2004-03-23 17:13:58# 130. lþ. 88.10 fundur 482. mál: #A samningur milli Íslands og Færeyja um fiskveiðar innan íslenskrar og færeyskrar lögsögu# þál., GAK (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 88. fundur, 130. lþ.

[17:13]

Guðjón A. Kristjánsson (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég tók til máls til að lýsa því að ég hef ekki trú á að við náum stofninum upp með fljótvirkum hætti ef við ætlum að halda áfram veiðum á grunnslóð í togveiðarfæri og snúa sóknartakmörkunum eingöngu að beinni sókn í lúðu, eins og Hafrannsóknastofnun leggur til. Mig og hv. þm. greinir nokkuð á um það.

Ég tel að það muni ekki leiða til árangurs að snúa verndunaraðgerðum eingöngu að haukalóðinni. Það er mín niðurstaða. Reynsla mín segir að annað slagið koma upp góðir árgangar af lúðu. Ef við beittum skynsamlegum sóknartakmörkunum á þeim svæðum þar sem lúðan er meðan hún er að alast upp þá held ég að við næðum skjótari árangri. En við náum því ekki með því að fara eftir tillögu Hafrannsóknastofnunar um að beina eingöngu takmörkuninni að beinum krókaveiðum á lúðu.