Stjórn fiskveiða

Þriðjudaginn 23. mars 2004, kl. 19:08:48 (5658)

2004-03-23 19:08:48# 130. lþ. 88.13 fundur 485. mál: #A stjórn fiskveiða# (sóknardagar handfærabáta) frv., SigurjÞ
[prenta uppsett í dálka] 88. fundur, 130. lþ.

[19:08]

Sigurjón Þórðarson:

Frú forseti. Þetta frv. sem er hér til umræðu er afar einfalt og felur fyrst og fremst í sér að leyfilegir sóknardagar verði aldrei færri en 23. Það má öllum vera ljóst sem hugsa eitthvað um fiskveiðar og fiskveiðistjórn að þjóðinni er engin hætta búin þó að við höfum ákveðið gólf í þessu kerfi. Stofnarnir verða ekki fyrir skaða þó að frv. verði samþykkt, síður en svo.

Hins vegar má fullyrða að margar útgerðir handfærabáta muni standa illa ef atvinnuréttindi handfærabáta verða skert frekar en nú er, þ.e. eins og stefnir í. Í raun mæla engin rök á móti því að frv. verði samþykkt. Ef einhver hv. þm. hefur þau væri mjög áhugavert að fá að heyra þau í þingsalnum, í umræðunni.

Nú standa yfir viðræður Landssambands smábátaeigenda og hæstv. sjútvrh. um stöðu sóknarbáta og hver sóknin skuli vera. Búið er að halda tvo fundi sem hafa ekki skilað neinum árangri. Ég hefði talið eðlilegast fyrir ríkisstjórnina að grípa frv. á lofti, veita því brautargengi á hinu háa Alþingi og gera það að lögum. Hæstv. sjútvrh. ætti að sjá hag sinn í að spara sér fundarhöld og koma á sæmilegri sátt við útgerðarmenn handfærabáta eins og lofað var ítrekað fyrir síðustu kosningar. Hv. þm. Jón Bjarnason benti á að vilji þjóðarinnar væri fyrir því að samþykkja þetta frv. Ég tel líka að svo sé. Ég tel einnig að það sé meiri hluti á hinu háa Alþingi fyrir því að samþykkja frv. Það hefur komið fram í umræðunni, m.a. á frægum fundi á Ísafirði 13. september sl. þar sem nær allir þingmenn Norðvest. tóku til máls. Það var á þeim að heyra þar að þeir styddu að gólf yrði sett í dagabátakerfið. Það kom m.a. fram hjá hæstv. samgrh., Sturlu Böðvarssyni, að hann væri efnislega samþykkur frv. Það væri mjög fróðlegt að fá að heyra nánar um sjónarmið hans í þessu máli, hvaða gólf hann var að tala um þarna fyrir vestan.

Það má sjá alla umræðuna frá þessum fræga línuívilnunarfundi á ágætum vef okkar í Frjálsl., xf.is. Þegar Guðrún Pálsdóttir, útgerðarmaður frá Flateyri, spurði þingmenn hvort þeir væru tilbúnir að styðja frv. um að sóknardagar handfærabáta yrðu aldrei færri en 23 --- þeir eru 19 núna --- svaraði hver þingmaðurinn á fætur öðrum að þeir styddu slíkt frv. ef það kæmi fram. Það var ekki einungis hæstv. samgrh. sem lýsti vilja sínum í þessu efni, heldur voru það fleiri, m.a. hv. þm. Einar Oddur Kristjánsson. Hann sagði orðrétt, með leyfi forseta:

,,Ég hef margsinnis lýst því yfir að það sé lífsnauðsynlegt fyrir dagabátana að hafa þetta gólf, margsinnis lýst því yfir að ég er tilbúinn að styðja þessa 23 daga og svarið er já, áfram.``

Það er sem sagt á hreinu að hv. þm. Einar Oddur Kristjánsson styður frv. og ég vænti þess að hann veiti þessu ágæta frv. brautargengi.

Svar hv. þm. Einars Kristins Guðfinnssonar við spurningu Guðrúnar Pálsdóttur útgerðarmanns var að vísu eilítið óljósara en engu að síður mátti skilja að hann styddi 23 daga gólf í dagabátakerfinu, það mátti skilja það. Það má lesa svar hans, eins og áður segir, á vef okkar í Frjálsl. af því að okkur þótti merkilegt að heyra þessi skýru svör. Ég hefði talið það vera verðugt verkefni fyrir þingfréttamenn að kanna hvort þessir þingmenn styðji enn í dag 23 daga gólfið í áðurnefndu dagakerfi. Mér fyndist verðugt verkefni að kanna það, fara yfir það með þessum ágætu mönnum sem lýstu því yfir að þeir styddu það.

Ég á ekki von á öðru en að þeir geri það enn í dag. Það væri ómerkilegt að halda einu fram á Ísafirði og öðru hér við Austurvöll nokkrum mánuðum síðar. Ég tel samt fróðlegt að fara yfir þessi mál og kanna það, ganga á þessa hv. þm. og spyrja þá út í það hvort þeir ætli ekki að veita þessu frv. okkar brautargengi. Ég tel að við eigum eftir að njóta liðsinnis þessara ágætu þingmanna og að við eigum vísan stuðning þeirra við frv.

Það ætti heldur ekki að vefjast fyrir framsóknarmönnum að samþykkja frv. Það kom fram í grein eftir helsta sérfræðing Framsfl. í sjávarútvegsmálum, hv. þm. Hjálmar Árnason, fyrir síðustu kosningar að hann væri mjög fylgjandi því að setja gólf í dagabátakerfið. Núna getur hv. þm. látið verkin tala, stutt þetta ágæta frv. Frjálsl. og Vinstri grænna. Það væri mjög fróðlegt síðar í umræðunni --- ég á von á að þessari umræðu verði frestað eftir ræðu mína --- að fá álit hans á þessu máli. Getur hann stutt það óbreytt eða vill hann fjölga dögunum, vill hann e.t.v. fækka þeim? Mér finnst eðlilegt, og ég geri þá kröfu á hv. þingmann, að hann komi hér fram síðar í umræðunni og svari spurningunni: Hvað meinti hann með ágætri grein sinni um gólf í dagabáta? Mér finnst vera kominn tími til þess að menn gefi upp hvort þeir ætli að standa við það sem þeir segja og skrifa fyrir kosningar þegar kosningum er lokið. Við í Frjálsl. tókum ómakið af honum með því að búa til þetta ágæta frv. þannig að hann getur nú stokkið á vagninn með okkur og veitt þessu ágæta frv. brautargengi. Þá ræðst það hvort orð hv. þm. Hjálmars Árnasonar standa og hvað þau þýddu.

Ég veit ekki betur, frú forseti, en að samþykkt hafi verið þáltill. hér á síðasta ári um að skoða kosti og galla færeyska fiskveiðistjórnarkerfisins. Átti nefnd sjútvrh. að skila skýrslu til þingsins og ég held að skiladagurinn hafi verið fyrir viku, 15. mars. Það væri fróðlegt að fá að heyra af störfum nefndarinnar. Mér finnst eðlilegt að hv. þm. Hjálmar Árnason greini okkur frá þeim. Hann hefur verið helsti hvatamaður að því að skoða kosti og galla færeyska kerfisins og er nokkurs konar sérfræðingur í því. Það væri mjög fróðlegt að fá að heyra sjónarmið hans síðar í umræðunni. Ég á ekki von á öðru en að greinargóð skýrsla komi úr nefndinni og e.t.v. er búið að leggja hana fram.

Hvað sem því líður var birt viðtal við ágætan færeyskan stórútgerðarmann ekki alls fyrir löngu í Morgunblaðinu, Olav Olsen, fyrrum ráðherra í Færeyjum, sjávarútvegsráðherra og atvinnumálaráðherra. Hann telur færeyska kerfið mjög gott og hann hefur engan áhuga á því að fara yfir í íslenskt kvótakerfi, stórútgerðarmaðurinn í Færeyjum. Ég held að það væri mjög áhugavert fyrir íslenska stórútgerðarmenn að kynna sér nánar sjónarmið Olavs Olsens. Hann segir að menn eigi ekki að vera hræddir við að fara í sóknardagakerfið. Það kemur fram að Færeyingar hafi veitt umfram ráðgjöf fiskifræðinga en vegna góðs sóknarkerfis hafi fiskstofnarnir sjaldan eða aldrei verið í betra ástandi. Ég tel vert að fara yfir þessi mál.

Það er mjög athyglisvert eitt sem kom fram í þessu ágæta viðtali við Olav Olsen í Morgunblaðinu. Færeyingar hafa notað þetta sóknardagakerfi síðustu sjö árin og í viðtalinu kemur fram að hann telur smábátana í Færeyjum ekki í beinni samkeppni við togarana. Það er athyglisvert að heyra í ýmsum talsmönnum stórútgerðarinnar á Íslandi, þeir eru æfir yfir hverjum degi sem á að auka við sóknargetu smábátanna. Bátarnir eru ekki nema 322, ef ég man rétt. Þá telja útgerðarmennirnir að verið sé að stela af þeim fiskinum. Olav Olsen telur jafnvel að það megi gefa veiðar frjálsar á minnstu bátana og línuveiðar innan 12 mílnanna. Eins og menn virðast hugsa þetta hérlendis held ég að þeir haldi að einn fiskur sem er veiddur fyrir Norðurlandi geti dregist frá kvóta á Suðurlandi. Ég tel þetta hins vegar líffræðilega fásinnu.

Samþykkt þessa frv. er mjög mikilvæg. Það er mjög mikilvægt fyrir hinar dreifðu byggðir, allt frá Breiðafirði og alveg austur um land. Það er skylda íslenskra stjórnvalda að stuðla að því að þær byggðir fái að njóta næstu fiskimiða sinna. Það að vera að svipta smábátana atvinnuréttindum og draga úr þeim er óþolandi. Það jaðrar við að hér sé um stjórnarskrárbrot að ræða vegna þess að kvótakerfið hefur verið réttlætt með því að heildarhagsmunum þjóðarinnar væri borgið með því að stofna ekki fiskstofnunum í hættu. Það er staðreynd að þó að við aukum sókn smábátanna eilítið mun það ekki stofna íslenska þorskstofninum í hættu.

Þetta hefur verið ein helsta leiðin fyrir unga menn að koma sér inn í útgerð. Þetta hefur verið leið fyrir menn að taka þátt í útgerð og það er það sem íslenskur sjávarútvegur þarf á að halda. Það gengur ekki að þetta sé lokaður klúbbur. Ungir menn verða að geta hafið sókn í þessum atvinnuvegi eins og öðrum. Framtíðarsýn fyrir íslenskan sjávarútveg er ekki björt ef enginn nýliði getur tekið þátt í sjávarútvegi.

Eins og ég sagði áður á ég von á því að hv. þm. sem lýstu því yfir að þeir væru fylgjandi þessu gólfi vestur á Ísafirði muni einnig gera það hér við Austurvöll.