Stjórn fiskveiða

Þriðjudaginn 23. mars 2004, kl. 18:58:48 (5657)

2004-03-23 18:58:48# 130. lþ. 88.13 fundur 485. mál: #A stjórn fiskveiða# (sóknardagar handfærabáta) frv., JBjarn
[prenta uppsett í dálka] 88. fundur, 130. lþ.

[18:58]

Jón Bjarnason:

Frú forseti. Þetta frv. til laga sem við hv. þm. Grétar Mar Jónsson erum flm. að snertir einmitt dagabátana, þetta elsta fiskveiðistjórnarkerfi landsins, að sækja á mið og veiða á grunnslóð. Leyfilegum sóknardögum hjá þeim flota hefur stöðugt fækkað og þeir voru síðast settir í hámark 23 daga en síðan var ákveðið að þeim mætti fækka enn frekar. Má búast við að innan eins til tveggja ára verði dagarnir kannski komnir niður í 16--18 daga á ári. Að óbreyttu ráðslagi er í raun verið að stúta þessum flota. Það gefur augaleið að fækkun daga frá því sem nú er, og reyndar er ærið nóg fyrir, mun leiða til þess að slík útgerð getur ekki staðið undir neinum útgerðarkostnaði, skaffað atvinnu eða laun til þeirra sem stunda hana, hún missir veðhæfni og verður þess vegna gersamlega að lúta í gras að óbreyttu.

[19:00]

Það er styrkur sjávarútvegs á Íslandi að vera með sem fjölbreyttast útgerðarmynstur, vera með togara, net, línuveiðar, handfæri, sóknardaga og báta sem veiða eftir sóknardagakerfinu. Það væri mikill missir fyrir íslenskan sjávarútveg og atvinnu í byggðum landsins, fjölbreytni í þessari útgerð, ef sóknardagakerfið yrði lagt af enda er það ekki vilji stjórnvalda ef í það er lesið.

Í skoðanakönnun sem gerð var fyrir líklega tveimur árum kom fram að þjóðin vill standa vörð um strandveiðiflotann, hún vill standa vörð um þann flota sem sækir og skilar afla heim daglega. Hún vill standa vörð um þennan flota og þar einmitt eru sóknardagabátarnir visst flaggskip.

Þær aðgerðir sem stjórnvöld miða nú að til að reyna að drepa þennan flota eru því í algerri andstöðu að mínu mati við vilja þjóðarinnar.

Ég hefði gjarnan viljað skiptast á skoðunum við hv. þm. Norðvest., Kristin H. Gunnarsson, þingmann Framsfl. Hann sem varaformaður sjútvn. stýrði fyrir áramót vinnu sjútvn. um frv. um breytingar á stjórn fiskveiða sem laut að línuívilnun. Hv. þm. Kristinn H. Gunnarsson kom inn í sjútvn. við upphaf þeirrar vinnu með tillögur sínar, eða minnispunkta til að vinna úr, sem hann vildi að nefndin skoðaði. Auk línu\-ívilnunarinnar vildi hann að sett yrði gólf í dagabátakerfið. Þegar við svo afgreiddum þetta málamyndalínuívilnunarfrumvarp fyrir jól ítrekaði hv. þm., þáv. starfandi formaður sjútvn., það í umræðum á Alþingi að hér væri aðeins um áfanga að ræða, að ljúka þessu línuívilnunarmáli, en eftir biði að leysa málefni dagabátanna og sagði að í það yrði ráðist strax á næsta ári, þ.e. þá í upphafi þessa árs.

Það fer heldur lítið fyrir þeirri vinnu og ég vil vitna í ræðu hv. þm. Kristins H. Gunnarssonar sem hann flutti hér 12. desember 2003, með leyfi forseta:

,,Mér finnst ástæða til þess að halda þessu til haga til þess að draga það fram að stjórnarflokkarnir komust að þeirri niðurstöðu að þeir vildu frekar hafa handfæraveiðarnar í þessu kerfi en undir aflamarkskerfi. Og það er mikill vilji til þess innan stjórnarflokkanna að reyna að ná samkomulagi um breytingar á kerfinu sem geti gert það að verkum að menn geti búið við það í því formi sem menn hafa unnið á undanförnum árum.``

Þarna er hann að tala um dagabátakerfið.

Í greinargerð með línuívilnunarfrumvarpinu í haust var einmitt komið inn á það að þetta væri ógert og þar stóð, með leyfi forseta:

,,Málefni svonefndra dagabáta hafa verið rædd í nefndinni`` --- þ.e. í sjútvn. ,,Ekki reyndist unnt að leggja til tillögur um framtíðarskipan í málefnum þeirra, sem þó er mikilvægt verkefni. Meiri hlutinn`` --- það eru þingmenn Framsfl. og Sjálfstfl. --- ,,leggur áherslu á að vinnu við það verði hraðað.``

Þetta er sagt í tillögunum sem samþykktar voru um línuívilnun rétt fyrir jól. Það fer enn þá ósköp lítið fyrir þeim fyrirheitum sem gefin voru við afgreiðslu þess frv.

Á aðalfundi Landssambands íslenskra útvegsmanna gerði hæstv. sjútvrh. sér grein fyrir því að þar væri líka óunnið verk af hans hálfu því að hann sagði þá, með leyfi forseta:

,,Þá bíður okkar enn þá óleyst vandamál varðandi veiðar dagabáta og munum við jafnframt vinna að lausn þess.``

Báðir þessi fulltrúar stjórnarflokkanna, Framsfl. og Sjálfstfl., hafa því lýst því opinberlega að þeir ætli sér að vinna að góðri lausn á málefnum dagabátanna og þess vegna ber þeim skylda til að skila henni hingað inn í þing fyrir þinglok. Því miður, forseti, ber ekkert á henni enn og þá læðist að okkur sá grunur að ætlunin sé að svíkja þau fyrirheit sem gefin voru og horfa á eftir því að útgerð á sóknardagakerfi leggist af sem verður ef ástand breytist ekki. Það kalla ég hrein svik miðað við þær yfirlýsingar sem gefnar hafa verið í þinginu af fulltrúum stjórnarflokkanna, hæstv. sjútvrh. og hv. þm. Kristni H. Gunnarssyni, við umræður um þetta mál.

Virðulegi forseti. Þess vegna leggjum við til, þingmenn Vinstri grænna og Frjálsl., að sett verði gólf í sóknardagakerfið þannig að þeir verði aldrei færri en 23. Við teljum það algjört lágmark. Aukist fiskgengd á Íslandsmiðum þannig að veiða megi þar meira en nú er viljum við að sú aukning komi líka í hlut dagabátanna þannig að dögum þeirra fjölgi um 1 fyrir hver 20 þús. tonn leyfðs heildarþorskafla umfram 230 þús. tonn á hverju fiskveiðiári.

Virðulegi forseti. Þetta er gríðarlegt sanngirnismál og þetta er gríðarlegt réttlætismál fyrir þá sem stunda þessar veiðar. Þetta er líka mál fyrir byggðirnar vítt og breitt um landið sem treysta á fiskveiðar dagabátanna. Það væri verulegur sjónarsviptir og skaði fyrir sjávarútveg, fiskveiðar í landinu, ef þessi útgerð legðist af jafnframt því sem það væri gríðarlegur styrkur og mundi færa aukið líf í sjávarútveginn, í fiskveiðiþorpin, ef hægt yrði að efla þá útgerð eða tryggja hana í sessi þannig að hún haldi a.m.k. þeim hlut sem hún hefur nú.

Ég legg áherslu á það, frú forseti, að það er afar brýnt að málið fái afgreiðslu á þingi fyrir þinglok. Í ljósi þeirra ummæla sem fulltrúar stjórnarflokkanna, Framsfl. og Sjálfstfl., hafa gefið hér á þingi og í sjútvn. tel ég að hér sé bara um sleifarlag í vinnu að ræða, að þeir skuli ekki vera búnir að koma þessu máli hér áfram. Þetta frv. er þá til þess að hvetja til að málið fái afgreiðslu í þinginu eins og hugur allra stendur til ef marka má orð bæði varaformanns sjútvn. og hæstv. sjútvrh. Ég treysti því að þetta mál fái þá hraðbyr í gegnum þingið.