Húsnæðismál

Mánudaginn 29. mars 2004, kl. 17:06:20 (5713)

2004-03-29 17:06:20# 130. lþ. 89.7 fundur 785. mál: #A húsnæðismál# (íbúðabréf) frv., JóhS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 89. fundur, 130. lþ.

[17:06]

Jóhanna Sigurðardóttir (andsvar):

Hæstv. forseti. Mér þykir mjög miður að hæstv. ráðherra getur ekki talað skýrar þegar leigjendur eiga í hlut. Þeir ættu að hafa forgang þegar við ræðum breytingar á stöðu leigjenda og húsnæðismálin. Þess vegna þykir mér það miður. Mér finnst reyndar svör hans gefa tilefni til að ætla að ekkert verði gert í málefnum leigjenda áður en þingi lýkur, því miður.

Varðandi það hvort áhugi erlendra fjárfesta á þessum nýju bréfum verði meiri eða minni en varðandi kaup þeirra á húsbréfunum, sem ég nefndi að hefði vaxið mjög á umliðnu ári, verður auðvitað tíminn einn að leiða í ljós. Ég held að við getum ekki karpað mikið um það hér í ræðustól. Það verður bara að koma í ljós hvort áhugi þeirra verði meiri eða minni á fjárfestingu í slíkum bréfum.

Ég varpaði því fram áðan um áhættustýringuna sem hæstv. ráðherra nefnir, hvort Ráðgjöf og efnahagsspá hafi verið falið það verkefni að meta vaxtaáhættuna í kerfinu. Ég gat ekki heyrt að hæstv. ráðherra svaraði því. En ég sé að hæstv. ráðherra kinkar kolli þannig að þetta ætti þá að liggja fyrir. Ég spyr þá um niðurstöðuna af þeirri áhættugreiningu. Ég hefði gjarnan viljað sjá hana með þessu frv. af því að boðað var að þetta mundi liggja fyrir áður en frv. yrði lagt inn í þingið. Nauðsynlegt er að þingið fái þetta til meðferðar einnig vegna þess að þetta er mikilvægur þáttur í því hvort hér sé verið gera breytingu, eða a.m.k. meta það eins og kostur er, sem skilar sér til hagsbóta fyrir kaupendur og seljendur íbúða, sem er auðvitað meginmarkmiðið og ræðst af því hver afstaða mín til frv. endanlega verður í þinginu.