Uppsögn af hálfu atvinnurekanda

Þriðjudaginn 23. mars 2004, kl. 18:45:34 (5655)

2004-03-23 18:45:34# 130. lþ. 88.12 fundur 453. mál: #A uppsögn af hálfu atvinnurekenda# þál., KLM
[prenta uppsett í dálka] 88. fundur, 130. lþ.

[18:45]

Kristján L. Möller:

Frú forseti. Meðan hv. þm. Bryndís Hlöðversdóttir, annar flm. þessarar ágætu þáltill., var að rifja upp þennan dóm um uppsögn á sjómanni rifjaðist upp fyrir mér annað atvik sem snýr að sams konar máli. Það snýst um atvinnuöryggi launþega og hver réttur þeirra er í svona málum og þá kom upp í huga minn nokkuð sem ég vil endilega láta koma fram á hinu háa Alþingi. Það er innlegg í umræðuna og sýnir hvað það er mikilvægt að taka upp þá fullgildingu sem hér er rætt um og að nánar sé kveðið á um réttindi starfsmanna og annað slíkt við þær miklu breytingar sem hafa átt sér stað á Íslandi.

Það mál sem ég ætla að taka hér sem dæmi er þekkt um sjómann sem var skikkaður til að flytja lögheimili sitt í heimahöfn skipsins. Maðurinn var ekki giftur þótt hann ætti heimili annars staðar á landinu, byggi þar með konu sinni og börnum. Síðan gerist það að þessi viðkomandi starfsmaður verður fyrir slysi á leiðinni frá útgerðarstaðnum, heimahöfn skipsins, til fjölskyldu sinnar og ætlar að sækja slysatryggingu sína til Tryggingastofnunar eins og lög gera ráð fyrir. Þá var honum hafnað á þeirri forsendu að hann væri ekki á leið heim til sín vegna þess að hann hafði verið skikkaður til að flytja lögheimilið, í heimahöfn skipsins í þessu tilviki, og þótt hann væri að fara til fjölskyldu sinnar var hann í þessu tilfelli, í anda laganna, ekki á heimleið vegna þess að í tryggingalögunum er talað um lögheimili. Þarna er þessi viðkomandi starfsmaður algjörlega réttindalaus vegna slyssins sem hann verður fyrir á leið frá vinnu til heimilis.

Þetta vildi ég örstutt leggja inn í umræðuna vegna dæmis hv. þm. Bryndísar Hlöðversdóttur um uppsagnir vegna þess að starfsmaðurinn hafði neitað að flytja lögheimili sitt. Það er greinilegt að við þessar miklu breytingar, atvinnuháttabreytingar, þegar menn eru skikkaðir til að flytja lögheimili sitt hefur ekki fylgt með að breyta tryggingalöggjöfinni. Það eru sjálfsögð mannréttindi að maðurinn sem er á leiðinni heim til fjölskyldu sinnar njóti tryggingar en það telst ekki vera í anda laganna, þessara gömlu laga.

Ég vildi aðeins leggja þetta örstutt inn í umræðuna, frú forseti, um leið og ég þakka hv. þm. Bryndísi Hlöðversdóttur og Rannveigu Guðmundsdóttur fyrir að flytja þáltill. inn til þings. Það er stórfurðulegt að ekki skuli vera löngu búið að fullgilda þessa samþykkt Alþjóðavinnumálastofnunarinnar.