Uppsögn af hálfu atvinnurekanda

Þriðjudaginn 23. mars 2004, kl. 18:10:40 (5649)

2004-03-23 18:10:40# 130. lþ. 88.12 fundur 453. mál: #A uppsögn af hálfu atvinnurekenda# þál., AtlG
[prenta uppsett í dálka] 88. fundur, 130. lþ.

[18:10]

Atli Gíslason:

Frú forseti. Ég þakka hv. þm. Bryndísi Hlöðversdóttur og meðflutningsmanni að þáltill., hv. þm. Rannveigu Guðmundsdóttur, fyrir þennan tillöguflutning sem ég styð heils hugar og þann málflutning sem hv. þm. Bryndís Hlöðversdóttir hafði uppi og þau skynsamlegu rök sem hún mælti fyrir. Sérstaklega þótti mér gott að heyra tilvísun hennar í jafnræðisákvæði stjórnarskrárinnar.

Ég upplifi þessar geðþóttauppsagnir daglega í störfum mínum og ég kalla það geðþótta þegar engar ástæður eru tilgreindar. Geðþóttauppsagnir eru hrein og klár óvirðing við launamenn. Skrifleg uppsögn er lagaskylda í dag og atvinnurekanda sem vill hafa allt sitt á hreinu og vill hafa starfsemina með sóma er í lófa lagið að rökstyðja slíkar uppsagnir. Slíkar uppsagnarreglur eru líka hluti af eðlilegu og gegnsæju lýðræði. Það er hluti af lýðræði í landinu að borin sé virðing fyrir fólki.

Það felst líka annað í þessum geðþóttaumsögnum sem ég vildi vekja máls á og það er að atvinnulausum meðal miðaldra karla og kvenna fjölgar stöðugt. Það er út af því sem kallað hefur verið æskudýrkun í störfum. Mönnum er sagt upp fimmtugum, sextugum bara til þess að skipta út þó svo menn ættu að vita það að betur vinnur vit en strit hjá eldra fólki sem er fullboðlegt á vinnumarkað hvar sem er. Einhverra hluta vegna hafa ýmis stórfyrirtæki, sérstaklega fjármálastofnanir, valið að kalla til starfa fólk sem er undir fertugu og það fer nánast eftir fertugt. Mig minnir að það hafi verið kallað í Kaupþingi á sínum tíma stuttbuxnadeild. Þegar komið var þar inn vissi maður ekki hvort maður var í gagnfræðaskóla eða á vinnustað. Þetta er æskudýrkun. En þessar reglur mundu styrkja hlut miðaldra fólks á vinnumarkaði mjög verulega og þess vegna styð ég þær heils hugar.

Það er svo sem ekkert nýtt í þinginu að mælt sé fyrir gagnmerkum málum á sviði vinnumarkaðarins og það er jafndæmigert að félmrh. eða stjórnarliðar skuli ekki láta sjá sig í þingsölum til andsvara eða að segja skoðun sína á málinu. Það gerist aftur og aftur. Það er líka vanvirðing við góð málefni.

Fyrir mér er þessi fjarvera og óvirðing sem ég kalla skýrasta vísbending um að núv. ríkisstjórn er ekki fyrir fólkið í landinu ef frá eru taldir hátekjumenn og stóreignamenn en þá umlykur ríkisstjórnin í bómullarhnoðra dýrlegs fagnaðar auðs og valda. Nú síðast mun það gerast þegar við upplifum í þinginu dag hvern að það er verið að skera niður út um allt. Nú síðast, miðað við fyrirspurn sem ég fékk svar við um daginn, mun lækkun á eignarskatti, sérstökum eignarskatti og hátekjuskatti leiða til 7,5 milljarða tekjuskerðingar á ári. Það eru peningar sem ég hefði viljað sjá í velferðarkerfinu. Það eru peningar sem ég hefði viljað umlykja launamenn með. Varað var sérstaklega við því nýverið að það stefndi í mikið óefni í ríkisrekstrinum og skyldi það vera út af því að stóreignafólki eru réttir á silfurfati 7,5 milljaðar? Skyldi það vera út af því? Á hverju einasta ári eftir árið 2006 eða 2007.

Ég ítreka þakkir til hv. flutningsmanna tillögunnar og lýsi yfir eindregnum stuðningi mínum.