Samningar um veiðar úr norsk-íslenska síldarstofninum

Þriðjudaginn 23. mars 2004, kl. 15:20:00 (5618)

2004-03-23 15:20:00# 130. lþ. 88.9 fundur 479. mál: #A samningar um veiðar úr norsk-íslenska síldarstofninum# þál., Frsm. meiri hluta SP
[prenta uppsett í dálka] 88. fundur, 130. lþ.

[15:20]

Frsm. meiri hluta utanrmn. (Sólveig Pétursdóttir):

Hæstv. forseti. Ég mæli fyrir nál. utanrmn. á þskj. 1148. Þetta er 479. mál þingsins, till. til þál. um staðfestingu samnings um veiðar úr norsk-íslenska síldarstofninum.

Með tillögunni er leitað heimildar Alþingis til að staðfesta eftirtalda samninga um veiðar úr norsk-íslenska síldarstofninum á árinu 2003:

1. Samning milli Íslands og Færeyja um stjórn veiða úr norsk-íslenska síldarstofninum á árinu 2003 sem gengið var frá með bréfaskiptum í Reykjavík og Þórshöfn 22. maí og 4. júní 2003.

2. Samkomulag milli Íslands og Noregs um stjórnun veiða úr norsk-íslenska síldarstofninum á árinu 2003 sem gert var í Ósló 26. júní 2003.

Nefndin hefur fjallað um málið og fengið á sinn fund Tómas H. Heiðar frá utanríkisráðuneyti, Kolbein Árnason frá sjávarútvegsráðuneyti og Friðrik J. Arngrímsson frá Landssambandi íslenskra útvegsmanna. Þá hélt nefndin fund með sjútvn. Alþingis þar sem farið var ítarlega yfir alla efnisþætti málsins að viðstöddum fulltrúum utanrrn., sjútvrn. og Landssambands íslenskra útvegsmanna.

Samningarnir fela í sér að leyfilegur heildarafli úr norsk-íslenska síldarstofninum á árinu 2003 sé 710 þús. lestir í stað 850 þús. lesta árið áður auk 1.500 lesta sem koma í hlut annarra ríkja samkvæmt nánari ákvörðun Norðaustur-Atlantshafsfiskveiðinefndarinnar og er aflahlutdeild Íslands óbreytt frá árinu 2002 eða 15,54% af heildarafla. Hins vegar er gert ráð fyrir í þetta skipti að Ísland láti 1% af leyfilegum heildarafla, þ.e. 7.100 lestir, í skiptum fyrir aukinn aðgang að efnahagslögsögu Noregs norðan 62°N.

Hæstv. forseti. Þessi þáttur málsins var töluvert ræddur í nefndinni. Samkvæmt upplýsingum sem nefndin hefur aflað mun hafa verið gripið til þess ráðs að gefa eftir ákveðið hlutfall af leyfilegum heildarafla gegn veiðum innan norskrar lögsögu. Ljóst er að samningsstaðan var frekar erfið á síðasta ári og var fallist á þetta til að leysa málið í bili en Norðmenn höfðu haft uppi kröfur um að fá allt að 90% af heildaraflanum í sinn hlut. Þessi málamiðlun var gerð í fullu samráði við Landssamband íslenskra útvegsmanna og ég held að ég geti fullyrt að mikilvægara hafi verið að hafa samning um veiðarnar og fara þessa leið en að hafa engan samning. Þá má gera ráð fyrir að verðmætari afurð fáist fyrir það sem veiðist innan norsku lögsögunnar.

Meiri hlutinn leggur hins vegar áherslu á að þetta fyrirkomulag sem beitt var við samningagerðina árið 2003 hafi verið bráðabirgðalausn sem beita þurfti í þetta eina skipti til að ná samningum. Nefndin bendir hins vegar á að íslensk skip veiði ákveðinn hluta af heildaraflanum innan norskrar lögsögu og að það geti orðið til að styrkja stöðu Norðmanna í samningum Íslands og Noregs um veiðar úr sameiginlegum fiskstofnum síðar meir og að það verði að teljast frekar óheppilegt.

Hæstv. forseti. Samningar þeir sem hér um ræðir voru frágengnir í júní 2003 og telur meiri hlutinn að rétt hefði verið að leggja þá fyrir Alþingi strax í upphafi haustþings en ljóst er að þeir koma mjög seint til efnismeðferðar nú í þinginu. Meiri hlutinn kemst ekki hjá því að gera athugasemd við þennan drátt á málsmeðferðinni.

Hv. þm. Steingrímur J. Sigfússon ritar undir nál. með fyrirvara.

Meiri hlutinn leggur til að tillagan verði samþykkt.

Undir nál. skrifa hv. þingmenn Sólveig Pétursdóttir formaður, Jónína Bjartmarz, Drífa Hjartardóttir, Steingrímur J. Sigfússon, með fyrirvara, Einar K. Guðfinnsson og Magnús Stefánsson.