2004-03-23 17:25:00# 130. lþ. 88.10 fundur 482. mál: #A samningur milli Íslands og Færeyja um fiskveiðar innan íslenskrar og færeyskrar lögsögu# þál., MÞH (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 88. fundur, 130. lþ.

[17:25]

Magnús Þór Hafsteinsson (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég vildi bara árétta að samkvæmt þeirri frétt sem ég hef í höndunum af vefritinu skip.is felur þessi nýi fiskveiðisamningur Íslands og Færeyja fyrir árið 2004 í sér að Færeyingar fá 80 tonna lúðukvóta alveg eins og á síðasta ári. Hæstv. sjútvrh. Árni Mathiesen er því búinn að gefa grænt ljós á það að lúðuveiðar Færeyinga halda áfram í íslenskri lögsögu á þessu ári eins og í fyrra.

Nú kom fram í máli hv. þm. Össurar Skarphéðinssonar áðan að Færeyingar hafi ekki nýtt þessa lúðukvóta sína að fullu á undanförnum árum. Mér er ekki kunnugt um hvernig að þessu hefur verið staðið og ég tel að ágæt fyrirspurn sem hann fékk svar við um daginn kalli í raun og veru á nýja fyrirspurn og miklu ítarlegri fyrirspurn um hvernig lúðuveiðum hefur verið háttað hér við land á undanförnum árum. Ég hef t.d. á margan hátt grun um að einhverri lúðu hafi verið landað svart og komi því ekki fram í veiðiskýrslum á Íslandi þannig að kannski er ástandið ekki alveg jafnkolsvart og sumir vilja vera láta.

Ég hef það líka eftir heimildum, það kom til mín sjómaður á skrifstofu mína fyrir örfáum dögum sem hefur margra ára reynslu af lúðuveiðum við Ísland og hann sagði mér að lúðustofninn væri núna greinilega að hjarna við á nýjan leik, að menn væru farnir að verða varir við meira af lúðu en þeir hafa gert mörg undanfarin ár. Það er því ekki alveg víst að þetta sé jafnslæmt og menn halda.

Ég held að þessi samningur sé í raun og veru alveg ágætur þrátt fyrir allt. Í staðinn fyrir að láta Færeyinga hafa lúðukvóta mætti kannski --- mér datt það í hug þegar hv. þm. var að tala áðan --- bjóða þeim grálúðukvóta við Suðurland. Ég á einhvers staðar í fórum mínum uppi á háalofti heima hjá mér gamla vísindagrein sem skrifuð var af Rússum frá því að ég var að læra fiskifræði á sínum tíma, þar sem kemur fram að rússneskt rannsóknaskip hafi fundið grálúðu undan suðurströnd Íslands. Þetta eru mjög merkilegar heimildir. Þarna er kannski um að ræða ónýttan fiskstofn og Færeyingar væru kannski tilbúnir til að finna hann fyrir okkur fyrst við nennum því ekki.