Húsnæðismál

Mánudaginn 29. mars 2004, kl. 17:41:13 (5724)

2004-03-29 17:41:13# 130. lþ. 89.7 fundur 785. mál: #A húsnæðismál# (íbúðabréf) frv., félmrh.
[prenta uppsett í dálka] 89. fundur, 130. lþ.

[17:41]

Félagsmálaráðherra (Árni Magnússon):

Hæstv. forseti. Ég þakka fyrir þá umræðu sem hér hefur farið fram um það mál sem ég hef mælt fyrir.

Ég vil í upphafi þessarar lotu máls míns byrja á að bregðast við nokkrum þeim efnislegu atriðum sem fram hafa komið hér, einkum í máli hv. þm. Jóhönnu Sigurðardóttur. Hv. þm. gerir að umtalsefni hagnað Íbúðalánasjóðs á fyrst og fremst undanförnum tveimur árum. Þessar tölur hafa vakið athygli mína eins og þingmannsins og vissulega er ástæða til að fagna því að Íbúðalánasjóður er rekinn með þeim myndarbrag sem þarna um ræðir þótt ekki sé það hlutverk hans að skila arði svo neinu nemi, heldur fyrst og fremst að tryggja fólkinu í landinu sem hagkvæmust húsnæðislán. Í því liggur kannski grundvöllur þess að sá er hér stendur hefur verið talsmaður þess að viðhalda húsnæðislánakerfi okkar inni í Íbúðalánasjóði en færa það ekki yfir í bankakerfið, þ.e. að þarna er um eðlismun að ræða í starfsemi þessara tveggja, Íbúðalánasjóðs annars vegar og bankanna hins vegar. Bönkunum er auðvitað fyrst og fremst ætlað að skila eigendum sínum arði á meðan Íbúðalánasjóði er ekki ætlað það sem gerir það að verkum að hann getur rekið sig fyrir minni afgang en bankarnir.

Hvað varðar hugleiðingar hv. þingmanns um vexti og af hverju ekki hefði mátt ganga lengra í átt til lækkunar þeirra vil ég, hæstv. forseti, minna á að um áramótin voru vextir af viðbótarlánum og vegna lána til endurbóta lækkaðir úr 5,7% og 5,6% í 5,3%. Þannig háttaði til á þeim tíma að Seðlabanki Íslands varaði við mikilli vaxtalækkun með tilliti til aðstæðna í efnahagslífi okkar og niðurstaða stjórnar Íbúðalánasjóðs varð sú að taka tillit til þeirra ábendinga á þeim tíma. Þarna er samt sem áður um áþreifanlega lækkun vaxta að ræða á þeim tíma.

Hv. þm. gerði að umfjöllunarefni 4. gr. frv., um þjónustugjöld. Þar er ekki um neina efnislega breytingu að ræða frá því sem nú er í lögunum og ef ég man rétt er fjallað um þetta í 49. gr. núgildandi laga.

Hv. þm. spyr hvort sá er hér stendur hafi áhyggjur af hvatningarorðum bankanna, a.m.k. sumra, og greiningardeilda þeirra til húsnæðiskaupenda um að fresta íbúðakaupum. Sá er hér stendur er hvorki spámaður né spámannlega vaxinn og þess vegna hef ég lagt á það mikla áherslu, hæstv. forseti, í málflutningi mínum um allt þetta mál að ganga varlega um þær dyr og kveða ekki fastar að orði en ég hef talið skynsamlegt á hverjum tíma. Í því ljósi tel ég að fara beri varlega þegar spáð er um framtíðina í þessum efnum. Þarna er um að ræða mál sem varða hagsmuni fjölskyldnanna í landinu mjög miklu og þrátt fyrir að hér sé lagt fram frv. til laga sem ég geri ráð fyrir að muni í fyllingu tímans leiða til lækkunar vaxta og sé þar með til hagsbóta fyrir fjölskyldurnar í landinu tel ég að það sé a.m.k. ekki mitt hlutverk að hvetja fólk til hvort sem er að hrökkva eða stökkva.

Í þessu sambandi spurði hv. þm. einnig hvort merkja mætti það af útlánum Íbúðalánasjóðs að íbúðakaupendur væru að fresta viðskiptum sínum. Ef mig brestur ekki minni er um að ræða 3% útlánaaukningu sjóðsins ef bornir eru saman febrúarmánuðir í fyrra og á þessu ári. Það er því ekki um samdrátt að ræða í útlánum sjóðsins.

Ég tel, hæstv. forseti, að ég hafi þá svarað þeim spurningum sem upp hafa komið við þessa umfjöllun. Ég tek undir með hv. þingmönnum að það er auðvitað mikilvægt að málið fái vandaða umfjöllun í félmn. Hér er um viðamikið mál að ræða sem varðar fjölskyldurnar í landinu mjög miklu, hagsmuni þeirra og alla framtíð. Þegar um svona mál er að ræða koma vissulega til álita ýmsar leiðir til útfærslu. Í félmrn. og með Íbúðalánasjóði og fleiri aðilum höfum við legið yfir málinu vikum og mánuðum saman sem eðlilegt er. Ég hef sannfæringu fyrir því að hér sé komið fram mál sem verði til framfara á húsnæðismálamarkaði okkar og að hér séu þá tíndar til þær aðferðir sem bestar megi reynast til framtíðar.

Að því mæltu ítreka ég ósk mína um að máli þessu verði vísað til 2. umr. og félmn. til umfjöllunar og þakka hv. þingmönnum þátttöku í umræðunni.