Skerðing kolmunnakvóta

Mánudaginn 29. mars 2004, kl. 15:10:14 (5663)

2004-03-29 15:10:14# 130. lþ. 89.1 fundur 438#B skerðing kolmunnakvóta# (óundirbúin fsp.), MÞH
[prenta uppsett í dálka] 89. fundur, 130. lþ.

[15:10]

Magnús Þór Hafsteinsson:

Hæstv. forseti. Ég beini fyrirspurn minni til hæstv. sjútvrh. Ástæðan er sú að sjútvrh. hefur ákveðið að kolmunnakvóti íslenskra skipa verði 493 þús. tonn á þessu ári. Þetta er 10% skerðing frá síðasta ári og mig langar til að vita hverjar röksemdir sjútvrh. eru fyrir þeirri ákvörðun.

Í ljós hefur komið í fréttum að Norðmenn hafa hafið kolmunnaveiðar. Það er mokveiði vestur af Skotlandi. Þeir eru nú þegar búnir að rífa upp rúmlega 300 þús. tonn á tiltölulega fáum vikum. Færeyingar eru sjálfir búnir að veiða 100 þús. tonn. Þessar veiðar ganga afskaplega vel og einhvern veginn er það þannig að þó að veiðar hafi verið miklar úr fiskstofninum á undanförnum árum, langt umfram ráðgjöf fiskifræðinga, er eins og varla sjái högg á vatni.

Við erum núna í mjög erfiðum samningaviðræðum um skiptingu á veiðum úr þessum stofni við önnur strandríki í Norður-Atlantshafi, Norðmenn, Rússa, Færeyinga og Evrópusambandið. Þær samningaviðræður ganga mjög illa en það virðist sem sagt vera þannig að Norðmenn séu að reyna að tryggja sér samningsaðstöðu sína með því að stunda hömlulausar veiðar. Færeyingar virðast vera að gera það sama en við Íslendingar sitjum á hakanum, rígnegldir niður í þessa kvótasetningu sem er, eins og ég sagði áðan, 10% minni en hún var í fyrra. Mér finnst þetta skjóta afskaplega skökku við.