Norræni tungumálasamningurinn og táknmál

Mánudaginn 29. mars 2004, kl. 15:26:13 (5675)

2004-03-29 15:26:13# 130. lþ. 89.1 fundur 440#B norræni tungumálasamningurinn og táknmál# (óundirbúin fsp.), RG
[prenta uppsett í dálka] 89. fundur, 130. lþ.

[15:26]

Rannveig Guðmundsdóttir:

Virðulegi forseti. ,,Lýðræðið er ekki sjálfgefið heldur þarf stöðugt að vaka yfir því. Leita þarf leiða til að allir samfélagshópar fái sem best notið lýðræðislegra réttinda. Í sönnu lýðræðisþjóðfélagi er engin rödd svo veik að hún heyrist ekki,`` segir í formennskuáætlun Íslands sem er með formennsku í norrænu ráðherranefndinni á þessu ári.

Mjög hefur verið rætt um stöðu heyrnarlausra á vettvangi Norðurlandaráðs undanfarin missiri, m.a. hafa jafnaðarmenn í Norðurlandaráði þrýst á upptöku táknmálsins í tungumálasamninginn. Í skýrslu Ole Norrback um landamærahindranir var bent á að heyrnarlausir njóta ekki sama réttar og aðrir Norðurlandabúar þegar kemur að rétti til túlkunar í samskiptum við opinberar stofnanir.

Á grundvelli sömu skýrslu var ákveðið að endurskoða norræna tungumálasamninginn og auk grænlensku, færeysku og samísku var starfshópi sem hefur verið að störfum undanfarna mánuði falið að kanna möguleikana á að bæta táknmáli í tungumálasamninginn.

Norræni tungumálasamningurinn gefur heyrnarlausum ekki rétt hér heima, heldur annars staðar á Norðurlöndunum, en enginn vafi er á að jákvæð niðurstaða nefndarstarfsins mun hafa þýðingu varðandi að sækja frekari rétt heima á Íslandi.

Fyrirhugað er að starfshópurinn skili af sér í maí og því spyr ég hæstv. menntmrh. hvaða umboð fulltrúi Íslands í starfshópnum hafi frá ríkisstjórninni á formennskuári Íslands með svo glæsilega stefnumörkun í farteskinu varðandi þetta mikilvæga mál, að táknmálið fari inn í norræna tungumálasamninginn.