2004-03-23 17:27:16# 130. lþ. 88.10 fundur 482. mál: #A samningur milli Íslands og Færeyja um fiskveiðar innan íslenskrar og færeyskrar lögsögu# þál., ÖS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 88. fundur, 130. lþ.

[17:27]

Össur Skarphéðinsson (andsvar):

Frú forseti. Ég ætla ekki að þreyta þingheim með því að halda hér frekari fyrirlestra um fiskifræði. Ég vil samt í tilefni af þessum samningi og möguleikunum sem hann opnar benda á að við eigum enn ónumdar lendur á djúpsvæðunum á Hatton-Rockall og þá er alveg ljóst að við munum þurfa á liðveislu Færeyinga að halda. Ég tel reyndar að það sé með ólíkindum að Íslendingar skuli ekki hafa reynt að skapa sér veiðireynslu á þeim svæðum, sér í lagi þegar horft er til þess að aðrar þjóðir eru að reyna að gera það.

Hvað varðar þær upplýsingar sem hv. þm. færir okkur eftir að hafa verið á netinu, og það er nú hættulegt að vera of mikið á netinu eins og við báðir vitum, verð ég að segja að mér finnst með ólíkindum ef það er rétt að hæstv. sjútvrh. skuli þvert á ráðgjöf eigin stofnunar, þvert á upplýsingar sem hann er nýbúinn að veita þinginu, ívilna Færeyingum með þessum hætti. Mér finnst það ekki hægt. Ég vil ekki fullyrða það en ég held þó, og mun skoða það betur, að þetta sé í andstöðu við aðra alþjóðlega samninga sem við höfum gert um verndun tegunda.

Ég dreg svo í efa að þær svörtu veiðar sem hv. þm. Magnús Þór Hafsteinsson upplýsti hér um geti skýrt þá þróun sem við sjáum á lúðunni. Það verða þá alla vega að vera til staðar framhjáveiðar á svörtum markaði hjá Færeyingum líka vegna þess að þar birtist nákvæmlega sama þróun. Í þeim upplýsingum sem ég kaus ekki að óska eftir að kæmu inn í þingið, heldur fékk persónulega bréflega frá Fiskistofu, er sama þróun þar. En ástæðan fyrir því að ég vildi ekki draga þær inn í þingið er sú að ég vildi ekki gefa nein tilefni til þess að ætla að Alþingi Íslendinga væri með einhverjum hætti viljugt til þess að skera við nögl gagnvart Færeyingum. Ef við gerum það verðum við, eins og ég sagði áðan, að bæta það upp með einhverjum öðrum hætti því við viljum ekki minnka samstarf okkar og stuðning við þá.