Útlendingar

Mánudaginn 22. mars 2004, kl. 16:50:38 (5583)

2004-03-22 16:50:38# 130. lþ. 87.11 fundur 749. mál: #A útlendingar# (aðlögunarheimildir stækkunarsamnings ESB og EES o.fl.) frv. 20/2004, dómsmrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 87. fundur, 130. lþ.

[16:50]

Dómsmálaráðherra (Björn Bjarnason) (andsvar):

Virðulegi forseti. Eins og ég sagði í fyrri ræðum mínum erum við sammála um meginmarkmið laganna. Nú segir hv. þm. að með núgildandi lögum sé unnt að bregðast við þessum vanda. Ef hv. þm. túlkar núgildandi lög þannig að allt það sem ég legg til í þessu frv. sé innan ramma laganna, hvers vegna er hann þá á móti því? Af hverju telur hann að það sé einhver frelsisskerðing sem ég legg hér til og skýrir einstaka þætti í lögunum í staðinn fyrir að hafa það með þeim almenna hætti sem hv. þm. segir að rúmist innan núgildandi laga? Ég skil ekki hvernig hægt er að saka mig um að flytja frv. sem þrengi að mannréttindum ef það sem ég er að leggja til rúmast í raun og veru innan þeirra laga sem eru í gildi. Þá finnst mér allt málið hrynja í raun og veru, að vegið sé þannig að útlendingum að þeir séu verr settir eftir að þau ákvæði sem ég legg til verða að lögum. Ég tel að þau séu nauðsynleg, eins og ég sagði, til að skerpa á þeim tækjum sem við höfum til að koma í veg fyrir að menn misnoti þessi lög í ólögmætum tilgangi. Það er tilgangur frv. míns og ég fagna því ef hv. þm. telur að frv. rúmist innan núgildandi laga. Þá erum við ekki að deila um nein meginatriði í þessu. Þá er þetta meira útfærsla sem við erum að ræða hér en einhver meginatriði. Ég skildi ræðuna áðan eins og þetta væri eitthvert stórkostlegt meginatriði sem við værum að deila um.