta sem raddirnar sem ekki heyrast, raddir útlendinga. Það er í margfaldri merkingu. Ein merkingin er m.a. sú að þeir kunna ekki íslensku. Það þekki ég dæmalaust vel því að alla helgina var ég í framtalsaðstoð hjá Eflingu -- stéttarfélagi. Ég hitti þar tugi útlendinga sem leituðu aðstoðar. Ég gat ekki átt samskipti við mikinn fjölda þeirra vegna þess að þeir gátu ekki tjáð sig á íslensku. Þeir skildu ekki einu sinni orðið skattframtal. Ég varð að hafa uppi leikræna tilburði til að sýna einum þeirra hvað það væri, með því að setja eyðublaðið í umslag og segja: Fékkstu svona, fékkstu svona? Það tók mig 5 mínútur að koma þessum skilaboðum á framfæri. Þetta er rödd sem á erfitt með að koma fram. Þess vegna er Alþjóðahúsið. Þess vegna er fjölmenningaráð o.s.frv.

[16:00]

Ég ætla ekki beinlínis að rekja frumvarpsdrögin, það hefur verið sett fram gagnrýni á þau, en þarna er verið að loka fyrir hinn svokallaða málamyndahjúskap og verið að þrengja að fjölskyldum útlendinga. Ef nokkurt grundvallaratriði er í lífinu er það það að hafa fjölskylduna hjá sér og vera í kringum hana, en frv. gengur fremur í þá átt að þrengja þann rétt, jafnvel fólks sem hefur verið hér á landi um áraraðir. Verið er að þrengja rétt kvenna sem hafa komið frá Tælandi og hafa ekki börnin með sér og vilja fá börnin til sín, eðlilega. Það finnst mér algjörlega óskiljanlegt.

Ég hef heyrt gagnrýnisraddir frá útlendingum, frá Toshiki Toma sóknarpresti þeirra sem gagnrýnir aldurstakmörkin við 24 ár í hjúskap. Af hverju á aldursmark fyrir útlending í hjónaband að vera annað en samkvæmt íslenskum lögum? Hvert erum við að fara? Hvaða hugsun býr að baki svona ákvæði? Hvaða orð dettur mönnum fyrst í hug? Ég læt hv. þm. um að geta sér til um það. Toshiki Toma gagnrýnir þetta harðlega.

Er skynsamlegt eða eftirsóknarvert að íslensk stjórnvöld setji sérstök hjúskaparmörk í útlendingalög? Er einhver skynsemi í því? Er einhver skynsemi í því að setja aldursmörk á þá aðstandendur og niðja sem mega koma til landsins til útlendings sem hefur verið hér til fjölda ára? Útlendingurinn er ekki hér að gamni sínu, því ef maður skoðar þetta í stærra samhengi hefur það gerst að fólki frá Tælandi, Austur-Evrópu, sérstaklega konum, hefur verið gert mjög erfitt fyrir að framfæra sig, þess vegna sækir það annað. Þetta fólk er afar gott starfsfólk, það fer mjög gott orð af því. Auðvitað eru undantekningar á því eins og öllu í lífinu.

Að setja aldursmörk fyrir ættingja 66 ár. Hvað með mann sem er 50 ára og á ekki innangengt í vinnu á Íslandi æskudýrkunarinnar, hvað verður um hann?

Það er verið að koma í veg fyrir eðlilegt fjölskyldusamneyti, það er verið að þrengja samneytið. Það er verið að gera útlendinga að öðruvísi fólki, það er verið að gera útlendinga að annars flokks borgurum. Ég uni því ekki, þetta er fólk eins og ég.

Ég gagnrýni líka svokallað málamyndahjónaband. Hvað er það? Er hjónaband okkar að íslenskum lögum hið eina rétta en hjónaband af öðrum trúarbrögðum málamyndahjónaband? Það er þekkt í Tælandi. (Gripið fram í: Hver er að tala um það?) Ég er að tala um það, vegna þess að þetta er ekki skilgreint. Það er grundvallaratriði að skilgreina hvað málamyndahjónaband er. Sú skilgreining ætti að vera í hjúskaparlögunum en ekki í útlendingalögunum. Er verið að búa til sérreglur um hjónabönd útlendinga?

Í ríkjum sem við þekkjum ekki til menningar í, tökum Tæland og Íran, þykir fólki svokallað ,,arrangement marriage`` ekkert mál, það er hluti af tryggingu fjölskyldunnar og annað slíkt. Þetta kemur okkur einkennilega fyrir sjónir en þannig er þetta í öðrum menningarríkjum og við eigum auðvitað að virða menningu annarra þjóða og eigum ekki að setja okkur á þann háa hest að við séum æðri en aðrar þjóðir menningarlega.

Valdheimildir Útlendingastofu eru óskilgreindar og opnar. Það sem stingur mig almest í þessu eru svokallaðar erfðarannsóknir. Það eru ekki einu sinni sett skilyrði að taka megi sýni eða erfðaefnisrannsóknir, þetta er bara almenn opin heimild og viðkvæmustu persónuupplýsingar sem koma út úr því, eins og hv. þm. Bryndís Hlöðversdóttir nefndi áðan.

Hvað sýnir erfðaefnisrannsókn ef viðkomandi útlendingur hefur verið ættleiddur? Hvað mundum við segja, Íslendingar, ef okkur væri gert að gefa lífsýni þegar við förum til Danmerkur í nám eða til starfa? Horfum á það þannig. Hvað við mundum við segja ef ég ætlaði til náms eða starfs í Bandaríkjunum og það yrðu tekin af mér lífsýni? Hver mundi segja já við því? Auðvitað enginn.

Allir þeir gagnrýnispunktar sem ég hef flutt eru til umræðu meðal útlendinga í landinu og Toshiki Toma gerir þá að umtalsefni í bréfum og gögnum. Ég vil líka segja, hæstv. dómsmrh., að í núgildandi lögum um útlendinga eru skýrar og góðar valdheimildir sem ég hygg að dugi. Það er ég að segja vegna þess að þegar verið er að tala um málamyndahjúskapinn erum við að taka á undantekningarvandamálum sem eru vandamál, ég neita því ekki, en við megum ekki búa til meginreglur út frá undantekningum. Ég gagnrýni það að búa til meginreglu um lífsýnarannsóknir og um málamyndahjónaband um 24 ára aldur, út frá undantekningum.

Ég veit að íslenskir karlmenn hafa gengist undir þann samning að giftast konum og koma með þær hingað til lands. Ég velti því stundum fyrir mér hvort þeir séu ekki að gera hreina gustuk í kynlífstengda ferðamannamarkaðnum í Tælandi sem Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn hefur staðið fyrir þar sem vinna við hrísgrjónarækt o.fl. hefur fallið niður. Ég velti því stundum fyrir mér, þó það sé náttúrlega sérkennilegt, en auðvitað á maður að skoða allar hliðar máls og skoða allt í samhengi.

Hugsunin er þröng og einkennist af því að við séum æðri. Ég tel að forgangsröðunin sé röng og minni á að ég hef flutt frumvörp til breytinga á lögum um útlendinga. Ég óskaði reyndar eftir í frumvarpsgreinargerðinni að þær yrðu teknar til umræðu samhliða lögum sem þarf að breyta um frjálsa för útlendinga og búsetu, um atvinnuréttindi útlendinga og um útlendinga, sem hér er til umræðu, í tengslum við stækkun Evrópska efnahagssvæðisins og hefur verið boðuð. Það hefur því miður ekki komist á dagskrá til umfjöllunar samhliða, en í dag hef ég lagt fram --- það er ekki búið að dreifa henni --- brtt. við frv. sem byggir á þeim frumvörpum sem ég nefndi.

Í þeim brtt. eru tvenn grundvallarmannréttindaatriði. Í fyrsta lagi er það svo í dag að ungmenni sem kemur 16 ára með útlendingi til landsins, þegar ungmennið verður 18 ára þarf það sjálft að sanna að það geti framfært sig og það dugir ekki yfirlýsing ábyrgra foreldra. Ungmennið, 18 ára, þarf að sanna framfærslu sína með því að fara að vinna og fara í gegnum leyfakerfið eða leggja 70 þús. kr. inn á banka sinnum 12. Hver hefur efni á því og hvaða venjulegt foreldri hleypst undan ábyrgð á börnunum sínum? Það gerir enginn, maður sinnir börnum sínum, það er manns ríkasta skylda og skyldi eitthvað annað gilda um útlendinga? Eru þeir öðruvísi við börn en við? Er þetta ekki eins fólk, er þetta ekki fólk?

Hin breytingin er sú að það er því miður þekkt í hjónaböndum íslenskra ríkisborgara að erlendar konur sæti ofbeldi í þeim hjónaböndum. Erlendar konur eru 3,75% af konum sem búa á Íslandi. Talið er að allt að 14% þeirra sem leita til Stígamóta eða Samtaka um kvennaathvarf séu af erlendu bergi brotnar. Þessar tölur segja allt sem segja þarf.

Fyrstu árin í hjúskap hér á landi búa þessar konur á margan hátt í gíslingu hjónabandsins. Ef þær eru beittar ofbeldi eiga þær ekki í nein hús að venda nema fara heim til sín. Það hefur líka gerst og eru dæmi um það, og ég er núna, hæstv. dómsmrh., að tala sem betur fer um undantekningar, sömu undantekningar en miklu alvarlegri en frv. stefnir að, að eiginmennirnir hafa sagt við þær: Ef þú ferð frá mér, ef þú skilur, ertu úr landinu. Þetta er algjörlega óþolandi staða í nútímaþjóðfélagi. Útlendingar eru ekkert öðruvísi en við, þeir eru bara fólk.

Þriðja atriðið sem ég legg til breytingar á varðar framfærsluna, að hægt sé að tryggja framfærslu með öðrum hætti en með bankainneignum eða vinnu, og þá er ég aftur að tala um undantekningartilvik sem snúa að þeim konum sem eru beittar ofbeldi. Hvaða framfærslumöguleika hafa þær sem leita til Stígamóta eða til Samtaka um kvennaathvarf til að framfæra sig? Það er ósköp eðlilegt að samfélagið liðsinni þeim konum í leiðinni.

Ég ætla ekki að fara nánar út í þetta, en vil að lokum árétta það sjónarmið, hæstv. dómsmrh., að vel má vera að þarna séu vandamál sem stofnanir sem vísað er til í grg. telja vera vandamál. Ég tel að stofnanirnar geri of mikið úr þeim og tel að þetta muni torvelda lagasetningarvinnuna. Það er mín skoðun og ég teldi eðlilegast að það yrði dregið til baka.

Ég óska sérstaklega eftir því að þær brtt. sem ég hef gert og var að vonast til að kæmu fram en náðu ekki á dagskrá, sem ég gerði að umtalsefni, fari til allshn. og hæstv. formaður allshn., til að spara vinnuna og tímann, sendi brtt. samhliða frv. sem hér er til umræðu til umsagnar Alþjóðahússins, Stígamóta, Rauða krossins, sóknarprests útlendinga o.s.frv., þannig að við sjáum heildarmyndina í dæminu. Ég beini þessu sérstaklega til hv. formanns allshn. og enn fremur beini ég því til hæstv. dómsmrh. að ljá þessu sjónarmiði mínu lið.