Samningar um veiðar úr norsk-íslenska síldarstofninum

Þriðjudaginn 23. mars 2004, kl. 16:41:31 (5623)

2004-03-23 16:41:31# 130. lþ. 88.9 fundur 479. mál: #A samningar um veiðar úr norsk-íslenska síldarstofninum# þál., GAK
[prenta uppsett í dálka] 88. fundur, 130. lþ.

[16:41]

Guðjón A. Kristjánsson:

Hæstv. forseti. Umræðan hefur að mörgu leyti verið fróðleg og skemmtileg og vafalaust upplýsandi fyrir marga. Ég tel að ég þurfi litlu að bæta við varðandi fiskifræðina, hún hefur verið rakin mjög skilmerkilega af hv. þm. sem hafa talað um málið og ber að þakka það, vegna þess að ekki er vanþörf á því að sagan sé annað slagið rifjuð upp.

Ég vil hins vegar gera að umtalsefni það sem stundum er sagt þegar menn eru í samningum, sérstaklega í kjarasamningum, en ég held að eigi jafn vel við í samningum okkar við aðrar þjóðir, að menn eiga ekki að byrja á að semja við sjálfan sig nema í lokuðu herbergi þar sem enginn heyrir til. En það er einmitt það sem hæstv. utnrrh. gerði í pontu, hann fór að lýsa þeim einkennilegu ummælum yfir, sem er mótmælt alveg sérstaklega í nál. minni hlutans og í ræðunum sem hafa verið fluttar í dag, að það væri e.t.v. ekkert sérstakt mál að gefa eftir eins og 3--5 þús. tonn í viðbót til að ná samningum við Norðmenn og það bæri ekki að halda úti ágreiningi milli þjóða út af slíku.

Þetta er nauðsynlegt að draga fram í ljósi þess að þegar er búið að gefa eftir 7.100 tonn af síldinni til að komast frekar í lögsögu Norðmanna við veiðar á síld, sem hefur verið réttilega bent á í dag að þýði að Norðmenn geta sagt að við séum að veiða meiri hluta af heimildum okkar innan norskrar lögsögu, sem styrkir málflutning þeirra.

Ég hygg að það sé líka rétt sem hefur komið fram í umræðum í dag að ef við hefðum ekki samið 1996 þann samning sem við gerðum við Norðmenn hefðum við að öllum líkindum ekki veitt minna en við gerðum samkvæmt samningnum heldur meira og hefðum örugglega getað styrkt stöðu okkar. Við höfðum þá gagnkvæma samninga við Færeyinga og gátum veitt að hluta til innan færeysku lögsögunnar. Staða okkar upprunalega varðandi samningana 1996 var því sterk og mikill ágreiningur um það, eins og menn muna, þegar gengið var til þess samkomulags sem þá var gert og hlutdeildina sem við áttum samkvæmt samningnum rétt á að veiða úr norsk-íslenska síldarstofninum.

Sá samningur sem við ræðum nú og skrifað var undir í júní á sl. ári, 26. júní 2003, er náttúrlega fyrir veiðar á síðasta ári og við erum að ræða samninginn til staðfestingar af hálfu Alþingis þegar nánast er komið að næsta tímabili að veiða síld, því líklegt er að hægt verði að hefja síldveiðar, ef menn vilja, um mánaðamótin apríl/maí eða jafnvel fyrr. Það er afar sérstakt og ámælisvert að við fjöllum um staðfestingu á samningunum svo löngu eftir að þeir hafa verið gerðir, einkanlega með tilliti til þess að það var mjög umdeilt, svo ekki sé meira sagt, að við skyldum samþykkja að láta frá okkur 1% af hlutdeild þeirri sem við áttum og kaupa þar af leiðandi aðgang að norsku lögsögunni með 7.100 tonnum af síld.

Síðan er, eins og ég sagði í upphafi máls míns, því lýst yfir í umræðum af hæstv. utanrrh. að menn eigi ekki að gera það að ásteytingarsteini við að ná samningum þó gefa þurfi eftir 3--5 þús. tonn til viðbótar til að ná samkomulagi.

Ég kalla þetta að byrja á að semja við sjálfan sig og gera það fyrir opnum tjöldum og lýsa því yfir að menn séu tilbúnir að gefa eftir áður en farið er í samningaferlið, áður en því er lokið. Þetta held ég að sé afar misráðið og ámælisvert að hæstv. utanrrh. skuli hafa látið þau ummæli falla hér.

Þess vegna held ég að viðbrögð stjórnarandstöðunnar séu mjög eðlileg því við teljum ekki rétt að málin beri að með þeim hætti sem þau gera, að fjallað sé um þau löngu síðar og að við séum að góðkenna þá samninga og þá eftirgjöf sem var gerð fyrir samningana árið 2003 og hins vegar þau viðhorf sem hæstv. utanrrh. hefur lýst varðandi frekara framhald samningsgerðarinnar.

Það er fyrst og fremst okkar hagur að reyna að veiða sem mest af síldinni innan íslenskrar lögsögu, gangi hún inn í lögsögu okkar, eða á alþjóðlegu hafsvæði. Það styrkir samningsstöðu okkar langmest til frambúðar og skiptir langmestu máli fyrir okkur varðandi hag okkar og samningsstöðu.

Við skulum ekki gleyma Smugudeilunni í þessu sambandi. Við hefðum aldrei náð nokkrum einustu samningum við Norðmenn ef við hefðum ekki keyrt á veiðar í Smugunni á sínum tíma. Það er einfaldlega þannig þegar verið er að tala um samninga á alþjóðlegu svæði að það eru veiðarnar og veiðisagan sem hægt er að byggja á, það er sögulegur réttur, dreifing stofnsins, uppeldisstöðvar og hrygningarstöðvar. Þetta eru meginsjónarmiðin, en svo er til eitthvað sem heitir sanngirnissjónarmið sem tengist því að þjóðir séu mjög háðar fiskveiðum o.s.frv. Það eru fyrst og fremst slík meginsjónarmið sem hafa verið notuð til grundvallar við gerð allra samninga, sama hvort við erum að tala um úthafskarfann eða aðra samninga sem við höfum tekið þátt í fyrir Íslands hönd á undanförnum árum.

Með hækkandi hitastigi sjávar hér við land eru miklar líkur til þess að síldin taki upp fyrri göngur sínar og sæki meira í íslenska lögsögu. Við sjáum það t.d. á dreifingu á kolmunnastofninum að hann leitar meira í íslenska lögsögu með hlýnandi sjó. Þar er um ósaminn stofn að ræða og alveg ljóst að miklar veiðar okkar á þeim stofni byggja undir samningsstöðu okkar í framtíðinni, eins og miklar veiðar á síld á alþjóðlegu hafsvæði og innan lögsögu okkar mundu byggja undir samningsstöðu okkar í framtíðinni.

Ég tek undir það sem hv. þm. Össur Skarphéðinsson rakti mjög gaumgæfilega, að við eigum ekki að gleyma sögunni í þessu sambandi varðandi veiðar okkar og veiðirétt og hvernig við nýttum stofninn áratugum saman á fullvaxta síld hér við land, en Norðmenn fóru hins vegar þá leið, því miður, að veiða niður ungviðið og rústa í raun og veru stofninum með því að halda til mikilla smásíldarveiða.

Þó aðrir hafi gert miklar athugasemdir við það verður að segja samt söguna eins og hún er, hæstv. forseti, að við Íslendingar erum ekki alveg saklausir í smásíldarveiðum. Við höfum stundað smásíldarveiðar hér við land á okkar eigin stofnum, m.a. norður í Ísafjarðardjúpi fyrir mörgum árum þar sem skip stunduðu veiðar á millisíld og smásíld eingöngu til bræðslu. Einnig munum við hvernig við sóttum hart að sumargotssíld okkar við suðurströndina fyrir áratugum síðan, en bárum sem betur fer gæfu til að bregðast við og stöðva þær veiðar. Þetta viðhorf var nokkuð ríkjandi á árum áður, menn héldu því jafnvel fram að smásíldin væri sérstofn og óhætt væri að ausa upp smásíldinni vegna þess að þetta væri síld sem yrði ekki stærri. En það hefur verið afsannað með síðari rannsóknum.

Fyrst og fremst vil ég vara við því, hæstv. forseti, að við lýsum því yfir á hv. Alþingi að við séum tilbúin í samninga þar sem við ætlum að bjóða upp á meiri eftirgjöf. Það gengur ekki. Menn geta nefnt einhverjar hugsanlegar niðurstöður og lausnir í lokuðum herbergjum þegar menn eru að velta upp möguleikum og semja við sjálfa sig, en menn koma ekki í ræðustól á hv. Alþingi og lýsa því yfir að niðurstaðan geti verið sú að það verði enn frekari eftirgjöf til að ná samningi, til viðbótar við þau 7.100 tonn sem við þegar slökuðum út á síðasta ári.

[16:45]

Ég fagna því að í nál. meiri hlutans er sérstaklega tekið á því að hér hafi verið um einstakt atriði að ræða sem ekki beri að endurtaka og var lögð á það sérstök áhersla. Ég tel að meiri hlutinn sé einnig að senda utanrrh. afar skýr skilaboð um að framganga hans og framsetning á málinu sé ekki sú stefna sem Alþingi getur fallist á. Ég ætla að gera mér vonir um, hæstv. forseti, að hæstv. utanrrh. hlusti á þau orð og þá orðræðu og skoðanaskipti sem fara fram í hv. Alþingi um þessi mál og það verði veganesti okkar til framtíðar að utanrrh. geti bent á það að á Alþingi sé ekki vilji fyrir frekari slökun í samningum við Norðmenn og það þýði ekkert að fara til Noregs og koma heim með samninga sem eiga að slaka á meiru í þessa veru til að ná samningum, eingöngu samninganna vegna.

Þetta vildi ég sagt hafa, virðulegi forseti, og tel að þar sem samningarnir eru nú í lausu lofti sé ekkert annað fyrir okkur að gera en að hvetja með öllum ráðum til öflugra síldveiða, verðlauna menn fyrir að veiða sem mest innan lögsögunnar og fara snemma til veiðanna, taka okkar skerf og rúmlega það, keyra á 50--100 þús. tonnum fram úr því sem við höfum samið um á undanförnum árum. Þá kemur annað hljóð í vini og frændur okkar Norðmenn.