Erfðafjárskattur

Þriðjudaginn 23. mars 2004, kl. 14:11:42 (5603)

2004-03-23 14:11:42# 130. lþ. 88.6 fundur 435. mál: #A erfðafjárskattur# (heildarlög) frv. 14/2004, ÖS
[prenta uppsett í dálka] 88. fundur, 130. lþ.

[14:11]

Össur Skarphéðinsson:

Herra forseti. Við þingmenn Samf. og raunar þingmenn allrar stjórnarandstöðunnar lýstum því yfir við 2. umr. um frv. að við styddum í grófum dráttum niðurstöðuna. Við teljum að verið sé að einfalda lögin með þeim breytingum sem lagðar eru til við frv. Sömuleiðis má færa rök að því að aukið réttlæti sé fært inn í kerfið.

Eins og fram kom í máli okkar sem tókum til máls fyrir hönd stjórnarandstöðunnar er álitamál hvaða skattalækkanir eiga að vera í forgangi. Við í Samf. höfum lagt langmesta áherslu á að það svigrúm sem kann að gefast hjá ríkissjóði til að lækka skatta á þegnum landsins verði fyrst og fremst notað til að lækka virðisaukaskatt á matvörum. Ástæðan er sú að við teljum að það væri réttlátasta skattalækkunin af því að hún kemur öllum til góða. Hún kemur líka þeim til góða sem minnst hafa úr að spila og eru hugsanlega á þeim mörkum að þurfa ekki að greiða skatt af tekjum sínum. Það væri sú skattalækkun sem hefði átt að beita fyrst þegar menn fara að ganga á það svigrúm sem ætlað er af hálfu ríkissjóðs.

Við hv. þm. Ögmundur Jónasson létum koma skýrt fram við atkvæðaskýringu við lok 2. umr. að stuðningur okkar flokka við málið byggðist ekki síst á því að samhliða er verið að gera aðrar breytingar á frv. sem lagt var fyrir þingið sem leiða til þess að tekjur ríkisins aukast töluvert. Ég vísa til ákvæðis þar sem lagt er til að hlutabréf verði metin á markaðsvirði en ekki nafnvirði. Hlutafjáreign landsmanna eykst hröðum skrefum. Þetta er nýtt form sparnaðar og það er ljóst að þegar menn munu í framtíðinni heimta inn skatt af þessu tagi munu tekjur ríkisins aukast verulega.

Í hinu upphaflega frv. var gert ráð fyrir að tekjur ríkisins mundu minnka, miðað við þá gerð frv., um 300--400 millj. kr. Breytingin sem liggur í brtt. nefndarinnar kann að mati þeirra sem fóru yfir það mál að kosta ríkið 60 millj. ein og sér. Þegar þessi breyting á meðferð hlutabréfa er tekin með er hins vegar mjög líklegt að innan fárra ára muni tekjuaukning ríkisins af þeim völdum leiða til að þessi samanlagða upphæð, sem er nokkuð undir hálfum milljarði, muni nást og rúmlega það. Ég tel þess vegna að þetta hafi verið ákaflega farsæl lending.

Við þingmenn Samf. og hv. þm. Ögmundur Jónasson, þingmaður Vinstri hreyfingarinnar -- græns framboðs, höfðum hins vegar fyrirvara á samþykki okkar við brtt. Ástæðan var sú að við töldum ekki forsvaranlegt að fella niður ákvæði í gildandi lögum þar sem líknarfélög og menningarstofnanir voru undanþegin erfðafjárskatti.

[14:15]

Við teljum og að það sé ákveðinn sparnaður fyrir þjóðina og ríkið að hvetja líknarfélög til að vinna sem mest og til þess þurfa þau fjármagn. Líknarstofnanir taka að sér verk í göfugum tilgangi, verk sem bæta hag ákaflega margra. Við vitum að eins og samfélagið hefur þróast og skautunin hefur orðið í íslensku samfélagi á undanförnum árum þar sem velsæld hefur sannarlega að meðaltali aukist, hefur eigi að síður þeim fjölgað sem verða út undan. Við þær aðstæður skiptir máli að hafa félög og stofnanir sem leggja líknandi hönd að því að bæta hag þeirra sem með einhverjum hætti hafa hrapað utan vegar. Þess vegna skiptir það ákaflega miklu máli að ríkið og hið opinbera greiði götu hvers kyns félagasamtaka sem inna af höndum sjálfboðastarf og sem vinna af mannkærleika í göfugum tilgangi, eins og líknarfélög.

Sömuleiðis var það áður þannig samkvæmt lögunum að menningarstofnanir sem fengu fjárframlög við arfleiðslu þurftu ekki að greiða skatt af þeim. Þetta teljum við ákaflega mikilvægt. Eins og samfélagið hefur þróast í gegnum söguna hefur til þessa verið staðreynd að sérhver kynslóð hefur verið auðugri en sú sem á undan hefur gengið. Það er alveg ljóst að velsældin sem hefur verið að aukast í íslensku samfélagi mun leiða til þess að líknarfélög og menningarstofnanir munu í framtíðinni fá töluvert meira í sinn hlut við arfleiðslu en hingað til. (Gripið fram í.) Það skiptir miklu máli að örva slíkt.

Hv. formaður nefndarinnar, sem ekki treysti sér til þess af mannkærleik sínum að undanþiggja líknarstofnanir erfðafjárskatti, kallar fram að það sé ríkisstjórninni að þakka. Miðað við það sem kom fram í nál. hv. þm. er það ekki ríkisstjórninni að þakka hversu góð lög þetta voru, heldur fyrst og fremst honum sjálfum. Ég ætla ekki að fara út í þá umræðu aftur því við gerðum út um þau mál í síðustu umræðu, ég og hv. þm. Pétur H. Blöndal.

Virðulegi forseti. Ég mæli í lok ræðu minnar fyrir tillögu sem ég flyt ásamt hv. þm. Jóhönnu Sigurðardóttur og Ögmundi Jónassyni, sem hljóðar svo:

,,Við bætist ný grein er verði 3. gr. og orðist svo:

Af arfi sem fellur til kirkna, opinberra sjóða, líknar- og menningarstofnana eða félaga, skal engan erfðafjárskatt greiða. Sama gildir um handrit, bókasöfn, listaverk og minjagripi séu hlutir þessir ánafnaðir eða gefnir opinberum söfnum landsins eða alþjóðlegum stofnunum.``

Herra forseti. Ég tel að tillagan þjóni göfugum tilgangi. Ég tel að tillagan geti bætt samfélagið og sannarlega getur tillagan náð þeim tilgangi sem hv. þm. Pétur H. Blöndal talar mjög oft um að sé hinn þarfasti. Hún getur dregið úr útgjöldum ríkisins. Það er einfaldlega staðreynd að fyrir það fé sem rennur í gegnum líknarstörf, líknarsamtök til mannúðarstarfa, fæst miklu meira en ríkið þyrfti að reiða af höndum fram ef það yrði ella að vinna þessi sömu störf. Við erum því hér, hæstv. forseti, að leggja til að háttur sem áður var hafður á og reyndist vel verði tekinn upp aftur í þau lög sem væntanlega verða að endingu staðfest á Alþingi síðar í dag.