Húsnæðismál

Mánudaginn 29. mars 2004, kl. 17:49:46 (5726)

2004-03-29 17:49:46# 130. lþ. 89.7 fundur 785. mál: #A húsnæðismál# (íbúðabréf) frv., félmrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 89. fundur, 130. lþ.

[17:49]

Félagsmálaráðherra (Árni Magnússon) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég vil í upphafi vitna til 49. gr. gildandi laga þar sem fjallað er um gjaldtöku. Þar segir orðrétt, með leyfi forseta:

,,Félagsmálaráðherra ákvarðar með reglugerð, að fengnum tillögum stjórnar Íbúðalánasjóðs, lántökugjöld, gjöld vegna innheimtu af lánum stofnunarinnar sem eru í vanskilum og gjöld vegna skuldbreytinga, veðleyfa og veðbandslausna, svo og gjöld vegna annarrar sambærilegrar þjónustu. Heimilt er að jafna kostnaði niður á skuldara þannig að búseta hafi ekki áhrif á kostnaðinn.``

Í 50. gr. er fjallað um að félmrh. setji með reglugerð nánari ákvæði um framkvæmd laga þessara.

Þarna er því, hæstv. forseti, ekki um neina efnislega breytingu að ræða. Þarna kemur fyrir orðið þjónustugjöld, vissulega, en í gildandi lögum er sagt, með leyfi forseta:

,, ... svo og gjöld vegna annarrar sambærilegrar þjónustu`` --- eða þjónustugjöld.

Eins og fram kom í máli mínu áðan, hæstv. forseti, liggur fyrir mikil vinna í félmrn. að baki frv. og vissulega mun hv. félmn. fara yfir málið og að sjálfsögðu hafa aðgang að þeim upplýsingum sem fyrir liggja í félmrn. Hluti af því sem lýtur að endanlegri vaxtaákvörðun Íbúðalánasjóðsins er, hæstv. forseti, eins og fram kom í máli mínu fyrr í dag, þess eðlis að það varðar viðkvæmar upplýsingar á markaði og fara verður með þær upplýsingar í samræmi við það.