Stjórn fiskveiða

Þriðjudaginn 23. mars 2004, kl. 18:49:20 (5656)

2004-03-23 18:49:20# 130. lþ. 88.13 fundur 485. mál: #A stjórn fiskveiða# (sóknardagar handfærabáta) frv., MÞH (flutningsræða)
[prenta uppsett í dálka] 88. fundur, 130. lþ.

[18:49]

Magnús Þór Hafsteinsson:

Hæstv. forseti. Ég mæli fyrir frv. til laga um breytingu á lögum um stjórn fiskveiða, nr. 38/1990, með síðari breytingum, um að gólf verði sett í sóknardagakerfi smábátaflotans. Fyrsti flm. er Grétar Mar Jónsson sem sat á þingi í fjarveru minni á haustmánuðum en að auki flytur málið hv. 8. þm. Norðvest. Jón Bjarnason, Vinstri grænum.

Lagt er til að texta laga um stjórn fiskveiða, nr. 38/1990, verði breytt og 1. gr. hljóðar svo, með leyfi forseta:

,,2. málsl. 2. mgr. 6. gr. laganna orðist svo: Leyfilegir sóknardagar hvers fiskveiðiárs skulu aldrei vera færri en 23 og skal þeim fjölgað um einn fyrir hver 20 þúsund tonn leyfðs heildarþorskafla umfram 230 þúsund tonn á hverju fiskveiðiári.``

2. gr. hljóðar svo:

,,Lög þessi öðlast þegar gildi.``

Frumvarpið miðar að því að skapa festu í veiðikerfi handfærabáta sem leyfi hafa til veiða með takmörkun á sóknardögum. Þessir bátar eru í dag um 300 talsins og hafa leyfi til að stunda handfæraveiðar árlega á tímabilinu 1. apríl til 31. október. Frv. gerir ráð fyrir því að í stað þess að sóknardögum haldi áfram að fækka eins og lögin eru nú úr garði gerð, eða réttara sagt reglugerð um þessar veiðar, verði sett gólf í kerfið og miðað við 23 daga.

Algjört ósamræmi hefur verið í lögum að því er varðar handfæraveiðar smábáta þar sem veiðimöguleikar þeirra eru skertir á sama tíma og aflaheimildir annarra fiskiskipa sem hafa kvóta eru að aukast. Þorskaflinn var aukinn um 30.000 tonn á þessu fiskveiðiári og aukning hefur orðið á heildarafla á bæði ýsu og ufsa. Auk þess var afli annarra skipa sem veiða með krókum aukinn sérstaklega rétt fyrir jól með lögum um línuívilnun eins og frægt varð en þeir sem ekki beita á krókana og veiða með handfærum eiga enn að búa einir við aukna skerðingu á veiðum.

Frú forseti. Það er full ástæða til að nota orðið skerðing í þessu tilfelli. Heildarfjöldi sóknardaga handfærabáta var 21 dagur á síðasta ári en í ár stefnir í að þeir verði 19. Dagafjöldi þessara báta hefur hríðminnkað á undanförnum árum. Samkvæmt upplýsingum frá Landssambandi smábátaeigenda voru dagarnir alls 84 á hvern bát fiskveiðiárið 1996--1997. Næsta fiskveiðiár var þeim fækkað í 40 þar sem stjórnvöld og hagsmunaaðilar innan kvótakerfisins sáu ofsjónum yfir því að þessir bátar fengju afla úr sjó.

Enn á ný var höggvið í sama knérunn á árunum 1998--2002 en þá var þessum handfæraflota leyft að vera á sjó í alls 23 daga árlega, hverjum bát. Segja má þó að árið 2002 hafi nokkur bragarbót verið gerð á málefnum dagabátanna þar sem tekin var upp breyting sem gerði það að verkum að í stað þess að telja sjóferðir bátanna í heilum dögum var farið út í að telja þær klukkustundir sem fóru í að róa til fiskjar og var það mikil og sanngjörn bót á máli að mati þess sem hér talar.

Eins og reglurnar eru í dag hafa þeir sóknardagabátar, eins og ég sagði áðan, leyfi til að róa ákveðinn fjölda daga á hverju ári. Upphaflega var lagt af stað með það að þessi tími ætti að duga þeim til að veiða þann heildarafla sem þeim er ætlaður af stjórnvöldum. Nú er það svo, og réttilega hefur verið bent á það, að bátarnir hafa veitt töluvert umfram þessa viðmiðun. Ég er hér með tölur af heimasíðu Landssambands íslenskra útvegsmanna sem ég tel enga ástæðu til að rengja því að segja má að ekki ljúgi LÍÚ. Það vitum við. Tölurnar sýna að heildarársafli þessara báta undanfarin fimm ár hafi verið eitthvað á bilinu 5.500--11/12.000 tonn á ári. Aukningin hefur verið jafnt og þétt frá 1998--2002, úr 5.500 tonnum í 12.400 tonn. Þetta á sér eflaust margar skýringar. Þetta er töluvert umfram hinn svokallaða viðmiðunarafla sem hefur á tímabilinu verið á bilinu 1.300--2.100 tonn. Landssamband íslenskra útvegsmanna hefur bent á að í staðinn fyrir að veiða tæp 8.000 tonn sem þessum bátum var ætlað hafi þeir veitt 44.000 tonn, og hér erum við að tala um þorsk.

Ég sé satt best að segja, frú forseti, ekki miklum ofsjónum yfir þessu. Ég tel það bara hið besta mál að menn og konur, duglegt fólk á Íslandi, fái tækifæri til að bjarga sér og það geti aflað vel ef skilyrðin í hafinu eru slík að vel fiskist á krókana.

Ég verð að segja í fullri hreinskilni að ég hef aldrei skilið svona grasserandi öfundarmálflutning út í þennan flota, málflutning sem kynt hefur verið undir af öllu afli af ákveðnum öflum. Það hefur verið reynt að keyra þennan flota inn í kvóta. Undanfarið hafa verið uppi háværar raddir um þetta. Ég tel að svo megi aldrei verða. Ég tel að það yrði mikil ógæfa fyrir Ísland ef handfæraflotinn, þessi sóknardagafloti, yrði settur inn í kvótakerfi.

Margar ástæður má tína fram til að rökstyðja þá skoðun. Ég ætla svo sem ekki að fara ítarlega út í þá sálma hér og nú, tækifæri til þess mun gefast síðar, en það er alveg ljóst að þessi floti hefur marga kosti. Veiðiaðferðir hans eru góðar, sóknarmark hefur ótvíræða kosti fram yfir aflamark, þ.e. kvótakerfi, t.a.m. er ekkert brottkast í sóknarkerfi, menn hirða allan þann afla sem þeir fá og koma með hann að landi. Það gerir alla fiskveiðistjórn markvissari. Við vitum hvað menn veiða á hverjum tíma og getum hagað veiðistjórninni í samræmi við það. Annað er það að handfæraveiðar eru mjög vistvænar, það er engum vafa undirorpið, og þær valda engu tjóni á náttúrunni.

Það er annað sem ég get líka bent á sem oft gleymist í umræðunni, menningarlegt gildi slíkra veiða og þessa flota og gildi hans fyrir mannlífið á Íslandi og úti um hinar dreifðu byggðir landsins. Líf færist yfir hafnirnar í þorpunum víða í kringum landið á vorin þegar þessi floti byrjar að veiða. Svo er hann mjög hreyfanlegur, fer oft og tíðum nánast umhverfis landið, ef svo má segja, og skilur eftir sig peninga, atvinnu og mannlíf.

Það er eitt til viðbótar í þessu sambandi sem ég vil nefna og það er að flotinn er yfirleitt að vinna á sama tíma og hér er hvað mestur ferðamannastraumur. Það er einmitt það sem ferðamenn á Íslandi vilja sjá, eitthvert líf á bryggjunum, að það sé eitthvað að sjá þegar fólk gengur niður á bryggju. Þetta veit ég sjálfur. Og það er fátt sem ferðamönnum þykir skemmtilegra að horfa á en þegar bátar koma að landi hlaðnir fiski og menn eru að landa úr bátunum. Ferðamennirnir fá að sjá hvaða fisk menn veiða á Íslandsmiðum. Betri auglýsingu getur íslenskur sjávarútvegur ekki fengið, það er ég alveg sannfærður um.

Enn eitt sem má nefna, frú forseti, er að þessi floti hefur mjög jákvæð áhrif á nýliðun. Hún hefur verið mjög mikið vandamál í íslenskum sjávarútvegi, þ.e. nýliðun útgerðarmanna. Nýliðun gefur ungum mönnum tækifæri til að hefja útgerð, róa til fiskjar, án þess að þurfa að skuldsetja sig allt of mikið. Ungir duglegir menn geta komið undir sig fótunum með því að byrja að róa í þessu kerfi og ég tel það mjög jákvætt.

Þetta eru aðeins örfáar röksemdir sem má nota til að mæla með því að umræddur floti verði varinn með ráðum og dáð. Ég tel að frv. sé mjög gott og þarft skref í þá átt að svo verði gert.

Að lokum, frú forseti, gagnrýni ég þá málsmeðferð stjórnvalda sem við höfum séð á undanförnum árum þar sem stöðugt er verið að krukka í þennan flota og fækka dögum á sama tíma og ekkert er gert annað sem stjórnvöldum bæri kannski skylda til að gera, þ.e. að reyna að hafa áhrif á sóknargetu flotans, t.d. takmarka rúllufjölda, burðargetu eða annað þess háttar. Þar hefur hæstv. sjútvrh. að mínu mati algerlega brugðist hlutverki sínu. Hann hefði fyrir löngu átt að setja reglugerðir þar um en hann hefur ekki gert það af einhverjum undarlegum orsökum. Ég tel að sú aðferð stjórnvalda að láta þessa báta sífellt fækka dögunum í staðinn fyrir að reyna frekar að grípa inn með öðrum hætti, eins og t.d. með að takmarka rúllufjölda og annað þess háttar, kippi grundvellinum undan flotanum. Það er kannski það sem vakir fyrir stjórnvöldum.

Eins og ég sagði áðan tel ég að svo megi aldrei verða og vil að lokum benda á að margt bendir til að mikill stuðningur sé við þetta frv. meðal smábátasjómanna allt í kringum landið. Þeir hafa mörg undanfarin ár, félög þeirra allt umhverfis Ísland, ályktað nánast einróma um það að gólfið verði 23 dagar eins og lagt er til með þessu frv. þeirra hv. þm. Grétars Mars Jónssonar og Jóns Bjarnasonar. Ég reikna með að frv. fari eftir umræðuna, sem fer kannski ekki fram í dag en síðar, til hv. sjútvn. og fái þar góða og sanngjarna umfjöllun.