Afleiðingar hermdarverkanna í Madríd

Þriðjudaginn 23. mars 2004, kl. 14:03:58 (5600)

2004-03-23 14:03:58# 130. lþ. 88.96 fundur 431#B afleiðingar hermdarverkanna í Madríd# (umræður utan dagskrár), MS
[prenta uppsett í dálka] 88. fundur, 130. lþ.

[14:03]

Magnús Stefánsson:

Hæstv. forseti. Hryðjuverkin í Madríd eru dæmi um þá ógn sem steðjar að allri heimsbyggðinni. Við Íslendingar verðum að gera okkur grein fyrir því að þar erum við ekki undanskildir. Umræðan um atburðina í Madríd, þar sem ýmsir aðilar hafa reynt að draga fram hvað bjó að baki þeim, er mikið út og suður. Margar kenningar hafa komið fram. Margir telja nærtækast og auðveldast að tengja þessi voðaverk við stuðning Spánverja og þátttöku í aðgerðunum í Írak. Þar með vilja margir tengja málið við al Kaída hryðjuverkasamtökin, sem er í reynd ekki í samræmi við þá mynd sem dregin hefur verið upp af tengslum samtakanna við Írak.

Hins vegar hafa komið fram margar aðrar kenningar í málinu. Það sýnir hve hryðjuverkastarfsemi í heiminum er margslungin. Leiða má líkur að því að þessir atburðir hafi á einhvern hátt haft áhrif á úrslit kosninganna á Spáni þótt eflaust verði seint hægt að sanna nokkuð í þeim efnum. Hins vegar voru kosningarnar lýðræðislegar og spænskir kjósendur gengu til þeirra eftir lýðræðislegum leikreglum.

Voðaverkin í Madríd sýna okkur enn á ný fram á mikilvægi þess að þjóðir heims taki höndum saman um að berjast sameiginlega gegn hryðjuverkastarfsemi í heiminum. Virk hryðjuverkasamtök eru fjölmörg og því er augljóslega ekki einfalt að eiga við það verkefni. Starfsemi þeirra er í mismunandi umhverfi og hefur ólík markmið þannig að um er að ræða raunverulega ógn við heimsbyggðina.

Við Íslendingar hljótum að taka þátt í því með öðrum þjóðum, m.a. á vettvangi Sameinuðu þjóðanna og annarra samtaka, að berjast gegn hryðjuverkastarfsemi í heiminum. Þar er af mörgu að taka og við getum ekki litið svo á að við séum frjáls frá þessari ógn. Með yfirveguðum hætti hljótum við að hafa uppi eins miklar öryggisráðstafanir hér á landi og talið er þurfa hverju sinni til þess að gæta öryggis þjóðar okkar.