Erfðafjárskattur

Þriðjudaginn 23. mars 2004, kl. 14:32:52 (5607)

2004-03-23 14:32:52# 130. lþ. 88.6 fundur 435. mál: #A erfðafjárskattur# (heildarlög) frv. 14/2004, ÖS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 88. fundur, 130. lþ.

[14:32]

Össur Skarphéðinsson (andsvar):

Herra forseti. Hv. þm. Kristinn H. Gunnarsson segir að tveir kostir séu uppi, annars vegar að hafa kerfi þar sem er lág skattprósenta og engar undanþágur og hins vegar kerfi þar sem er há skattprósenta og hugsanlega margvíslegar undanþágur.

Það er rétt hjá hv. þingmanni að þetta eru valkostirnir sem uppi eru gagnvart hinum hefðbundnu skattstofnum. Ég get vel skilið þessa röksemdafærslu gagnvart tekjuskatti og virðisaukaskatti. Við erum hér hins vegar með dálítið merkilegan skatt, erfðafjárskatt, og það er ekki hægt að tala um að menn séu að bora göt í það kerfi. Við leggjum einfaldlega til að líknarfélög og menningarstofnanir verði að öllu leyti undanþegnar því að greiða skatta af arfleiðslufé.

Þarna er um að ræða tiltölulega takmarkaðan skattstofn. Við skulum vona að hann aukist þegar fram líða stundir, en hver er tilgangurinn með þessu? Hann er tvíþættur. Annars vegar, sem skiptir minna máli, að auka það fjármagn sem líknar- og menningarstofnanir öðlast með þessum hætti. Hins vegar að örva og undirstrika nauðsyn á því að þegar menn koma fram á sinn síðasta dag og hafa safnað í kistur á langri vegferð um þennan heim hugsi þeir til samtaka af þessum toga sem leggja líknandi hönd á samfélagið. Þau vinna í göfugum tilgangi og við eigum að gera allt sem við getum til að ýta undir sjálfboðasamtök. Það er stefna langflestra stjórnmálaflokka, m.a. stefna flokks sem hv. þm. tilheyrir í dag, hvað sem verða kann í framtíðinni.

Ég tek því ekki þessa röksemdafærslu gilda að öllu leyti.