Skerðing kolmunnakvóta

Mánudaginn 29. mars 2004, kl. 15:15:02 (5666)

2004-03-29 15:15:02# 130. lþ. 89.1 fundur 438#B skerðing kolmunnakvóta# (óundirbúin fsp.), sjútvrh.
[prenta uppsett í dálka] 89. fundur, 130. lþ.

[15:15]

Sjávarútvegsráðherra (Árni M. Mathiesen):

Herra forseti. Ég geri ráð fyrir að hv. þm. hafi kynnt sér frumgögn í málinu og hvað liggur að baki mati fiskifræðinga á því að stofninn sé ofveiddur. Þá hefur hann örugglega tekið eftir því að mat þeirra byggist á því að verið er að veiða úr yngri og yngri árgöngum þannig að fiskurinn nær ekki að stækka og verða eldri og hrygna nægjanlega oft til að styrkja stofninn.

Hvað varðar það að stofnveiðarnar voru kvótasettar á sínum tíma var það gert til að ná tökum á veiðinni þegar við vorum að takmarka veiðarnar í fyrsta skipti. Það úrræði sem við höfum til að draga úr veiðum á stofni eins og kolmunnastofninum er að setja hann í kvóta. Hafi einhverjar útgerðir, einhver tiltekin bæjarfélög eða landshlutar minni kvóta en einhverjir telja að þeir ættu að hafa er það vegna þess að þeir höfðu ekki aflareynslu á þeim tíma þegar stofninn var kvótasettur og aðrir höfðu verið að veiða árin á undan sem lögð voru til grundvallar.