Samningar um veiðar úr norsk-íslenska síldarstofninum

Þriðjudaginn 23. mars 2004, kl. 16:17:12 (5621)

2004-03-23 16:17:12# 130. lþ. 88.9 fundur 479. mál: #A samningar um veiðar úr norsk-íslenska síldarstofninum# þál., KLM
[prenta uppsett í dálka] 88. fundur, 130. lþ.

[16:17]

Kristján L. Möller:

Hæstv. forseti. Við ræðum hér um staðfestingu á samningi um veiðar á norsk-íslenska síldarstofninum. Málið er um margt merkilegt, kannski ekki síst fyrir þær sakir að hv. 1. þm. Reykv. n., hv. þm. Össur Skarphéðinsson, hefur farið yfir og sett fram í nefndaráliti minni hluta utanrmn. greinargott yfirlit þar sem farið er aftur til þeirra svörtu daga í Íslandssögunni þegar síldveiðar við Ísland hrundu, með öllum þeim efnahagslegu vandamálum sem því fylgdu. Ég vil þakka sérstaklega fyrir að það skuli gert á svo greinargóðan hátt sem gert er í því nefndaráliti. Ég þakka hv. þm. jafnframt fyrir ræðu hans og yfirferð um þetta mál. Mér fannst ræða hans mjög fróðleg og mikilvæg fyrir þessa umræðu, til að skerpa á kröfum okkar Íslendinga í samningum við Norðmenn út af Norðurlandssíldinni, sem ég kýs að nefna svo fremur en norsk-íslenska síldarstofninn.

Segja má að Norðurlandssíldin hafi verið upphafið að mikilli velsæld á Íslandi, meðan síldveiðar voru stundaðar fyrir norðan og austan land, sérstaklega fyrir norðan land. Sú mikla síldarvinnsla sem þar var er grunnur að ýmsum stórum framfaramálum okkar Íslendinga. Jafnframt varð líka mikið áfall við hrun síldarstofnsins eins og hv. þm. Össur Skarphéðinsson hefur dregið skýrt upp. Ég hygg að íslensk stjórnvöld, sérstaklega hæstv. utanrrh., hefði átt að vera við umræðuna og fylgjast með því sem hér hefur verið sagt og sett á blað. Hér eru staðreyndir settar á blað sem eiga að vera okkar aðalrök í samningum við Norðmenn, þ.e. rök fyrir kröfu okkar um að fá meira úr þessum sameiginlega síldarstofni, meira en 15,54% á komandi árum.

Virðulegi forseti. Á þeim tíma er síldveiðarnar voru hvað mestar var á hinu háa Alþingi oft og tíðum beðið með að setja saman fjárlög íslenska ríkisins. Þá var beðið eftir niðurstöðunni af síldveiðum, síldarsöltun og síldarsölu okkar. Á árum áður tóku menn mið af því til að átta sig á hvernig fjárlög íslenska ríkisins yrðu sett saman. Það kemur heim og saman við þessa söguskýringu og vert að benda á hve mikilvægar síldveiðarnar voru okkur Íslendingum. Þær gætu þess vegna orðið jafnmikilvægar aftur þó að þær verði aldrei eins hlutfallslega og áður var. Það er með öðrum orðum, virðulegi forseti, afar gott hjá fulltrúum samfylkinganna sem skrifa nefndarálitið, ekki síst hv. 1. þm. Reykv. n., Össuri Skarphéðinssyni, að draga þetta fram eins og ég hef áður sagt. Nefndarálitið er gott mótvægi --- án þess að ég vilji vera of dónalegur eða harðorður um framgöngu stjórnvalda --- við þá umræðu hæstv. utanrrh. að það sé ekki ástæða til að skemma samskipti Norðmanna og Íslendinga út af nokkrum þúsundum tonna af síld. Það er mikilvægt að halda þessu til haga og hvetja íslensk stjórnvöld til að forðast undanlátssemi í þessum efnum. Þau verða að koma fram við norska samningamenn af fullri hörku og beita þeim söguskýringum sem m.a. eru settar fram hér. Hér er meira að segja vitnað í niðurstöður sem þrír Norðmenn komust að árið 1980, álit norskra vísindamanna á því af hverju norsk-íslenski síldarstofninn eða Norðurlandssíldin hrundi.

Gegndarlaus rányrkja Norðmanna, eins og hér kemur fram, á síldarseiðum og smásíld gerði það að verkum að síldarstofninn hrundi, ekki það að við Íslendingar veiddum of mikið af fullorðinni síld. Ég tek undir það sem fram kemur í nál. minni hluta nefndarinnar og furða mig á ummælum hæstv. utanrrh. um málið, að hann skuli tala um það á svo léttvægan hátt sem hann gerði þegar málið var flutt. Þetta er mikilvægt að hafa í huga.

Virðulegi forseti. Við eigum að sækja fram með þessi rök og önnur af fullri hörku gegn Norðmönnum og krefjast þess að fá meira úr síldarstofninum á komandi árum. Auk þess vil ég sérstaklega minnast á annað sem einnig kemur fram í nefndarálitinu, að það eigi að skoða það alvarlega að íslensk skip fái einhvers konar ívilnun vegna þess síldarafla sem þau veiða eftir að síldin er komin inn í íslenska fiskveiðilögsögu. Þetta er mjög mikilvægt atriði. Auðvitað verður það þannig þegar tekist verður á í samningaviðræðunum að menn munu fara í veiðisöguna, heimildir um hvað hefur verið veitt á árum áður. Þá verður spurt hvar síldin var veidd og hverjir veiddu hana. Hvað veiddu Norðmenn mikið, hve mikið veiddu Íslendingar og á hvaða hafsvæði? Þá er mikilvægt að halda þessu á lofti og ég hvet hæstv. ríkisstjórn og hæstv. utanrrh. til að skoða þetta mál mjög alvarlega þegar næsti samningur verður gerður, hvenær sem það verður. Eins og hér hefur komið fram, virðulegi forseti, erum við að ræða um samning sem gerður var í fyrra og löngu er búið að inna af hendi.

Nefndarálitið er, eins og ég hef sagt, mjög fróðleg lesning. Þar kemur fram söguskýring á því hvernig þessi gríðarlega rányrkja Norðmanna á seiðum og ókynþroska síld leiddi til hruns síldarstofnsins með þeim alvarlegu afleiðingum sem fylgdu fyrir okkur Íslendinga, þ.e. um miðjan sjöunda áratug síðustu aldar er síldveiðar hrundu við Íslandsstrendur. Sú rányrkja leiddi til efnahagsþrenginga, í raun og veru harðinda sem voru búin til af manna völdum, þ.e. Norðmönnum. Í því sambandi nægir að nefna ýmis sjávarpláss norðan lands og austan sem fóru illa út úr hruni síldarstofnsins. Ég gæti byrjað á að nefna þann ágæta bæ Siglufjörð og haldið áfram austur um, á Raufarhöfn, Seyðisfjörð, Neskaupstað og mörg fleiri sveitarfélög og byggðarlög fóru mjög illa út úr þessu hruni, þeirri efnahagskreppu sem skapaðist í framhaldi af því. Hér er það sett fram á mjög greinargóðan hátt hvernig Norðmenn stunduðu rányrkju með áðurnefndum afleiðingum.

Virðulegi forseti. Það er kannski dálítið táknrænt að þetta skuli sett svo skýrt fram og hér er gert og um það skapist nokkur umræða. Í sumar á einmitt að minnast þess að Íslendingar hafa veitt síld við Íslandsstrendur í 100 ár. Þetta er sett fram á 100 ára afmæli þeirra veiða, eftir að Norðmenn kenndu okkur að veiða síld.

Ég vildi aðeins skerpa á þessu aðalatriði í málinu. Ég ítreka að ég ætla ekki að fara yfir alla söguna. Það hefur verið gert af hv. þm. Össuri Skarphéðinssyni. Ég fagna því að þingmenn Frjálsl. skuli taka undir þetta álit sem hér kemur fram og muni ekki styðja málið á Alþingi. Það er ekki síst gert til að herða á íslenskum stjórnvöldum, utanrrh., sjútvrh. og öðrum íslenskum samningamönnum sem þurfa að véla um þetta við Norðmenn á komandi árum. Samningamenn Íslands verða að hafa í huga að hrun norsk-íslensku síldarinnar, Norðurlandssíldarinnar, var ekki af okkar völdum heldur af völdum Norðmanna sem, e.t.v. í hugsunarleysi eða vegna ónógrar þekkingar á ástandinu, stunduðu ofveiði eins og raun ber vitni. Það hafði síðan hrikalegar afleiðingar í för með sér. Það á að vera veganesti samninganefndarmanna okkar í viðræðum við Norðmenn að sýna þeim fram á þá óbilgirni að krefjast þess að fá meira, allt að 90% eins og hér kom fram að mig minnir í ræðu hv. þm. Sólveigar Pétursdóttur, framsögumanns meiri hluta utanrmn. Á svo óbilgjarnar kröfur Norðmanna á ekki að hlusta.

Við höfum hér sóknarfæri og sögulegar skýringar sem benda til þess að við eigum að krefjast meira. Ég vil líka árétta það atriði, virðulegi forseti, að íslensk stjórnvöld hugi að því að veita íslenskum skipum sem vilja bíða með síldveiðar sínar, bíða eftir því að síldin gangi inn í íslenska fiskveiðilandhelgi, einhverja ívilnun í staðinn. Eitt af því sem væntanlega mun gerast á næstu árum vegna þeirra breytinga sem orðið hafa í hafinu, þ.e. hlýnandi sjávar, er að síldin gæti á komandi árum gert meira af því að ganga inn í íslenska fiskveiðilandhelgi. Veri hún velkomin til Íslands á ný.