2004-03-23 17:02:59# 130. lþ. 88.10 fundur 482. mál: #A samningur milli Íslands og Færeyja um fiskveiðar innan íslenskrar og færeyskrar lögsögu# þál., GAK
[prenta uppsett í dálka] 88. fundur, 130. lþ.

[17:02]

Guðjón A. Kristjánsson:

Virðulegi forseti. Ég hef svo sem ekkert við það að athuga að framlengja samninginn sem hér er til umræðu. Eitt atriði í nál. hefði ég þó viljað ræða. Það snýr að því sem þar er sagt um lúðustofninn.

Í skýrslu Hafrannsóknastofnunar er vissulega talað um að lúðustofninn sé í mikilli lægð og þar beri að fara varlega og að beina sókn í lúðu þurfi að takmarka. Þetta er alveg rétt tilvitnun sem hér stendur. Ég vil hins vegar leyfa mér að draga mjög í efa, virðulegi forseti, að það eitt að takmarka veiðar á stórlúðu, þ.e. hina beinu lúðusókn sem svo hefur verið kölluð, muni hafa nokkur sérstök áhrif til að efla lúðustofninn á komandi árum. Ég hygg að það sem hefur mest afgerandi áhrif á stærð lúðustofnsins við landið sá meðafli af smálúðu sem kemur í togveiðarfæri, þá bæði troll og snurvoð. Ég tel að starfsmenn Hafrannsóknastofnunar, jafnvel sérfræðingar um lúðu, hafi ekki meiri þekkingu á lúðunni en svo að hægt væri að setja fram þessar tölur miðað við aflareynsluna. Menn hafa skoðað aflareynsluna og fullyrða síðan út frá því að sóknin sé of mikil.

Það sem mér finnst einkennilegt og verð að gera athugasemdir við er að menn skuli leggja fram þá tillögu að fyrst og fremst skuli takmarka beina lúðuveiði, þ.e. lúðuveiði með haukalóð, að hún vegi mest að stofninum. Ég hygg að mikil veiði á smálúðu á grunnslóð, m.a. í snurvoð, hafi miklu meiri áhrif á það hvernig stofninum reiðir af á næstu árum. Eins og með marga aðra fiskstofna koma upp öflugir lúðuárgangar og þá veiðist mikil smálúða. Þetta er hægt að sjá í upplýsingum frá Hafrannsóknastofnun og skoða. Sum ár hefur verið mikil veiði á smálúðu, áberandi mikil, en síðan koma mörg ár í röð sem lítið veiðist af smálúðu.

Ég dreg í efa að sú aðgerð sem lögð er til í skýrslu Hafrannsóknastofnunar og tekin er upp í nál. meiri hlutans, um að hið vænlegasta til árangurs sé að takmarka sókn með krókum í stórlúðu, muni hafa veruleg áhrif til uppbyggingar á stofninum.

Ég vildi láta þetta koma fram vegna þess að um það er sérstaklega getið í nál. Í nál. segir að ráðið sé frá því að heimila beinar veiðar á lúðu. Þar er vitnað til skýrslu Hafrannsóknastofnunar sem ég er með fyrir framan mig. Ég tel að það þurfi að bæta ástand lúðustofnsins með öðrum aðferðum en þeim að takmarka beinar veiðar með haukalóð. Við þetta vildi ég gera athugasemd.