Húsnæðismál

Mánudaginn 29. mars 2004, kl. 16:28:03 (5703)

2004-03-29 16:28:03# 130. lþ. 89.7 fundur 785. mál: #A húsnæðismál# (íbúðabréf) frv., SigurjÞ (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 89. fundur, 130. lþ.

[16:28]

Sigurjón Þórðarson (andsvar):

Herra forseti. Einnig væri fróðlegt að fá að heyra mat hæstv. ráðherra varðandi 17. gr. Þar kemur fram að Íbúðalánasjóður geti áskilið sér rétt til vaxtaálags til að mæta rekstrarkostnaði og einnig kostnaði sem getur orðið vegna þess að ef við fáum lægri vexti út úr þessum útboðum sem vonast er til og eru talsverðar líkur til verður ákveðin tilhneiging hjá lántakendum til að endurfjármagna eldri lán. Fólk vill náttúrlega geta endurfjármagnað lán sem bera hærri vexti. Það mun örugglega tefja það að íbúðakaupendur fái strax lægri vexti með lánunum. Það væri fróðlegt að fá að heyra í máli hæstv. ráðherra hvernig hann sjái fyrir sér þá þróun. Munu margir íbúðakaupendur fara í að endurfjármagna lán sín? Mun það þá ekki verða til þess að vextir lækki strax? Hvernig verður þróunin?

Sérfræðingar Íbúðalánasjóðs hafa eflaust reynt að gera sér grein fyrir þessu. Einnig hljóta menn að hafa séð fyrir sér að einhverju marki þróun hámarkslánanna. Ég tel nauðsynlegt að fá að heyra það í máli hæstv. ráðherra. Ég skora á hann enn á ný að koma fram með hvernig hann sjái fyrir sér að hámarkslánin verði.