Húsnæðismál

Mánudaginn 29. mars 2004, kl. 16:31:38 (5705)

2004-03-29 16:31:38# 130. lþ. 89.7 fundur 785. mál: #A húsnæðismál# (íbúðabréf) frv., ÞBack (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 89. fundur, 130. lþ.

[16:31]

Þuríður Backman (andsvar):

Herra forseti. Ég óska eftir frekari upplýsingum við upphaf þessa máls. Ég vil taka fram að ef af þessum breytingum verður og það rætist að vextir af íbúðalánum lækki þá er það af hinu góða. Það skiptir m.a. máli í þessu sambandi.

Ég vildi fá upplýsingar varðandi Íbúðalánasjóð og það fyrirkomulag sem við höfum í dag, ákveðna stjórnsýslu sem heldur utan um lán til íbúðakaupa. Nú á að fella niður húsbréfin sem verið hafa og færa greiðslurnar yfir í beinar peningagreiðslur. Ég vil fá svör frá hæstv. ráðherra varðandi Íbúðalánasjóðinn: Er það á stefnuskrá hæstv. ríkisstjórnar og ráðherra að halda Íbúðalánasjóðnum áfram og því fyrirkomulagi, eða er þetta undanfari og undirbúningur þess að koma lánveitingum til íbúðakaupa yfir í bankakerfið?