Hugbúnaðarkerfi ríkisins

Mánudaginn 29. mars 2004, kl. 15:52:45 (5691)

2004-03-29 15:52:45# 130. lþ. 89.94 fundur 436#B hugbúnaðarkerfi ríkisins# (umræður utan dagskrár), Flm. JóhS (flutningsræða)
[prenta uppsett í dálka] 89. fundur, 130. lþ.

[15:52]

Jóhanna Sigurðardóttir:

Herra forseti. Ástæða þess að ég hef óskað eftir að eiga orðastað við hæstv. fjmrh. utan dagskrár er svar sem ég fékk frá hæstv. ráðherra um upptöku nýs hugbúnaðarkerfis. Af því svari er full ástæða til að draga þá ályktun að Alþingi hafi verið gefnar rangar og villandi upplýsingar á árinu 2001 og aftur á árinu 2002 þegar ákveðið var að endurnýja bókhalds- og starfsmannakerfi ríkisins.

Samkvæmt nýlegu svari fjmrh. til mín voru útgjöld ríkisins vegna þessa á árunum 2001--2003, þ.e. á þremur árum, samtals 1.535 millj. kr. Á þessu ári mun svo bætast við kostnaður upp á 300 millj. þannig að útgjöldin eru að nálgast 2 milljarða kr. en þegar Alþingi var fyrst kynnt málið á árinu 2001 er einungis gert ráð fyrir 160 millj. kr. framlagi til kaupa og aðlögunar á hugbúnaðarkerfi. Svo mikið klúður hefur líka verið á allri framkvæmdinni að enn er verið að reka tvö kerfi samtímis auk reksturs á nýju kerfi á þessu ári. Kostar um 96 millj. til viðbótar að reka gamla kerfið. Enginn veit hvort það stenst sem nú er áformað, að taka upp nýtt kerfi um nk. áramót og leggja af það gamla, auk þess sem ég heyri víða miklar efasemdir og áhyggjur í stjórnkerfinu um hvernig þetta kerfi muni standa sig.

Ég vil rökstyðja það nánar, hæstv. forseti, hvers vegna ég tel að Alþingi hafi verið gefnar rangar og villandi upplýsingar sem er mjög alvarlegt. Víða erlendis varðar það við lög um ráðherraábyrgð. Þegar áform um nýtt bókhalds- og starfsmannakerfi fyrir ráðuneyti og stofnanir þess var fyrst kynnt á fjárlögum ársins 2001 var einungis gert ráð fyrir 160 millj. kr. framlagi til kaupa og aðlögunar á nýju bókhalds- og starfsmannakerfi fyrir ráðuneyti og stofnanir þess, eins og það var orðað í greinargerð fjárlaganna. Síðan kom fram í greinargerð að ekki væri fyrirhugað að láta smíða nýtt bókhaldskerfi sérstaklega fyrir ríkisreksturinn, heldur yrði leitað eftir stöðluðum kerfum sem þegar eru fyrir hendi ásamt viðeigandi aðlögun í útboði á verkinu. Í engu var þess getið að hér væri einungis um brot af áætluðum útgjöldum að ræða vegna hugbúnaðarkerfisins og því var þingið látið standa í þeirri trú að um heildarútgjöld væri að ræða. Svo bregður við að þá þegar í fjáraukalögum þetta sama fjárlagaár, árið 2001, er leitað eftir 350 millj. kr. aukafjárveitingu til viðbótar 160 millj. í fjárlögum sama ár.

Í skýringum í fjáraukalögum kemur fram að samkvæmt samningi fjmrn. og Skýrr hf. sé kostnaður vegna nýs fjárhags- og starfsmannakerfis ríkisins um 819 millj. kr. Ekkert er getið um að fjárhæðin sé án virðisaukaskatts sem hækkað hefði fjárhæðina í rúman 1 milljarð og enn á ný látið líta svo út að um heildarkostnað sé að ræða.

Samkvæmt svari fjmrh. til mín svara áætluð útgjöld á árinu 2004 og heildarkostnaður við hugbúnaðarkerfið nær 1.900 millj., þ.e. rúmum milljarði umfram þann kostnað sem getið var um í fjáraukalögum árið 2001, langt yfir 100%. Ef miðað er við frá fjárlögum 2001 þegar áformin voru fyrst kynnt og einungis rætt um 160 millj. kr. kostnað stöndum við nú frammi fyrir tólffalt hærri fjárhæð, eða nálægt 2 milljörðum kr.

Fram kemur líka í svari hæstv. fjmrh. að það muni kosta um 200 millj. á ári að reka kerfið og til viðbótar þessum 200 millj. þurfi að gera ráð fyrir frekari þróun og uppsetningu á kerfinu. Það er meira en tvöfalt hærri fjárhæð en kostar að reka gamla kerfið. Bæði stofn- og rekstrarkostnaður virðist því hafa farið úr öllum böndum og vera langt frá því sem Alþingi var gerð grein fyrir. Þarna er greinilega ekki krafist sama aðhalds og sparnaðar og hjá sjúkrahúsum eða í velferðarkerfinu.

Það furðulega í svarinu er líka að fjmrn. viðurkennir að hafa blekkt þingið vísvitandi með röngum upplýsingum. Í svarinu kemur fram að við gerð fjárlaga fyrir árið 2001 hafi einungis verið sett fram fjárlagabeiðni sem byggðist á áætlun fjársviðsins um kostnað við innleiðingu kerfisins eða um 160 millj. en kostnaðurinn nú þegar er að verða nær 2 milljarðar eða tólffalt hærri fjárhæð en Alþingi var kynnt í upphafi. Skýringin sem borin er á borð fyrir þingið í svarinu er að það hafi verið gert vegna þess að fjárlög kæmu fram á undan útboði og því hafi ekki þótt rétt að upplýsa bjóðendur um hvað ríkið gerði ráð fyrir að kerfi mundi kosta. Með öðrum orðum var Alþingi vísvitandi blekkt og því voru gefnar rangar og villandi upplýsingar. Eftir því sem ég kemst næst hafa aldrei, hvorki þá né síðar, verið lagðar réttar kostnaðaráætlanir um verkið fyrir þingið og Alþingi ekki einu sinni gerð grein fyrir því rétta í stöðunni eftir að útboð fór fram og samningar voru gerðir á árinu 2001.

Ég sé ekki annað í þessari stöðu en að leita til Ríkisendurskoðunar og fá hana til að gera úttekt á öllu málinu frá byrjun, m.a. hvernig staðið var að upplýsingaskyldu til fjárveitingavaldsins um kostnað vegna þessa hugbúnaðarkerfis. Erlendis, t.d. í Danmörku, varðar það við lög um ráðherraábyrgð að veita þjóðþinginu rangar og villandi upplýsingar. Hér hefur ítrekað verið reynt að fá slíkt inn í lög um ráðherraábyrgð en ekki tekist. Ég mun því óska eftir því í framhaldi af þessari umræðu að málinu verði vísað til skoðunar hjá Ríkisendurskoðun.

(Forseti (HBl): Það er ekki hægt að vísa utandagskrárumræðu til Ríkisendurskoðunar.)