Erfðafjárskattur

Þriðjudaginn 23. mars 2004, kl. 14:19:51 (5604)

2004-03-23 14:19:51# 130. lþ. 88.6 fundur 435. mál: #A erfðafjárskattur# (heildarlög) frv. 14/2004, ÖJ
[prenta uppsett í dálka] 88. fundur, 130. lþ.

[14:19]

Ögmundur Jónasson:

Hæstv. forseti. Ég ætla aðeins í örfáum orðum að ítreka afstöðu þingflokks Vinstri hreyfingarinnar -- græns framboðs til frv. Við 1. umr. málsins lýstum við ákveðnum efasemdum um fyrirhugaðar lagabreytingar, fyrst og fremst á þeirri forsendu að fyrirsjáanlegt þótti af hálfu fjmrn. að samþykkt frv. mundi leiða til tekjutaps fyrir ríkissjóð sem nemur 300--400 millj. kr. og með hliðsjón af þeim niðurskurði sem við verðum vitni að, ekki síst innan velferðarþjónustunnar þessa dagana, töldum við okkur ekki geta staðið að slíkum lagabreytingum.

Samkvæmt frv. var ætlunin að erfðafjárskatturinn yrði þrepaskiptur, 5% og 10%. Menn vita ekki með vissu hvernig skatturinn skiptist núna eða hvernig innheimtan er, en eftir að brtt. kom fram um að færa efra skattþrepið niður og hafa þau bæði 5% ætla menn að skattheimtan mundi að meðaltali liggja í 5,85%. Við umræðu í nefndinni kom fram tillaga um að breyta öðrum ákvæðum frv. og veigamest er sú breyting að líta til eigna á markaðsvirði en ekki nafnvirði og horfa menn þar ekki síst til hlutafjáreignar. Þetta er mikið réttlætismál og mat margra sem til þekkja að lagabreytingin muni færa ríkissjóði umtalsverðar tekjur umfram það sem nú er af þessum tekjustofnum. Í ljósi breytinganna og í ljósi þess að líklegt þykir að skattheimtan á erfðafjárskatti verði markvissari, höfum við ákveðið að styðja breytingarnar. Sjálfur hef ég haft efasemdir um að lækkun erfðafjárskatts sé mikið réttlætismál. Ég hefði kosið að fara aðrar leiðir í þeim efnum og horfa sérstaklega til launafólks, lágtekjuhópa og millitekjuhópa um að létta skattbyrðar.

Varðandi brtt. sem hér liggja fyrir, hefur hv. þm. Össur Skarphéðinsson gert rækilega grein fyrir þeim. Ég er sammála málflutningi hans í einu og öllu og ætla ekki að hafa fleiri orð um þetta.