Gjaldtaka af umferðarmannvirkjum

Mánudaginn 29. mars 2004, kl. 15:31:35 (5680)

2004-03-29 15:31:35# 130. lþ. 89.1 fundur 441#B gjaldtaka af umferðarmannvirkjum# (óundirbúin fsp.), JÁ
[prenta uppsett í dálka] 89. fundur, 130. lþ.

[15:31]

Jóhann Ársælsson:

Hæstv. forseti. Ég beini fyrirspurn til hæstv. samgrh. út af gjaldtöku vegna samgöngumannvirkja. Um þetta hefur orðið nokkur umræða, m.a. fyrir kosningar, sérstaklega vegna gjaldtöku í Hvalfjarðargöngum. Inn í málið hefur einnig blandast umræða um gjaldtöku fyrir önnur samgöngumannvirki, t.d. Sundabraut og fleiri samgöngumannvirki.

Hæstv. ráðherra hefur verið yfirlýsingaglaður varðandi lækkun kostnaðar í Hvalfjarðargöngum og afnám virðisaukaskatts eða lækkun á honum. Einnig lýsti ráðherrann því yfir á Alþingi, líklega 5. desember, að nefnd sem hann hefur skipað ætti upp úr áramótum, eins og hæstv. ráðherra sagði í ræðunni, að skila tillögu um stefnumörkun í gjaldtöku vegna samgöngumannvirkja. Það er mjög brýnt að slík stefnumörkun verði til sem allra fyrst.

Það er verið að grafa jarðgöng á Austurlandi. Fyrirhugað er að grafa fleiri. Það þarf auðvitað að liggja fyrir stefnumörkun um hvernig eigi að standa að gjaldtöku fyrir samgöngumannvirki, eigi á annað borð á að gera það. Þar þarf að gæta hófs og jafnvægis milli landshluta.

Ég spyr því hæstv. samgrh. hvort það sé búið að rífa af dagatalinu í ráðuneytinu, hvort tíminn upp úr áramótum sé ekki kominn, hvort tillögur nefndarinnar liggi fyrir og hvað við eigum að fjalla um í framhaldi af vinnu hennar um gjaldtöku vegna samgöngumannvirkja af því tagi sem hér hafa verið nefnd.