Endurgreiðsla tannlæknakostnaðar

Mánudaginn 29. mars 2004, kl. 15:22:49 (5672)

2004-03-29 15:22:49# 130. lþ. 89.1 fundur 439#B endurgreiðsla tannlæknakostnaðar# (óundirbúin fsp.), heilbrrh.
[prenta uppsett í dálka] 89. fundur, 130. lþ.

[15:22]

Heilbrigðisráðherra (Jón Kristjánsson):

Herra forseti. Það kom m.a. fram á ráðstefnunni að það er almenn skoðun að tannheilsa íslenskra barna sé með því besta í Evrópu og við þurfum auðvitað að vera á verði hvort við höldum þeirri stöðu. Þær rannsóknir sem ég nefndi eru til þess að renna stoðum undir það.

Eins og er telja sumir af þeim fyrirlesurum sem fram komu þarna að hætta sé á að tannheilsunni hraki en við þurfum að fá úr því skorið. Ég vil undirstrika að þarna eru mjög mikil tækifæri fyrir hvern og einn að hafa uppi forvarnir vegna þess að forvarnir í þessum geira eru afar einfaldar, að nota flúortannkrem og hirða um tennurnar. Ábyrgð foreldra er mikil í því efni og hægt að hafa uppi forvarnir með litlum tilkostnaði.