Afleiðingar hermdarverkanna í Madríd

Þriðjudaginn 23. mars 2004, kl. 13:54:43 (5596)

2004-03-23 13:54:43# 130. lþ. 88.96 fundur 431#B afleiðingar hermdarverkanna í Madríd# (umræður utan dagskrár), SJS
[prenta uppsett í dálka] 88. fundur, 130. lþ.

[13:54]

Steingrímur J. Sigfússon:

Herra forseti. Það er rétt að fram komi að ég óskaði eftir því á fundi utanrmn. í síðustu viku að utanrmn. færi yfir öll þessi mál og við munum hefja það á morgun. Þar er hægt, í utanrmn., að ræða þessi mál og einnig þau sem eðli málsins samkvæmt er erfitt að ræða opinberlega.

Atburðirnir í Madríd á dögunum eru hörmulegir og spænska þjóðin á samúð heimsins þessa dagana eftir að hafa orðið fyrir barðinu á þessum grimmilegu hermdarverkum sem beindust gegn óbreyttum borgurum. Þessir atburðir, rétt eins og morðið á leiðtoga Hamas-samtakanna í gær, eru til marks um það hvernig menn geta lokast af innan vítahrings ofbeldis á báða bóga. Tengsl atburðanna í Madríd við hina ólögmætu innrás og valdatöku Bandaríkjamanna og Breta í Írak og stuðningur fráfarandi hægri stjórnar á Spáni við þessar aðgerðir er ljós. Það hvort spænskir kjósendur voru fremur að refsa hægri stjórn Aznars fyrir stuðning við Íraksstríðið í óþökk meiri hluta þjóðarinnar eða fyrir blekkingarnar sem haldið var í í lengstu lög, að ETA-menn hefðu verið að verki, skiptir ekki höfuðmáli. Niðurstaða spænskra kjósenda er niðurstaða spænskra kjósenda og hæstv. forsrh. Íslands ætti að hafa það í huga.

Mergurinn málsins er sá, herra forseti, að aðferðafræðin er röng. Hvorki stríðið í Afganistan né Írak hefur gert heiminn öruggari. Þvert á móti hefur hin herskáa og hrokafulla árásarstefna Bandaríkjastjórnar gert illt verra, gert jarðveg hryðjuverkaaflanna frjórri og það er hörmulegt að ríkisstjórn Íslands með þá Halldór Ásgrímsson og Davíð Oddsson, hæstv. ráðherra, í fararbroddi skuli leggja nafn landsins við slíka stefnu. Öryggi Íslands er best borgið með virkri friðarstefnu og allra síst með því að ríghalda hér í gamaldags herstöð.