2004-03-23 16:58:24# 130. lþ. 88.10 fundur 482. mál: #A samningur milli Íslands og Færeyja um fiskveiðar innan íslenskrar og færeyskrar lögsögu# þál., MÞH
[prenta uppsett í dálka] 88. fundur, 130. lþ.

[16:58]

Magnús Þór Hafsteinsson:

Hæstv. forseti. Hér er til umræðu till. til þál. um staðfestingu samnings milli Íslands og Færeyja um fiskveiðar innan íslenskrar og færeyskrar lögsögu á síðasta ári.

Ég vil byrja á að þakka hv. þm. Sólveigu Pétursdóttur, formanni utanrmn., fyrir að hafa farið ágætlega yfir nál. Ég hef í sjálfu sér ekkert við samninginn að athuga. Hann hefur verið nokkuð stöðugur á undanförnum árum og er kannski til vitnis um það að samband okkar við Færeyjar á fiskveiðisviðinu er afskaplega gott og hefur verið til margra ára. Samningurinn sem hefur verið í gildi hefur fram að þessu verið mjög góður fyrir báða aðila, að ég tel. Við höfum látið þá hafa óverulega kvóta í botnfiski en fengið t.d. í staðinn aðgang til kolmunnaveiða í færeyskri landhelgi sem hefur skilað okkur þó nokkrum verðmætum.

En ég hnýt um eitt og það er að í dag bárust fréttir af því að Árni M. Mathiesen, hæstv. sjútvrh. Íslands, og Bjørn Kalsø, sjávarútvegsráðherra Færeyja, hafi hist á fundi í Þórshöfn í Færeyjum í gær til að ræða um fiskveiðisamning fyrir þetta ár. Ég lýsi því bæði eftir hæstv. sjútvrh., Árna M. Mathiesen, í þingsal hins háa Alþingis og hæstv. utanrrh., Halldóri Ásgrímssyni. Þeir eru hvorugir til staðar þegar verið er að ræða þessa samninga. Ég tel að hæstv. sjútvrh. hefði, ef hann er á landinu, átt að mæta á þing og upplýsa hið háa Alþingi og þingmenn um samninginn sem hann var að gera við Færeyinga í gær.

Samningurinn virðist, samkvæmt frétt sem var birt á vefritinu skip.is fyrr í dag, í öllum aðalatriðum eins og sá samningur sem var gerður í fyrra og við ræðum fyrst nú á Alþingi, með einni undantekningu, að til greina kemur að viðurkenna rétt Færeyinga sem strandríkis við loðnuveiðar.

Hæstv. forseti. Þetta eru nokkur tíðindi, því muni ég rétt mun þetta fela í sér að ef Færeyingar fá viðurkenningu Íslendinga, Norðmanna og Grænlendinga sem strandríki til loðnuveiða öðlast þeir sjálfkrafa rétt til fastrar kvótahlutdeildar í loðnustofninum við Ísland, þ.e. þeir munu fá ákveðna prósentu fast og þurfa ekki að semja við einn eða neinn um það. Þeir hafa rétt sem strandríki alveg eins og Íslendingar, Norðmenn og Grænlendingar hafa í dag til veiða úr loðnustofninum. Ég hefði metið það mikils ef hægt hefði verið að upplýsa þingmenn um það hvað felst í þessu, einmitt núna við þetta tækifæri þegar við ræðum um samninginn sem gerður var í fyrra og er runninn út.

Þetta er kannski enn eitt dæmið um það, mér liggur við að segja virðingarleysi sem ríkisstjórnin og stjórnarliðar sýna þingmönnum með því að bera fyrir þá einhverja gamla, dragúldna samninga sem eru löngu gengnir úr gildi og láta okkur standa og diskútera þá fram og til baka. Það er í sjálfu sér gott og blessað að við diskúterum eðli samninga og hvað liggur á bak við og að sjálfsögðu hvað eigi að liggja fyrir í framtíðinni. En enn á ný, mér finnst mjög gagnrýnivert, fyrst verið var að leggja drög að samningi við Færeyinga í gær að ekki skuli vera hægt að nota tækifærið í dag til að upplýsa okkur þingmenn um samningagerðina því okkur varðar málið jafnmikið og ríkisstjórnina. Þegnar Íslands eiga rétt á því að vita strax, um leið og færi gefst, hvað ríkisstjórnin er að bralla í samskiptum við önnur ríki, en því miður hefur oft verið pottur brotinn í því efni á undanförnum missirum.