Samningar um veiðar úr norsk-íslenska síldarstofninum

Þriðjudaginn 23. mars 2004, kl. 16:28:46 (5622)

2004-03-23 16:28:46# 130. lþ. 88.9 fundur 479. mál: #A samningar um veiðar úr norsk-íslenska síldarstofninum# þál., MÞH
[prenta uppsett í dálka] 88. fundur, 130. lþ.

[16:28]

Magnús Þór Hafsteinsson:

Hæstv. forseti. Hér hefur verið til umræðu samningur um veiðar á hinni svokölluðu norsk-íslensku síld. Það er að sjálfsögðu afskaplega þarft mál þó að samningurinn sem hér er til umræðu sé í raun runninn úr gildi. Um veiðarnar þarf að sjálfsögðu að reyna að ná nýjum samningi. Hér er um að ræða mikilvægan fiskstofn fyrir Íslendinga. Menn hafa farið yfir söguna og réttilega bent á það með mörgum góðum rökum að þessi stofn hafi verið mjög mikilvægur.

En það er eitt, herra forseti, sem ég hnýt svolítið um. Mér finnst menn gera fremur mikið úr því að Norðmenn hafi eingöngu verið ábyrgir fyrir því að stofninn hrundi á sínum tíma. Það er rétt svo langt sem það nær. Þeir stunduðu mikla rányrkju á ungsíld, nánast síldarseiðum, á þessum árum, á fimmta, sjötta og sjöunda áratugnum, við Noreg. Þar af leiðandi eyðilögðu þeir möguleika síldarinnar til nýliðunar, þ.e. að ungir árgangar bættust inn í hrygningarstofninn. Hrygningarstofninn gat þannig ekki viðhaldist og það var úr þeim hrygningarstofni sem við Íslendingar stunduðum fyrst og fremst veiðar okkar við Ísland, bæði undan Norðurlandi og hinu svokallaða Rauða torgi.

Það sem ég vildi benda á, herra forseti, var að í lok sjöunda áratugarins urðu gríðarlegar náttúruhamfarir í hafinu, sérstaklega norður af Íslandi. Áður en ég yfirgaf skrifstofu mína áðan greip ég með mér bók sem heitir Hafrannsóknir við Ísland. Hún er eftir dr. Jón Jónsson, fiskifræðing og fyrrv. forstjóra Hafrannsóknastofnunar til margra ára. Þetta er bók sem kom út árið 1990, afskaplega gott rit í tveimur bindum, þar sem gerð er grein fyrir sögu hafrannsókna við Ísland nánast frá örófi alda til loka tíunda áratugarins á síðustu öld. Í öðru bindi þessarar bókar er greinargóður kafli um síldarrannsóknir og svolítið líka um sögu síldveiða við Ísland. Mig langar að blaða aðeins í þeirri bók og lýsa því, með leyfi forseta, sem gerðist í lok sjöunda áratugarins. Hér sendur:

,,Árið 1966 var hitastig sjávar norðanlands 1--2°C undir meðallagi og algjörlega átulaust út af Norðurlandi allt sumarið. Veiðin var á líku svæði og árið áður, og síldin hagaði sér líkt og þá utan þess að hluti norska síldarstofnsins gekk ekki í vestur í átt til Íslands eins og venjulega, heldur á svæðið vestur af Bjarnarey`` --- en Bjarnarey er í Barentshafi --- ,,en þaðan hélt þessi síld vestur á bóginn og var komin suður af Jan Mayen um miðjan október. Hún blandaðist síðan þeim hluta norska síldarstofnsins er hélt sig út af Austurlandi.`` --- Það er á því svæði sem kallað er Rauða torgið. --- ,,Þetta ár var síldarafli Íslendinga meiri en nokkru sinni áður eða 770 þús. tonn og hér var svo til eingöngu um að ræða síld af norskum uppruna.``

770 þús. tonn, heildarársafli Íslendinga úr þessum mikla stofni, er engin smáveiði. Í fyrra veiddum við eitthvað um 110 þús. tonn, þ.e. einn sjöunda hluta þessa. Þetta var árið 1966 þegar allur búnaður til veiða, fiskiskipin, veiðarfærin og öll tæki, t.d. á dekki, fiskleitartæki og annað þess háttar, var minni að sniðum minna en er í dag. Á þeim tíma var tækjabúnaður miklu ófullkomnari og erfiðari aðstæður til veiða. Samt tókst okkur að veiða þetta gríðarlega magn, 770 þús. tonn árið 1966.

[16:30]

En því miður hallaði mjög fljótt á ógæfuhliðina eftir þetta, sennilega vegna þess, eins og ég rakti áðan, að það urðu hamfarir í hafinu. Vorið 1968 var hafísár, mikill hafís fyrir Norðurlandi og sjórinn mjög kaldur. Það var lítið af átu og rannsóknir Íslendinga og Norðmanna á síld sýndu að síldin leitaði allt of lítið vestur á bóginn, hún hélt sig austur í hafi og æddi vorið 1968 norður á bóginn og fór allt norður til Svalbarða og hélt sig þar í lítilli átu en 700--900 sjómílna fjarlægð frá Íslandi. Öll skilyrði til síldveiða urðu því allt í einu gríðarlega erfið. Það var ekki mikið af síld. Í bókinni Hafrannsóknir við Ísland, við erum stödd árið 1968 í lok sumars, stendur, með leyfi forseta:

,,Í lok ágústmánaðar fór síldin að ganga suður, en að þessu sinni hélt hún sig þó mun nær austur- og suðurjaðri pólstraumsins en endranær og var komin á venjulegar vetursetustöðvar seinni hluta október. Hegðun síldarinnar þetta haust var mjög óvenjuleg. Hún var dreifð yfir stórt svæði allt fram í desember í 2--5 faðma lagi á 200--350 m dýpi á daginn, en kom síðan alveg upp á nóttunni, en þó oftast dreifð um allan sjó. Það sem eftir var ársins veiddust á þessu svæði samtals 10 þús. tonn, en heildaraflinn á vertíðinni varð einungis 75 þús. tonn.`` --- Þetta er aðeins tveimur árum eftir metárið 1966. --- ,,Næsta ár var heildaraflinn af norður- og austurmiðum aðeins 500 tonn, sem fengust vestur af Svalbarða í júlí.

Var þá lokið mesta síldveiðitímabili í sögu Íslendinga.``

Þarna hafði stórslysið gerst. Það kom eitthvað alvarlegt fyrir hrygningarstofninn þetta sumar. Það urðu gríðarleg afföll, ekki bara vegna veiða heldur sennilega líka vegna náttúrulegra skilyrða. Í raun vitum við ekki alveg og höfum ekki gert okkur grein fyrir því hvað gerðist í raun. En þarna urðu hreint og beint algjör ragnarök.

Það bætti síðan gráu ofan á svart að Norðmenn höfðu stundað mikla rányrkju á ungsíld þannig að það var ekki fyrir hendi nóg ungsíld til að bæta upp þetta mikla tap sem orðið hafði í hrygningarstofninum. Þarna vorum við því búin að tefla okkur bæði í skák og mát og stofninn hrundi. Það tók áratugi að byggja hann upp aftur og það gerist ekki fyrr en á 10. áratugnum eða fyrir einum 8--10 árum að síldarstofninn nær sér á strik og fer að ganga aftur vestur á bóginn í ætisleit og í átt að Íslandi. Reynslan af þessum árum og reynsla undanfarinna ára hefur sýnt að göngu síldarinnar og líffræðileg útbreiðsla er mjög breytileg frá ári til árs. Það atriði held ég að við ættum að hafa í huga í samningaviðræðum við Norðmenn. Við höfum orðið vör við síld á Íslandsmiðum. Það veiddist síld við Færeyjar fyrir nokkrum árum. Þá var hún þar. Það hefur líka veiðst síld á hinu svokallaða Svalbarðasvæði. Við skulum hafa það í huga að réttarstaða Norðmanna á Svalbarðasvæðinu er mjög ótrygg og óviss. Það hangir gersamlega í lausu lofti hversu mikinn tilgang Norðmenn hafa til veiða og nytja á fiskstofnum á hinu svokallaða Svalbarðasvæði, sem er ekkert smáræðis hafsvæði.

Þarna tel ég að við Íslendingar eigum alveg skýlausan rétt sem við ættum að leita leiða til að notfæra okkur og mér finnst að við ættum að reyna að herða bæði forsrh., utanrrh. og ríkisstjórnina alla til að gera eitthvað alvarlegt í því að leita leiða til að bæta rétt okkar á því mikla hafsvæði. Þarna er síldin að verulegum hluta, þarna höfum við veitt töluvert af síld á hverju sumri undanfarin ár og munum vafalaust gera það í framtíðinni.

Svalbarðasvæðið tilheyrir ekki norsku lögsögunni. Að mínu mati er Svalbarðasvæðið alþjóðlegt hafsvæði sem á að falla undir fiskveiðistjórn. Það á að falla undir Norðaustur-Atlantshafsfiskveiðinefndina, NEAFC, sem hefur stjórnað síldveiðum á alþjóðahafsvæði á úthafskarfaveiðum með ágætisárangri svo dæmi sé nefnt. Þetta er hlutur sem við megum ekki gleyma í samningaviðræðum við Norðmenn.

Annað sem ég vildi minnast á er að það er því miður staðreynd að við Íslendingar höfum ekki staðið okkur nógu vel í að kortleggja göngur þessa mikla fiskstofns á undanförnum árum. Við höfum ekki staðið okkur nógu vel í hafrannsóknum og það er gríðarlega alvarlegt mál. Við höfum ekki reiknað heimadæmin okkar og við höfum ekki unnið heimavinnu okkar. Við höfum ekki fylgst nógu vel með göngum síldar í íslensku lögsöguna. Nánast það eina sem hefur verið gert er að notast við gögn frá fiskiskipum sem hafa kannski rambað fram á síldartorfur í íslensku lögsögunni eða annars staðar í hafinu á milli Íslands, Noregs og Svalbarða, en skipuleg leit og rannsóknir hafa allt of lítið verið stundaðar. Þarna eru íslensk stjórnvöld, ríkisstjórnin og þeir sem bera ábyrgð á þessum málum, sek um mjög alvarlega handvömm og vanrækslu. Við hefðum átt að eyða miklu meiri tíma, orku og peningum í að reyna að kortleggja göngu síldarinnar á undanförnum árum.

Ég vil t.d. í framhaldi af því og í sambandi við það nefna að það voru mjög mikil mistök sem við gerðum á sínum tíma þegar við fengum nýja Árna Friðriksson, að selja gamla skipið. Gamli Árni Friðriksson, sögufrægt hafrannsóknarskip, afskaplega gott og traust skip sem búið var að eyða mjög miklum peningum í að gera upp og búa vel úr garði til að geta stundað á því hafrannsóknir og fiskrannsóknir, skip sem gefið var af útvegsmönnum til Íslands fyrir síldarpeninga í lok sjöunda áratugarins, hafði þjónað okkur dyggilega um áratugaskeið allt frá árinu 1966, ef ég man rétt, var selt Færeyingum fyrir slikk fyrir örfáum árum. Það var alveg með ólíkindum. Ég stóð á bryggjunni og horfði á eftir skipinu með miklum trega þegar það sigldi héðan í síðasta skipti. Þarna misstum við af mjög góðu skipi sem við hefðum getað gert út með tiltölulega litlum kostnaði til að stunda fiskirannsóknir, fylgjast með fiskgöngum, bæði kolmunna, síld og jafnvel loðnu að sumarlagi með tiltölulega litlum tilkostnaði því rekstur skipsins kostaði bara brot af því sem stóri risinn sem liggur bundinn við bryggju stóran hluta ársins kostar. Við áttum aldrei að selja skipið. Við áttum að halda því og gera það út þó ekki hefði verið nema um sumartímann einmitt til að afla okkur gagna, til að afla okkur skotfæra til að nota í samningaviðræðum við nágrannaþjóðirnar um þessa miklu flökkustofna, kolmunnann, loðnuna, síldina og jafnvel úthafskarfann líka. Þetta voru alvarleg mistök.

Ég vil að lokum þakka fyrir ágæta og skemmtilega umræðu. Það er alltaf gaman að tala um fisk, fiskifræði, fiskstofna og hafrannsóknir og vil enn á ný brýna fyrir stjórnvöldum, utanrrh., sjútvrh. og öðrum þeim sem að samningaviðræðum við Norðmenn koma að gefa ekki eftir. Við höfum þokkaleg spil á hendi þrátt fyrir allt, að ég tel, til að hopa ekki hænufet. Ég vara við tilhneigingu hæstv. utanrrh. til að stökkva alltaf úr einni skotgröf yfir í aðra og vera alltaf að hopa, hopa smám saman undan Norðmönnum, skref fyrir skref. Á endanum verða þetta ansi mörg skref og alveg klárt mál að Norðmenn notfæra sér öll veikleikamerki til hins ýtrasta.

Ég vil líka taka undir hugmyndir um að íslenskum veiðiskipum sem stunda síldveiðar verði gefin eins konar kvóta\-ívilnun fyrir að stunda síldarleit í íslensku lögsögunni á vorin þegar mestar líkur eru á að síldin sé að ganga hingað inn. Á meðan stjórnvöld hafa ekki manndóm í sér til að veita fé til að stunda almennilegar hafrannsóknir og síldarrannsóknir á Íslandi verðum við að treysta á að sjómennirnir okkar geri það. Ég treysti þeim í sjálfu sér alveg fyllilega til þess, þeir búa yfir mikilli þekkingu og mikilli færni til að sinna því verkefni, en við verðum þá að gefa þeim svigrúm til að gera það þannig að við fáum almennileg gögn til að nota sem spil í þeim mikla póker sem við stundum við Norðmenn um þessar stundir.