Erfðafjárskattur

Þriðjudaginn 23. mars 2004, kl. 14:35:07 (5608)

2004-03-23 14:35:07# 130. lþ. 88.6 fundur 435. mál: #A erfðafjárskattur# (heildarlög) frv. 14/2004, KHG (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 88. fundur, 130. lþ.

[14:35]

Kristinn H. Gunnarsson (andsvar):

Herra forseti. Ef við leggjum af stað með undanþágur með þeim rökum að þær stuðli að því að viðkomandi líknarfélög og stofnanir hafi meira fé til umráða getum við ekki endað með þá röksemdafærslu þar. Hún hlýtur að gilda gagnvart öðrum sköttum sem snúa að þessari starfsemi, svo sem óbeinum sköttum og beinum sköttum. Ef þeir eru þá felldir niður eða lækkaðir gagnvart þessari sömu starfsemi eykst það fé sem viðkomandi líknarfélag eða stofnun hefur til umráða. Með þessari röksemdafærslu endum við í hinu.

Í öðru lagi, með því að undanþiggja einhverja aðila greiðslu skattsins erum við að draga úr tekjumöguleikum ríkissjóðs og þeirri tekjurýrnun verður aðeins mætt með því að hækka skattprósentuna. Það er ekki hægt að gera það öðruvísi. Nema þá að draga úr einhverjum útgjöldum ríkissjóðs sem menn geta út af fyrir sig líka gert. Til þess að hafa jafnvægi í tekjuöflun sem lögin þjóna fyrst og fremst --- þau eru til tekjuöflunar --- verður að hækka skattprósentuna.

Í þriðja lagi er erfitt að finna innra samræmi í framkvæmdinni sem getur uppfyllt það réttlæti sem menn telja að löggjöf af þessu tagi verði að uppfylla. Ef kirkjan t.d. er undanþegin skattgreiðslu en ekki nánir ættingjar, ekki öryrkjar eða fátækt fólk, finnst einhverjum sér mismunað. Við þurfum líka að gá að þessum hlutum, herra forseti.