Húsnæðismál

Mánudaginn 29. mars 2004, kl. 17:12:56 (5716)

2004-03-29 17:12:56# 130. lþ. 89.7 fundur 785. mál: #A húsnæðismál# (íbúðabréf) frv., HjÁ (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 89. fundur, 130. lþ.

[17:12]

Hjálmar Árnason (andsvar):

Frú forseti. Rétt eins og tímarnir breytast þá breytast framsóknarmenn líka og ég vona að framsóknarmenn þurfi ekki að fara með þetta frv. í gegnum þingið með hv. þm. Jóhönnu Sigurðardóttur á bakinu heldur hafa hennar einlæga stuðning í málinu, enda er meginmarkmiðið með þessu, eins og fram hefur komið í umræðunni, að lækka vexti, að lækka afborgunina hjá þeim sem munu njóta þessara bréfa. Það er megintilgangurinn. Það hefur efnahagslega jákvæð áhrif. Það er trú okkar og sannfæring að það hafi jákvæð efnahagsleg áhrif fyrir efnahagslíf okkar allt og þar með almenning og fyrirtækin í landinu. Það sem skiptir mestu máli er að almenningur mun hafa greiðari aðgang að ódýrara fjármagni til þess að koma sér upp þaki yfir höfuðið. Þau eru markmiðin og ég veit að við hv. þm. Jóhanna Sigurðardóttir deilum þeim markmiðum saman. Ég trúi því og skynja það að hv. þm. hefur séð ljósið í þessu góða frv. og hlakka ég til þess að vinna það með henni í hv. félmn.