Útlendingar

Mánudaginn 22. mars 2004, kl. 16:48:50 (5582)

2004-03-22 16:48:50# 130. lþ. 87.11 fundur 749. mál: #A útlendingar# (aðlögunarheimildir stækkunarsamnings ESB og EES o.fl.) frv. 20/2004, AtlG (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 87. fundur, 130. lþ.

[16:48]

Atli Gíslason (andsvar):

Frú forseti. Ég vil benda hæstv. dómsmrh. á að með núgildandi lögum er hægt að bregðast við þeim vandamálum sem um er að ræða. Í 16. gr. núgildandi laga segir, með leyfi forseta:

,,Útlendingastofnun er heimilt að afturkalla dvalarleyfi og búsetuleyfi ef útlendingur hefur við umsókn, gegn betri vitund, veitt rangar upplýsingar eða leynt atvikum sem hefðu getað haft verulega þýðingu við leyfisveitinguna eða ekki er lengur fullnægt skilyrðum fyrir veitingu dvalarleyfis eða búsetuleyfis eða það leiðir að öðru leyti af almennum stjórnsýslureglum.``

Það eru fullar heimildir fyrir þessu. Það er hægt að taka á þessu vandamáli. Hvað hafa útlendingastofnanir gert hér? Á Íslandi eru þúsundir útlendinga og ég held að þau dæmi sem verið er að tala um hér nái ekki tug. Þau ná því ekki og verið er að taka á þeim dæmum innan kerfisins í dag. Samt eru lögin ný. Útlendingalögin eru svo ný. Leyfum þeim að þróast, leyfum þeim að reynast, leyfum þeim að slíta barnsskónum áður en við förum í þessar drastísku breytingar. Setjum ekki lög um undantekningar sem bitna á öllum hópnum.

Eitt í viðbót. Mér þótti leitt að heyra hæstv. dómsmrh. bera á mig ranghugmyndir. Ég kann ekki við slíkan málflutning. Hafi ég slíkar ranghugmyndir deili ég þeim með samtökum útlendinga á Íslandi, með Alþjóðahúsinu og með sóknarpresti útlendinga á Íslandi.