Húsnæðismál

Mánudaginn 29. mars 2004, kl. 17:08:28 (5714)

2004-03-29 17:08:28# 130. lþ. 89.7 fundur 785. mál: #A húsnæðismál# (íbúðabréf) frv., HjÁ (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 89. fundur, 130. lþ.

[17:08]

Hjálmar Árnason (andsvar):

Frú forseti. Engum dylst að húsbréfakerfið sem hv. þm. Jóhanna Sigurðardóttir stóð að í félagsmálaráðherratíð sinni reyndist afskaplega vel og var ákaflega jákvæð félagsleg aðgerð sem leysti af hólmi fyrirkomulag sem hafði gefist miður vel og hlýtur hv. þm. Jóhanna Sigurðardóttir ævarandi þakkir fyrir.

En börn eldast og nú er svo komið að barnið er að verða stálpað. Þá gerist það núna eins og oft að barnið fer að heiman. Það er oft sársaukafullt að sjá á eftir ungunum sínum fara að heiman. En tímarnir hafa breyst og sannarlega er fjármálaumhverfið öðruvísi núna en var þegar núverandi húsbréfakerfi var komið á. Ég tel að frv. sem hér liggur fyrir taki einmitt mið af breyttu umhverfi.

Ég spyr hvort hv. þm. geti ekki verið sammála því að það að einfalda fyrirkomulagið, að gera þetta vænlegri fjárfestingarkost --- og þá ætti það að leiða til þess að vextir í landinu munu lækka --- sé í sjálfu sér eitt og sér afskaplega jákvæð félagsleg aðgerð, ekki bara fyrir heimilin heldur efnahagslífið í heild sinni, því eins og hv. þm. veit stýrir ekkert jafnmikið vaxtastiginu í landinu og þau lán sem hér eru til umræðu.

Í annan stað, hvað afföllin varðar, er auðvitað reginmunur á því að í stað þess að taka allt að 25% afföll í byrjun, þegar síst skyldi, er verið að dreifa þessum vaxtamun yfir allt tímabilið. Það hlýtur að teljast jákvæð félagsleg aðgerð líka.

Að lokum hvað varðar dagsetninguna 15. apríl þá tekur hún auðvitað mið af því, geri ég ráð fyrir, hvenær frumvarpið var samið. En sé ætlunin að breyta húsbréfakerfinu yfir í íbúðabréf hlýtur að vera skynsamlegt að láta þá breytingu ganga fljótt fyrir sig til þess að eyða óvissu.