Erfðafjárskattur

Þriðjudaginn 23. mars 2004, kl. 14:26:36 (5606)

2004-03-23 14:26:36# 130. lþ. 88.6 fundur 435. mál: #A erfðafjárskattur# (heildarlög) frv. 14/2004, KHG
[prenta uppsett í dálka] 88. fundur, 130. lþ.

[14:26]

Kristinn H. Gunnarsson:

Herra forseti. Ég vil fara í nokkrum orðum yfir þau sjónarmið sem hafa komið fram í 3. umr. um málið. Það er athyglisvert að um meginefni frv. hefur verið frá upphafi tiltölulega góður stuðningur og allgóð samstaða af hálfu þeirra sem eiga sæti á Alþingi. Þannig var í upphafi, ef mig misminnir ekki, almennur stuðningur við þá breytingu sem er að finna í frv., að lækka erfðafjárskatt úr því sem þá var og niður í tvö þrep. Það kom hins vegar strax fram það sjónarmið sem hér hefur verið gert að umtalsefni af tveimur ræðumönnum, að menn töldu rétt að hafa áfram skattfrelsi á erfðafé til líknarfélaga, kirkna og fleiri skyldra aðila. Síðan hefur málið tekið breytingum þannig að skatthlutfallið hefur enn verið lækkað, úr 2%, 5% og 10% niður í eitt, sem er 5%. Einnig hefur verið tekið upp skattfrelsi á eignir að skattstofni upp að 1 millj. kr.

Í þeim búningi sem frv. er nú hefur það að geyma þá miklu breytingu frá því sem áður var að það er lágur undanþágulaus skattur með ákveðnu skattfrelsi eigna upp að 1 millj. kr. Það tel ég vera sjónarmið sem menn eiga að geta sameinast um að er skynsamlegt og líklegt til að vera einfalt í framkvæmd og ekki hvati til að sniðganga kerfið eins og verið hefur til þessa.

Það hlýtur að vera æskilegt markmið laga og lagasetningar að tryggja að framkvæmdin sé með eðlilegum hætti en stuðli ekki að því að menn finni sér leiðir til þess að komast hjá ákvæðum laganna, eins og menn vita að hefur verið í reynd að mörgu leyti undir gildandi lögum.

Hér hafa verið sett fram þau sjónarmið að jafnvel þrátt fyrir þessar miklu breytingar á frv. vilji menn samt gera frekari breytingar með því að hafa undanþágu. Ég vil aðeins staldra við það, því ég held að menn geti ekki valið hvort tveggja í þeim efnum. Menn verða að velja annað hvort. Annaðhvort verða menn að velja kerfi með lágri skattprósentu sem er undanþágulaust eða menn velja kerfi með undanþágum, en þá er líka skattprósentan hærri. Ég fæ það ekki til að ganga upp að menn vilji hafa lága skattprósentu með undanþágum. Þá er ég hræddur um að menn séu komnir með kerfi sem er ekki skynsamlegt til lengri tíma. Þau rök sem borin voru fram fyrir því að hafa undanþágurnar voru þau að málefnið sem í hlut ætti væri svo þarft og það mundi spara ríkissjóði fé ef þessir aðilar fengju meira fé til sín í formi erfða eða í gegnum erfðir eða vera arfleiddir að fé vandalausra aðila.

[14:30]

Væntanlega telja menn þá að hafi þessar stofnanir meira fé undir höndum, hvort sem það er vegna þess að meira af arfi rennur til þeirra eða skatturinn er minni, geti þær eða félög unnið meira starf og þannig sparað ríkissjóði fé.

Gott og vel. Þá spyr ég: Hvar getum við endað með þessari röksemdafærslu? Þetta er ekki eini skatturinn sem ríkissjóður hefur og lýtur að starfsemi þessara félagasamtaka og stofnana. Við erum með tekjuskatt, launatengd gjöld, virðisaukaskatt o.fl. Með sömu rökum er hægt að segja að þessi starfsemi eigi að vera undanþegin öllum þessum gjöldum. Hvar ætla menn að enda í því? Ég fæ það ekki í raun og veru til að ganga upp að menn geti með þessum rökum borað göt á það einfalda kerfi sem hér er verið að smíða. Ef menn vilja fara þá leið að hafa undanþágur, og ég ætla út af fyrir sig ekkert að gera lítið úr því sjónarmiði sem að baki því liggur, hljóta þeir að enda í hærri skattprósentu. Þeir sem leggja til undanþágur frá þeim tillögum sem hér liggja fyrir eru jafnframt að leggja til hærri skattprósentu. Það er ekki hægt að hafa bæði lága skattprósentu og víðtækar undanþágur. Það held ég að sé tvískinnungur, herra forseti, sem menn eigi ekki að gefa undir fótinn með að hægt sé að ástunda.

Hvernig geta menn sem hafa samþykkt tveggja þrepa kerfi með 5%, 10% og þessum undanþágum ætlast til þess að kerfið gangi í einu þrepinu með 5% og sömu undanþágum? Það sjá allir þegar við skoðum málavöxtu í þessu að undanþáguleiðin í þeim tillögum sem hér liggja fyrir er ekki annað en til að bora gat á kerfið og spilla því verulega þannig að menn verða að hækka skattprósentuna til að hafa jafnvægi í tekjuöfluninni. Þetta vildi ég leggja áherslu á, herra forseti, þannig að menn lykju ekki þessari umræðu með þau sjónarmið ein að það yrðu að vera undanþágur.