2004-03-23 17:11:46# 130. lþ. 88.10 fundur 482. mál: #A samningur milli Íslands og Færeyja um fiskveiðar innan íslenskrar og færeyskrar lögsögu# þál., ÖS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 88. fundur, 130. lþ.

[17:11]

Össur Skarphéðinsson (andsvar):

Frú forseti. Mig skiptir í raun engu máli, varðandi þetta tiltekna atriði, vernd lúðunnar, hvaða aðferðum við beitum til að ná henni fram. Ég hugsa að þetta sé rétt sem hv. þm. sagði, að fljótvirk aðferð til að vernda hana sé að takmarka með einhverjum hætti veiðar á henni þar sem mest er af ókynþroska ungviði.

Hitt er þó klárt að á meðan stofninn er í svo slöku ástandi sem hann er núna, eins og allar upplýsingar bera vott um, þá verðum við að fara báðar þessar leiðir. Mér finnst a.m.k. alls ekki siðferðilega verjandi að heimila beinar veiðar á tegund sem er á jafnhraðri niðurleið og lúðan hefur verið.

Ég þekki ekki jafn vel og hv. þm. --- en ég gerði það einu sinni, --- hvernig veiðum á lúðu er háttað. Ég geri mér ekki grein fyrir hvort sókn með trolli og með snurvoð hafi aukist svo síðustu árin að skipt hafi sköpum fyrir stofninn. Ég held að það hafi verið of mikil bein sókn í stórlúðu. Ég er þeirrar skoðunar að það skipti mjög miklu máli fyrir stofninn að það komist upp góð hrygning úr þessum tiltölulega litla stofni stórlúðu. Ég held að það skipti mjög miklu máli.

Ég er algjörlega ósammála hv. þm. um að þetta eigi ekki heima í nál. Það á sannarlega heima þar. Það ber vott um ráðdeild og hófstillingu og varúð sem við eigum alltaf að viðhafa gagnvart náttúrunni, að taka svona til orða. Ég verð að segja að ég er hissa á því að hv. þm. skuli gera þetta að sérstöku umræðuefni. Hann ætti frekar að taka undir með því áliti sem þarna er sett fram, að það beri að vernda lúðustofninn með öllum tiltækum aðferðum á meðan hann er jafnilla staddur og núna.