2004-03-23 17:42:44# 130. lþ. 88.11 fundur 612. mál: #A staðfesting samninga um loðnustofninn á hafsvæðinu milli Grænlands, Íslands og Jan Mayen# þál., GAK (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 88. fundur, 130. lþ.

[17:42]

Guðjón A. Kristjánsson (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég vildi spyrja að því, m.a. í ljósi þeirrar umræðu hér hefur farið fram um norsk-íslensku síldina, samningsleysið þar og þá framtíð alla, hvort ekki hafi verið rætt í utanrmn. um hvaða afstöðu Ísland hygðist taka til samningsins um loðnuveiðarnar gagnvart Norðmönnum. Það er ljóst að við sögðum samningnum upp, m.a. til að knýja á um samninga varðandi norsk-íslensku síldina. Síðan var þessi samningur gerður þegar það lá fyrir.

Ég spyr hvort þau sjónarmið hafi ekki komið fram í nefndinni að huga þyrfti að því að segja samningnum upp. Eða ætlum við að hafa samning við Norðmenn um loðnuna á sama tíma og þeir telja að þeirra hagsmunum sé betur borgið án þess að gera samning um síldina?

Það er vitað að í mörg ár hafa Norðmenn nánast eingöngu veitt loðnuna innan okkar lögsögu eða í grænlensku lögsögunni en ekki í Jan Mayen lögsögunni. Þess vegna kann það að vera liður í því að lagfæra samningsstöðu okkar gagnvart Norðmönnum að segja þessum samningi upp. Ég vil spyrja hvort sá kostur hafi ekki verið ræddur í utanrmn., sérstaklega á þeim fundum þar sem fulltrúar utanrrn. og LÍÚ komu til fundar við nefndina. Voru þau sjónarmið ekki reifuð?