Gjaldtaka af umferðarmannvirkjum

Mánudaginn 29. mars 2004, kl. 15:38:17 (5684)

2004-03-29 15:38:17# 130. lþ. 89.1 fundur 441#B gjaldtaka af umferðarmannvirkjum# (óundirbúin fsp.), JÁ
[prenta uppsett í dálka] 89. fundur, 130. lþ.

[15:38]

Jóhann Ársælsson:

Hæstv. forseti. Það kom fram í skýrslu nefndar sem hæstv. ráðherra skipaði að ýmsar leiðir væri hægt að fara til að lækka gjöldin í göngin, m.a. mætti yfirtaka hamfaratryggingu og hryðjuverkaárásartryggingu sem er á þessum göngum og fá þannig fram lækkun á gjaldinu fyrir að nota göngin. Eins liggur fyrir loforð um að virðisaukaskattur af gjaldinu verði felldur niður eða lækkaður.

Ég er auðvitað áhugamaður um að gjald af umferð um þessi göng verði lækkað en mér finnst hæstv. ráðherra, þó hann segist vera áhugamaður um það, ekki mjaka sér mjög hratt í málinu. Hinu hef ég svo enn meiri áhyggjur af, þ.e. að það gangi ekki nógu vel að koma framtíðarstefnumörkun hvað þessi málefni varðar á lappirnar. Það er nauðsynlegt að slík stefnumörkun liggi fyrir áður en menn opna umferð um næstu göng í landinu.